Topp 10 – Erlendar kvikmyndir á Íslandi
Upp úr 1980 varð sprengja í íslenskri kvikmyndagerð og iðnaðurinn hefur vaxað og dafnað æ síðan. Upp úr 2005 varð svo annars konar sprenging, þ.e í erlendri kvikmynda-og þáttagerð hér á landi. Þetta gerðist að einhverju leyti vegna lagasetningar frá árinu 1999 þar sem kvikmyndaframleiðendur gátu fengið 12% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði hérlendis. Önnur ástæða er gott aðgengi, vegakerfi og stuttar vegalengdir að tökustöðum. En helsta ástæðan hlýtur að vera hið einstaka landslag sem hentar einkar vel, sérstaklega í hasarmyndir og vísindaskáldskap. Ísland er komið í tísku í Hollywood og erlend tökulið koma nú hingað á hverju einasta ári. Hér eru nokkrar af bestu myndunum og þáttunum sem teknar hafa verið upp hér á landi.
10. Batman Begins (2005)
Leðurblökumaðurinn hefur verið kvikmyndaður í bak og fyrir í gegnum tíðina og Batman Begins var fyrsta myndin í trílógíu leikstjórans Christopher Nolan. Hans myndir höfðu miklu alvarlegri og dekkri tón en hinar eldri og því tilvalið að fá hrjóstrugt íslenskt landslag að láni. Tekið var upp við Svínafellsjökul í vestanverðum Vatnajökli en veður setti reyndar strik í reikninginn (það var ekki nægur snjór á svæðinu!). Jökullinn var staðgengill fyrir Himalayjafjöllin, nánar tiltekið í litla Mið-Asíu ríkinu Bhutan. Þar lærir hinn ungi Bruce Wayne allar sínar bardagalistir af framtíðar illmenninu Ra´s al Ghul (Liam Neeson). Christian Bale, sem fór með hlutverk leðurblökumannsins, var ekkert sérstaklega hrifinn af veru sinni hér. „Það er fokking kalt á Íslandi. Og þeir borða hvali – þeir borða hvað sem er – lunda.“ Bale, sem er sjálfur mikill dýraverndunarsinni, segist einnig hafa verið hræddur um líf sitt við tökurnar á jöklinum sem bráðnaði ogbrotnaði undan leikurunum.
9. The Secret Life of Walter Mitty (2013)
Ben Stiller var allt í öllu í gamanmyndinni um Walter Mitty, skrifstofublók sem ferðast um heiminn í leit að týndum ljósmyndara tímaritsins Life. Hann lék aðalhlutverkið, leikstýrði og framleiddi myndina. Hann var líka út um allt Ísland við tökur og annar hver Íslendingur sagðist hafa séð honum bregða fyrir. Stór hluti myndarinnar gerist á Íslandi en Ísland leikur ekki bara sjálft sig. Atriði sem eiga að gerast á Grænlandi og í Afghanistan voru einnig tekin upp hér á landi. Stiller og félagar tóku upp á Stykkishólmi, Grundarfirði, Garðinum, Hveradölum, Þjórsárbrú, Skógafossi, Breiðamerkursandi, Höfn, Seyðisfirði og sjálfu Geirabakarí í Borgarnesi. Fyrir Íslendinga er einstaklega ruglingslegt að horfa á myndina, þ.e. ef maður þekkir til staðanna. Heiti staða og fjarlægðir milli þeirra eru algerlega afbakaðar. Ólíkt Bale þá var Stiller ákaflega snortinn af landi og þjóð.
8. Beowulf and Grendel (2005)
Myndin er byggð á enska miðaldakvæðinu Bjólfskviðu og gerist í Skandinavíu í kringum árið 500. Kviðan fjallar um hetjuna Bjólf (Gerard Butler) og risann Grendil (Ingvar E. Sigurðsson). Sturla Gunnarsson leikstýrði myndinni, Vestur Íslendingur sem flutti til Kanada á barnsaldri. Myndin var að hluta til íslensk framleiðsla, hún er alfarið skotin hér og fjöldi íslenskra leikara kemur við sögu t.d. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson. Hún er þó fyrst og fremst kanadísk og því á enskri tungu. Tökur fóru aðallega fram við Skógafoss og Jökulsárlón en veður reyndist tökuliðinu mjög erfitt. Það voru einhverjir mestu vindar í manna minnum. Margir bílar tökuliðsins skemmdust þegar þeir urðu fyrir fjúkandi hlutum, þakplötur rifnuðu af húsum og vegir voruvíða lokaðir. Þrátt fyrir erfiðleikana við tökurnar og misjafnt gengi myndarinnar, bæði hvað varðar aðsókn og gagnrýni, þá var Sturla yfir sig hrifinn af landi og þjóð og hefur síðan auglýst landið og hvatt fólk til að koma hingað.
