Þeir Xi Jinping og Barack Obama, forsetar Kína og Bandaríkjanna, tilkynntu um helgina á fundi 20 stærstu iðnríkja heims að ríki þeirra muni innleiða Parísarsamninginn um loftslagsbreytingar í lög. Þátttaka þessara landa vegur langþyngst í baráttunni gegn hlýnun loftslags og loftslagsbreytingum enda bera þau saman ábyrgð á 37,98 prósent af öllum útblæstri heimsins.
Þátttaka Kína og Bandaríkjanna er ekki síður mikilvæg vegna þeirra ákvæða sem sett voru í samninginn um það hvenær hann tekur gildi. Parísarsamningurinn mun ekki taka gildi fyrr en 55 ríki, sem samanlagt bera ábyrgð á 55 prósent af allri losun heimsins innleiða samninginn í lög.
179 lönd hafa undirritað samninginn. Með undirritun samningsins er ekki þar með sagt að hann sé innleiddur í lög í heimaríkinu. Þannig var það ekki þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra undirritaði samninginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í apríl. Utanríkisráðherra þarf að mæla fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi og þingmenn verða að greiða atkvæði um tillöguna. Suma alþjóðasamninga þarf að innleiða með lagabreytingum á jafnvel mörgum lögum. Parísarsamningurinn er hins vegar þess eðlis að það þarf ekki.
Þingsályktunartillagan um innleiðingu Parísarsamningsins var lögð fyrir Alþingi á föstudag. Í henni felst viðurkenning á því að loftslagsbreytingar ógni mönnum, samfélögum og jörðinni allri. Einnig er lögð áhersla á að „[l]oftslagsbreytingar séu sameiginlegt viðfangsefni alls mannkyns og af þeim sökum er mikilvægt að ríki heims sameinist og vinni saman að lausn vandans“.
Sögulegt samstarf Bandaríkjanna og Kína
Ísland mengar alls ekki mikið á heimsvísu, þe. ef útblástur okkar er borinn saman við stærri iðnríki. Hlutdeild okkar er 0,01 prósent af öllum útblæstri heimsins. Það er raunar þannig að einungis 20 ríki í heiminum bera ábyrgð á meira en einu prósenti af allri losun heimsins. 179 ríki hafa aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Það er þess vegna augljóst að heimurinn er upp á stóru iðnríkin komin og þar er Ísland á meðal.
Þátttaka Íslands og innleiðing samningsins í lög hér á landi skiptir hins vegar máli fyrir Parísarsamninginn. Í fyrsta lagi þurfa að minnsta kosti 55 ríki að innleiða samninginn. Eins og stendur eru þau aðeins 26. Með innleiðingu samningsins sendir Ísland einnig skýr skilaboð til annarra ríkja, ekki síst Evrópuríkja, um að hér sé þetta málefni tekið alvarlega. Í Evrópu eru að sex ríki sem bera hvert um sig ábyrgð á meira en einu prósenti af öllum útblæstri á jörðinni. Þýskaland ber ábyrgð á 2,56 prósent mengunarinnar, Bretland á 1,55 prósent og Frakkar 1,34 prósent.
Fyrir alla hluthafa í loftslagssamningnum þá skiptir virk þátttaka Kínverja og Bandaríkjamanna lang mestu. Eins og áður segir bera þessi lönd samanlagt ábyrgð á 37,98 prósent alls útblásturs í heiminum. Síðast þegar unnið var lagalega bindandi samkomulag um loftslagsmál í Kyoto í Japan árið 1997 ákváðu þessi ríki að taka ekki þátt. Þá þótti þeim kvaðirnar vera of miklar og of íþyngjandi.
Það að þessi tvö lönd ákveði að tilkynna um innleiðingu samningsins í sameiningu er til marks um hversu samtvinnuð þátttaka þessara landa er. Samstarf þeirra er lykilatriði til þess að löndin geti tekið þátt. Er það ekki síst vegna efnahagslegra ástæðna. Áætlað er að það muni kosta ríki heims gríðarlega fjármuni að stuðla að orkuskiptum og laga hagkerfi sín þannig að þau reiði sig minna á ódýrt jarðefnaeldsneyti.
Undir forystu Barack Obama og Xi Jinping hafa Kína og Bandaríkin verið samstíga í loftslagsmálunum. Veigamiklar ákvarðanir hafa verið teknar samtímis og með samráði milli þessara landa. Fyrir loftslagsráðstefnuna í París undirrituðu þeir til dæmis samkomulag um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Obama hefur sagt að þetta sé sú leið sem best er fyrir heiminn. „Að setja þeim [Kínverjum] markmið sendir kröftug skilaboð til heimsins um að öll ríki, þróuð eða vanþróuð, verða að komast yfir gamlan ágreining, horfa blákalt á vísindin og komast að góðu samkomulagi um loftslagsmál,“ sagði Obama í ræðu í fyrra.
Áætlað er að nú muni fleiri ríki innleiða samninginn í lög. Rússland, Indland og Japan, auk Þýskalands, þurfa nú að ganga frá sínum málum til þess að markmiðinu um 55 prósentin náist.