Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fór um víðan völl í ávarpi sínu á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í Hofi á Akureyri í dag. Fyrirlesturinn hans stóð í rúman klukkutíma þar sem hann byrjaði á því að fara vítt og breitt yfir landslagið í stjórnmálum heimsins og hafði glærusýningu til að styðja við mál sitt.
Hann ræddi um það hvernig stjórnmálin í heiminum eru að verða óvægnari og hvernig jaðarhugsjónir og róttæklingar eru að ná fótfestu í vestrænum löndum. Nefndi hann forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem dæmi og stjórnmálaástandið í hinum ýmsu Evrópulöndum.
Hann sagði að um alla veröld væru breytt valdahlutföll og að „eftir-kaldastríðsheimiurinn“ væri að hverfa. „Stjórnmál á vesturlöndum eru að taka stakkaskiptum og stjórnmálin á breytast,“ sagði hann. Ástæður þessa væri vegna margra þátta. Til dæmis væri breytt tækni væri að gera ímyndarstjórnmálin sveiflukenndari og öfgakenndari þar sem markaðsmenn auglýsa stjórnmálamenn. En fyrst og fremst hefði valdið færst frá kjósendum vegna þess að valdið hefði færst frá kjörnum fulltrúum til „kerfisins“. Sigmundur á þar við hinar ýmsu nefndir, ráð og stofnanir auk fjármálakerfisins alls.
Sigmundur sem Danny Ocean
„Hagkerfið er hætt að virka eins og það á að virka,“ sagði Sigmundur. Hann segir alþjóðafjármálkerfið vera að taka völdin um allan heim. Á Íslandi hafi stjórnvöld sigrast á alþjóðafjármálakerfinu og Íslendingar væru eina þjóðin í heiminum sem hefði gert það. Um leið birti hann mynd af merki Framsóknarflokksins. „Við Íslendingar erum fordæmi fyrir því að hægt er að sigrast á þessu kerfi,“ sagði hann. Nú hefði Ísland færi á að grípa tækifærin sem fram undan eru, ólíkt öðrum löndum sem enn berjast við gríðarlegar skuldir og/eða eru læst í fjötrum alþjóðasamstarfs.
Sigmundur Davíð rak þá í löngu máli hvernig stjórnvöld á Íslandi beittu sér til þess að leyfa alþjóðafjármálakerfinu ekki að ná tökum hér á landi, eins og „kerfið„ hefi gert í öðrum löndum í svipaðri stöðu og Ísland. Nefndi hann Argentínu sem dæmi og birti mynd af Paul Singer, stjórnanda vogunarsjóðsins Elliot Management.
Þá líkti hann baráttu íslenskra stjórnvalda við vogunarsjóðina við bandarísku kvikmyndina Ocean’s Eleven sem kom út árið 2001. Íslensk stjórnvöld undir hans forsæti voru í hlutverki Danny Ocean og teymis hans sem rændu peningum af stóru spilavítunum í Las Vegas. Vogunarsjóðirnir eru í þessu dæmi spilavítin.
Verkefni Framsóknar í kosningum
Sigmundur Davíð lauk ræðu sinni á því að lýsa baráttu Framsóknarflokksins um þessar mundir með myndum af málverkum frá orustunni við Waterloo árið 1815. Þar fundu breskir herflokkar upp nýtt herbragð til að mæta sóknum herja Napóleons. Það gerðu þeir með því að raða sér þétt upp á vígvellinum, mynda kassa og vísa byssustigunum út. Það fældi fáka sóknarliðsins og gaf Bretum færi á að skjóta á óvini sína. Þannig hafði Wellington Napóleon undir.
Sigmundur Davíð ímyndar sér Framsóknarflokkinn í þessari stöðu; standi flokksmenn þétt saman og mæti sókn annarra flokka í kosningunum þá muni Framsókn standa uppi sem sigurvegari. Klofni röðin munu hinir flokkarnir valta yfir þá.
Á haustfundi miðstjórnar verður boðað til flokksþings og félagsstarf flokksins á komandi starfsári rætt. Sigmundur Davíð reifaði einnig þau mál sem hann vildi að Framsóknarflokkurinn hefði að leiðarljósi í kosningunum 29. október næstkomandi. Svo stiklað sé á stóru þá nefndi hann meðal annars loforð um að standa við gefin loforð, rétta stöðu öryrkja og aldraðra, að framsóknarflokkurinn verði flokkur fyrir landið allt – hvort sem það er í heilbrigðisþjónustu, fjarskiptum eða öðrum innviðum og tryggja að Reykjavík verði höfuðborg fyrir landið allt.
„Svo byggjum við nýjan landsspítala. Við höfum efni á því,“ sagði hann einnig og lýsti þeirri skoðun sinni að starfsemin þurfi ekki öll að vera á sama stað. „Það er fráleitt að við skulum ekki vera lengra komin með það verkefni. Það þurfa að vera fleiri heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið,“ sagði hann. Þá vill Sigmudnur Davíð að gert verði stórátak í samgöngumálum þar sem lögð verði áhersla á öryggi, viðhald og endurbætur á tengingum milli byggða hér á landi.
„Íslenskur landbúnaður – Við stöndum með honum. Við erum stolt af því að segja það,“ sagði Sigmundur. Hann segist vera þeirrar skoðunar að um leið og ný öfl verði til sem vilji kerfisbreytingar í landbúnaðarmálum þá verði það sjálfkrafa afstaða Framsóknarflokksins að standa með kerfinu eins og það er.
Barátta Sigmundar
Að lokinni ræðunni, sem stóð í rúma klukkustund, stóðu viðstaddir á fætur og klöppuðu fyrir honum. Sigmundur Davíð mun á næstunni þurfa að berjast fyrir stöðu sinni innan flokksins. Borist hafa þrjú mótframboð í oddvitasæti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar eru á ferðinni Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Höskuldur Þórhallsson. Sá síðastnefndi hefur ekki farið leynt með gagnrýni sína á formanninn og er talið að framboð hans í oddvitasætið sé eina eiginlega mótframboðið; Framboð Þórunnar og Líneikur séu hugsanlega gegn Höskuldi.
Á haustþinginu er einnig búist við að ákveðið verði hvenær flokksþing Framsóknarflokksins fari fram. Á þeirri samkundu er forysta flokksins valin. Talið er að Sigmundur Davíð muni einnig þurfa að berjast fyrir formannssætinu. Hafa bæði Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson verið nefnd sem hugsanlegir mótframbjóðendur gegn Sigmundi. Enginn hefur hins vegar lýst yfir framboði.
Í ræðu sinni nefndi Sigmundur Davíð ekki uppljóstranirnar úr Panamaskjölunum og Wintris-málið sem varð til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra í byrjun apríl.
Hér að neðan má sjá ræðuna alla.