7. A View to a Kill (1985)
Seinasta Bond-mynd Roger Moore og sú 14. í seríunni um spæjarann var kvikmyndin sem kom íslenskri náttúru á kortið í Hollywood. Roger Moore kom þó aldrei hingað né neinn af aðalleikurum myndarinnar eða leikstjórinn. Það var svokallað 2. tökulið, sem kom hingað í júní 1984 og tók upp senur í Jökulsárlóni og á Breiðamerkurjökli. Atriðið var eitt af þessum frægu opnunaratriðum sem yfirleitt tengjast söguþræði Bond myndanna ekki neitt. Ísland (og Sviss) var að þessu sinni staðgengill Síberíu þar sem 007 flýr undan rauða hernum á skíðum, snjósleða og snjóbretti auk þess sem hann grandar þyrlu. Allt leikið af áhættuleikurum og íslenskum skíðamönnum. Meðal þeirra sem léku í atriðinu var Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur. Þyrlan, sem flutt var frá Skotlandi, var m.a. notuð við sjúkraflug á meðan tökunum stóð.
6. Judge Dredd (1995)
Mikil leynd hvíldi yfir tökum fyrir kvikmyndina Judge Dredd í júlímánuði árið 1994. Framleiðendurnir óttuðust að ef út fréttist að kvikmynd með sjálfum Sylvester Stallone væri tekin upp hér þá myndi fólk streyma að. En svo var tekin ákvörðun um að hann kæmi ekki til landsins heldur yrði notaður staðgengill. Staðgengillinn var reyndar Íslendingur að nafni Sigurður John Lúðvíksson, sem rak um tíma verslanir sem seldu hjálpartæki ástarlífsins, hann var nauðalíkur Sly. Myndin er gerð eftir samnefndri breskri teiknimyndasögu þar sem árið er 2080 og Jörðin svotil ónýt. Fólk býr í lokuðum risaborgum og „dómarar“ sjá um allt í senn, löggæslu, dómsúrskurði og fangelsun eða aftökur. Einungis eitt lítið atriði var tekið upp hér, í námunda við Heklu. Framleiðandi myndarinnar sagði: „Við komum til Íslands eingöngu til að mynda landslagið. Okkur vantaði gróðurlaust og dálítið ógnvekjandi landslag og eftir nokkra leit fundum við það sem við vorum að leita að.“
5. Star Wars: The Force Awakens (2015)
Íslendingar spenntust upp þegar þeir fréttu af því að einhverjir hlutar nýjustu kvikmyndarinnar um Stjörnustríðið yrðu teknir hér á landi. Tökulið komu hingað í nokkur skipti á árinu 2014 en mikil leynd hvíldi yfir verkefninu. Sögusagnir flugu t.a.m. um að Chewbacca hefði sést á Eyjafjallajökli og að ísplánetan Hoth úr annarri myndinni, The Empire Strikes Back, væri komin aftur til sögunnar. Þegar myndin kom loks í kvikmyndahús var ljóst að Ísland var í miklu aukahlutverki og erfitt að greina hvað var tekið hér upp. Jafnvel einungis bakgrunnsskot. Vitað er að tökuliðin voru að störfum við eldgíginn Víti í Kröflu og á svörtum Mýrdalssandinum. En einnig er vitað einhver atriði fyrir næstu Stjörnustríðsmynd, Rogue One, voru tekin hér á svipuðum tíma. Hvort Ísland verður í stærra hlutverki þar verður að koma í ljós.
