Fyrir öll stærstu íþróttamót í heimi hefur orðið til sú hefð að mótstaðnum sé gefið líf með einhverskonar lukkudýrum sem skemmta börnum og setja svip sinn á hátíðarhöldin. Það er engin breyting á þessu á Ólympíuleikunum í Ríó.
Ólympíuleikarnir í Ríó hafa átt undir högg að sækja undanfarna mánuði vegna ýmissa vankanta á framkvæmd mótsins. Stjórnvöldum í Brasilíu hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir að tryggja ekki vatnsgæði á keppnisstöðum (sérstaklega í róðri), fyrir húsnæði íþróttafólksins og Zíka-veirufaraldurinn sem enn herjar á Brasilíu. Vegna allra þessara mála, og fleiri, þá hefur nánast ekkert verið fjallað um lukkudýrið.
Við kynnum til sögunnar lukkudýr Ólympíuleikanna í Ríó. Sá er kallaður Vinicius og er í fyrstu sýn álkulegur köttur sem hefur risið á afturlappirnar og fengið ávalan haus. Hann er ekki ósvipaður Hello Kitty-kettinum eftir nokkrar ferðir í þvottavél með vitlausum litum. Á vef lukkudýranna segir að Vinicius hafi „fæðst í gleðisprenginunni sem varð þegar Ríó var valin til að halda leikana í ár.“
En hönnuðir Viniciusar, sem nefndur er eftir brasilískum tónlistarmanni, virðast samt hafa leyst verkefni sitt því uppskriftin sem þeir fengu í hendurnar frá mótsstjórninni var eitthvað sem margir hefðu klórað sér lengi hausnum yfir. Þeir vildu fá blöndu af allskonar brasilískum dýrum og hönnunin átti að vera innblásin af dægurmenningu, tölvuleikjum og teiknimyndum. Ætli Vinicius sé ekki eðlileg niðurstaða úr þeirri jöfnu.
Ólympíulukkudýr hafa hins vegar í seinni tíð, með örfáum undantekningum, nær öll verið stórfurðuleg. Ólympíuvefur USA Today tók saman eftirfarandi dæmi af Twitter.
Þessi hér að ofan var lukkudýr Ólympíuleikanna í Atlanta í Bandaríkjunum 1996. Ómögulegt virðist að skýra tilvist þess.
Áströlsku lukkudýrin tóku líka mið af ástralskri fánu fyrir leikana í Sydney árið 2000.
Það eina breska við lukkudýrin á leikunum í London árið 2012 sýnist manni í fyrstu vera leigubílaskiltin sem báðar týpur bera á hausnum. Þegar betur er að gáð þá virðist hins vegar allt vera breskt við þessar fígúrur enda.
Í Sotsjí árið 2014 voru lukkudýrin hins vegar bara nokkuð „kjút“ – svona eins og markaðsfígúrur á Kelloggs-morgunkornspakka – þar til maður áttar sig á að þau voru auðvitað líka í sparibúningnum fyrir leikana eins og allt annað í kringum þessa dýrustu Ólympíuleika sögunnar.
Fjölbreyttir eins og náttúran
Vinicius er hins vegar ekki eina lukkudýrið í Ríó því í seinni tíð hefur það tíðkast að hafa tvær týpur. Vinicius á að hafa „eiginleika allra brasilískra dýra“ en frændi hans Tom verður lukkudýr Ólympíuleika fatlaðra. Tom er samkurl af fjölbreyttum plöntum og gróðri sem þrífst í Brasilíu.
Í anda leikanna þá eiga þessi lukkudýr að vera til þess að fagna náttúruperlunni Brasilíu og fjölbreyttri náttúrunni. En það er einnig önnur leið til að túlka hlutverk þessara fígúra, eins og sumir netmiðlar hafa kosið að gera. Vinicius og Tom eru samblanda af þekktustu tegundunum þar í landi en þeir eru einnig áminning um þær fórnir sem færðar eru til þess að halda íþróttamót á borð við þetta.
Vegna óhreinlætis verður róðrarmótið haldið í einhverskonar drullupytti sem Guanabara-flói var orðinn. Hryllilegar myndir bárust stuttu fyrir leikana af svæðinu þar sem mótið átti að fara fram og leikmaður velti fyrir sér hvernig það ætti að verða hægt að halda Ólympíumót innan um ruslið sem fyllti flóann. Nú hefur verið hreinsað til þannig að ásættanlegt er að keppa í vatninu. Ástandið er enn svo slæmt að fólki er ráðlagt að baða sig ekki í sjónum.
Nokkrum dögum áður en leikarnir hófust kom í ljós að loftgæðin í borginni Rio de Janeiro voru mun verri en ráðlagt er af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Og þetta hefur ekki aðeins áhrif á mannfólkið sem býr í borginni eða sækir leikana því dýrin, öll þau sem eru fyrirmynd Viniciusar líða einnig fyrir þennan subbuskap.
Til þess að Brasilía geti haldið öll þessi mót hafa stjórnvöld sagst þurfa að fella skóga og uppræta heimkynni villtra dýra. Fyrir Ólympíuleikana var til dæmis byggður nýr golfvöllur á svæði sem fyrir var ósnert náttúra og heimkynni villtra dýra og plantna. Fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2014 sem haldið var í Brasilíu voru margir ferkílómetrar af regnskóginum felldir til að reisa risastóran fótboltavöll. Inn í miðjum Amazon-frumskóginum.
Vinicius og Tom eru þess vegna ágætis áminning um fjölbreytileika Brasilíu og mikilvægi þess að hugsa um umhverfið. Náttúran er ekki bara vistarverur allra dýrategunda og plantna í heiminum heldur einnig mannsins. Án náttúrunnar erum við ekkert.