Frumkvöðullinn Elon Musk hefur átt betri daga á sínum ótrúlega ferli. Hann berst nú fyrir því að viðhalda trausti fjárfesta á háleitum markmiðum hans um að gera heiminn betri og umhverfisvænni í gegnum starfsemi fyrirtækjanna Space X og Tesla Motors.
Fyrirtækið sem Musk stofnaði, geimflaugafyrirtækið Space X, sem þróar geimflaugur og tækni til að auðvelda ferðir út í geim og til baka, hefur átt í vandræðum eftir að flaug fyrirtækisins, SpaceX Falcon 9, sprakk og mikið af verðmætum búnaði að auki. Sprengingin hafði alvarlegar afleiðingar þar sem gervihnöttur í eigu Spacecom eyðilagðist. Hann kostaði 200 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 22 milljörðum króna.
Space X er ekki skráð á markað, og hefur ekki gefið út hvert tjónið er eða hvort tryggingar eru yfir höfuð fyrir hendi vegna þess.
Allt að ár án geimskots
Fortune greindi frá því í gær að sprengingin gæti þýtt að fyrirtækið muni ekki geta skotið flaug á loft aftur næstu 9 til 12 mánuði. Þetta kemur sér illa fyrir stærsta einstaka viðskiptavin SpaceX, sem er bandaríski herinn. Í maí gerði Space X mikilvægan samning við herinn og bandarísk yfirvöld, sem tryggir fyrirtækinu stöðugar tekjur og verkefni. En sprengingin nú gæti sett strik í reikninginn og tafið fyrirhuguð áform um geimskot og einnig tafið þróun á tækni fyrirtækisins.
Umfram allt er þetta áfall fyrir Musk, en þetta var annað misheppnaða geimskotið á innan við fjórtán mánuðum.
Gwynne Shotwell, sem stýrir SpaceX fyrirtækinu við hlið Musk, hefur ekki ennþá gefið út nákvæma skýrslu um hvað fór úrskeiðis hjá Falcon 9 enda rannsókn á atvikinu, bæði hjá SpaceX og bandarískum yfirvöldum, skammt á veg komin.
Tesla á sínu mikilvægasta skeiði
Musk er ekki aðeins að glíma við erfiðleika og háleit markmið þegar kemur að geimskotum heldur er rafbílaframleiðandinn sem hann stofnaði, Tesla Motors, einnig að sigla inn í sinn mikilvægasta tíma frá því fyrirtækið var stofnað.
Musk sjálfur áréttaði þetta með tölvupósti til starfsmanna 29. ágúst síðastliðinn, sem Bloomberg birti á vef sínum. Í póstinum segir hann að mikilvægt sé fyrir fyrirtækið að ljúka þriðja ársfjórðungi á jákvæðum nótum, og ná hagnaði af starfseminni, áður en framleiðsla á Tesla Model 3 kemst á fullt, á næsta ári.
Þetta myndi senda mikilvæg skilaboð til fjárfesta, segir Musk. Fyrir vikið þurfi allir starfsmenn að leggja á sig allt sem þeir geti, og framleiða eins marga bíla og mögulega er hægt, en á sama tíma að spara. „Það væri frábært að geta hent því í andlitið á þessum nákvæðisröddum á Wall Street, sem halda áfram að segja að Tesla verði alltaf fyrirtæki sem tapi peningum,“ segir Musk meðal annars í póstinum.
2017 er stóra árið
Það er líka mikið í húfi. Á næsta ári kemur Model 3 bíllinn á götuna, en hann mun kosta frá 35 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur um 4,5 milljónum króna. Musk segir að þetta sé bíllinn sem muni skipta sköpum fyrir bílaiðnaðinn og Tesla Motors. Hann verði fullkomlega samkeppnishæfur við alla bíla sem ganga fyrir olíu, og verði ætlaður almenningi, fyrst og fremst. Á milli 400 og 500 þúsund forpantanir liggja fyrir á bílnum, og ljóst er að Tesla er að komast inn á stóra sviðið í bílaiðnaði með þessum bíl.
Frá árinu 2012 þá hafa selst meira en 100 þúsund Tesla Model S bílar.
Jafnvel þó Musk haf oftar en ekki stolið fyrirsögnunum, þá er Tesla órafjarri stærstu bílaframleiðendum heimsins þegar kemur að framleiðslu og sölu. En Musk hefur sagt að markmiðið sé að „breyta leiknum“ og sýna fram á að það sé hægt leiða fram breytingar til góðs fyrir heiminn, með tæknina að vopni. Og árið 2017 er stóra árið.
Efasemdir fjárfesta um að Musk sé á réttri leið með sín verkefni, hafa verið að magnast upp undanfarna mánuði, að sögn Bloomberg. Ástæðan er ekki sú, að hann sé ekki talinn afburðasnjall og framsýnn, heldur mun frekar að lengri tíma muni fyrir fyrirtæki hans að ná þeirri stöðu sem lagt var upp með, heldur en áætlanir fyrirtækjanna hafa gefið til kynna. Í stað þess að Tesla verði markaðsleiðandi 2020 þá geti það hæglega orðið tíu árum seinna.
Fleiri komnir á fullt
Framþróun á rafbílum og innviðum fyrir rafbíla, hjá öðrum bílaframleiðendum, eins og Benz, Nissan, Ford og Audi, hafa meðal annars leitt til þessara efasemda.
Þrátt fyrir efasemdir fjárfesta um að Tesla geti orðið sá leiðandi bílaframleiðandi sem Musk vill að fyrirtæki verði, þá er ekki hægt að segja að hann sé á flæðiskeri staddur. Hann er sjálfur metinn á 11,4 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.400 milljarða króna.
Leggjum meira á okkur
Þessi fimm barna 44 ára gamli faðir frá Suður-Afríku er því fjarri því að vera að baki dottinn, jafnvel þá fjárfestar á Wall Street heimti meiri og skjótari gróða. Skilaboð Musk til starfsmanna hjá Tesla sýna þetta glögglega. Hann segir einfaldlega: leggjum meira á okkur, sýnum úr hverju við erum gerð.
Musk er númer fimmtán í heiminum, á lista Forbes yfir ríkasta fólk í tæknigeiranum, og númer 38 þegar kemur að áhrifamesta fólki heims, á lista sama miðils.