4. Oblivion (2013)
Oblivion gerist árið 2077 þegar mannkynið hefur þurft að flýja Jörðina til Títans, sem er eitt af tunglum Satúrnusar, vegna stríðs. Par sem leikið er af Tom Cruise og Andreu Riseborough er skilið eftir á Jörðinni til að hafa eftirlit með henni.....eða svo halda þau. Tökulið kom hingað til lands í júní 2012 og var tekið upp á tveimur stöðum. Annars vegar við Jarlhettur, sem er fjallgarður sem stendur við rætur Langjökuls, og hins vegar við gíginn Hrossaborg á Mývatnsöræfum. Myndin gerist á austurströnd Bandaríkjanna og var hinn 10 þúsund ára gamli gígur notaður sem amerískur ruðningsleikvangur, eyðilagður af stríði. Leikstjóri myndarinnar, Joseph Kosinski, nýtti sér íslensku nætursólina við gerð myndarinnar. Oblivion er vísindaskáldskapur af gamla skólanum og kvöldbirtan gefur af sér sérstakt andrúmsloft sem hentar einstaklega vel. Myndin er dálítið undarleg fyrir íslenska áhorfendur. Það er klippt er ótt og títt milli atriða sem voru tekin upp hér og atriða sem voru tekin upp í Kaliforníu líkt og þetta sé sami staðurinn. Landslagið gæti vart verið frábrugðnara.
3. Interstellar (2014)
Interstellar er heimsendamynd sem gerist í nálægri framtíð. Óútskýrður kornskortur ógnar mannkyni og er því brugðið á það ráð að leita að nýrri plánetu til að búa á. Á köflum er Interstellar í raun frekar eins og kennslustund í eðlisfræði heldur en kvikmynd í hefðbundnum skilningi. Tökur hófust hér í ágúst árið 2013 og átti Ísland að vera staðgengill tveggja ólíkra pláneta. Önnur plánetan átti að vera þakin ís. Leikstjóri myndarinnar, Christopher Nolan, valdi Svínafellsjökul þar sem það var svæði sem hann þekkti vel eftir gerð Batman Begins. Hin plánetan átti að vera þakin grunnu vatni. Hentugur staður fannst í Máfabót við ósa Skaftár nálægt Kirkjubæjarklaustri. http://www.thelocationguide.com/blog/2014/11/ng-film-christopher-nolan-films-sci-fi-epic-interstellar-in-alberta-and-iceland/Mjög fjölmennt tökulið kom að utan, um 350 manns, og Íslendingarnir voru um 130. Þorpið í Kirkjubæjarklaustri var algerlega undirlagt á þessum tíma, hvert gistirími nýtt og fólk leigði út húsin sín.
2. Prometheus (2012)
Myndin er hluti af Alien seríunni en gerist fyrr, árið 2093. Hún gerist mestmegnis á tungli sem nefnist LV-223 og öll atriði sem gerast utandyra eru tekin upp á Íslandi. Tveir staðir voru valdir fyrir tökurnar sem fóru fram sumarið 2011. Annars vegar er það Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum, þar gerist byrjunaratriði myndarinnar. Hins vegar er það Dómadalur við rætur Heklu. Leikstjóri myndarinnar var Ridley Scott, sá hinn sami og gerði upprunalegu Alien myndina frá 1979. Hann hafði upphaflega hugsað sér suðræna eyðimörk sem landslag LV-223, t.a.m. í Norður-Afríku eða Mojave í Bandaríkjunum. En svo heillaðist hann að Íslandi sem honum fannst minna sig á júra-tímabilið (fyrir 200-150 milljón árum). „Við erum að skjóta upphaf tímans!“ Takmarkið var að ná fram eins frumstæðu og líflausu landslagi og hægt var, síðan sjá tölvur um rest.
1.Game of Thrones (2011-)
Það er óhætt að segja að framleiðendur miðaldafantasíuþáttanna Game of Thrones séu skotnir í Íslandi. Ekki nóg með að fjölmörg atriði þáttanna hafa verið tekin hér upp þá hafa Íslendingar verið fengnir til að leika í þáttunum líka, þ.e. Hafþór Júlíus Björnsson og hljómsveitirnar Sigur Rós og Of Monsters and Men. Íslandi brá fyrst fyrir í þáttunum í annarri seríu. Tökulið kom í nóvember 2011 og skaut senur bæði á Vatnajökli og Mýrdalsjökli. Síðan þá hafa verið tekin upp atriði fyrir þættina hér á hverju ári nema árið 2014. Atriði hafa verið tekin upp víða um land. Mörg voru tekin upp í Mývatnssveit, þ.e. í Dimmuborgum, Hverfelli og Grjótagjá. Þá hefur einnig verið tekið upp á Þingvöllum, Goðafossi, Hvalfirði og Grundarfirði. Ástarsamband Íslands og Krúnuleikanna er alls ekki búið. Við munum ábyggilega sjá nóg af Íslandi í næstu seríu, þeirri sjöundu, því tökulið mun mæta hingað í janúar 2017 og von er á mörgum af helstuleikurum seríunnar.