Útlendingastofnun tók ákvarðanir um að endursenda 103 einstaklinga til annarra ríkja á Schengen-svæðinu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar á fyrri helmingi þessa árs. Flestir voru eða verða sendir til Þýskalands, 31 einstaklingur, en 23 til Ítalíu og 22 til Noregs.
Þetta kemur fram í gögnum sem Útlendingastofnun hefur tekið saman að beiðni Kjarnans. Tölurnar eiga við um ákvarðanir Útlendingastofnunar en ekki framkvæmdar endursendingar. Oft er málum skotið til kærunefndar útlendingamála.
Stærsti hópurinn sem var sendur til annars Evrópuríkis á grundvelli reglugerðarinnar voru Írakar, 20 talsins. Sextán Albanir voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og fimmtán Afganir. Fjórtán Gana-búar voru sendir burt á þessum grundvelli og níu Nígeríumenn. Sex Íranir voru á meðal þeirra sem voru sendir til annarra Evrópuríkja á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Dyflinnarreglugerðin gerir stjórnvöldum kleift að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, eða hælisleitendur, aftur til þess ríkis innan Schengen sem þeir komu fyrst til. Þó má ekki senda fólk til ríkja þar sem hætta er á að það sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þannig hefur meginreglan verið sú um nokkurt skeið að fólk sem hingað kemur frá Grikklandi og Ungverjalandi sé ekki sent til baka þangað. Það átti líka við um Ítalíu, en innanríkisráðuneytið ákvað í desember, eftir að hafa farið yfir forsendur fyrir endursendingum hælisleitenda að það yrði meginreglan að fólk verði sent til Ítalíu, en að hvert atvik fyrir sig skyldi skoðað sérstaklega.
Þetta var gert þvert á ráðleggingar Rauða krossins, sem sagði að það væri ekki óraunhæft að álykta að flóttafólk standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á Ítalíu.
Níu einstaklingum var vísað úr landi og til Svíþjóðar á fyrstu sex mánuðum ársins og sex til Frakklands. Einn til tveir einstaklingar voru sendir til Belgíu, Danmerkur, Hollands, Írlands og Póllands.
Margfalt fleiri óska verndar hérlendis en áður
Margfalt fleiri sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi á fyrri helmingi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. 274 einstaklingar sóttu um vernd í ár, samanborið við 86 einstaklinga á sama tímabili í fyrra. Umsækjendum um vernd fór að fjölga verulega í ágúst í fyrra, og sú þróun hefur haldið áfram. Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að á bilinu 600 til 1000 einstaklingar muni óska verndar á þessu ári.
310 mál umsækjenda um vernd voru afgreidd á fyrri hluta ársins, sem eru næstum jafnmörg mál og voru afgreidd allt árið í fyrra. Af þessum 310 málum var um helmingur, eða 159 mál, tekinn til efnislegrar meðferðar.
Af þessum 159 var 106 synjað en 53 einstaklingar fengu vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Sautján einstaklingar frá Írak fengu vernd hér, tíu frá Íran og níu frá Sýrlandi. Fimm Afganir fengu vernd á Íslandi. Af þeim sem var synjað um vernd hérlendis voru 60 Albanir og 21 frá Makedóníu. Fjórum Kósóvó-búum og fjórum Serbum var neitað um vernd, sem og þremur Úkraínumönnum. Einstaklingum frá Tyrklandi, Nígeríu, Marokkó, Króatíu, Íran og Afganistan var neitað um vernd á Íslandi, sem og einum ríkisfangslausum einstaklingi.
Þá vekur athygli að tveimur Bandaríkjamönnum, tveimur Kandamönnum og einum Breta var synjað um vernd hér á landi.