Michel Temer, varaforseti í síðustu ríkisstjórn Dilma Rousseff og staðgengill Rousseff sem forseti eftir að henni var vikið úr embætti tímabundið vegna málshöfðunarferlis gegn henni þann 12. maí, var formlega svarinn í embættið þann 31. ágúst síðastliðinn. Það gerðist einungis nokkrum klukkustundum eftir kosningar í öldungardeild þingsins þar sem 61 af 81 þingmanna kusu með ályktun að víkja Dilma Rousseff úr embætti. Temer, sem er meðlimur PMDB-flokksins sem var í samsteypustjórn með PT-flokk Rousseff þangað til mars í ár, hefur þannig verið falið að skipa embætti forseta líklega fram að lokum núverandi kjörtímabils síðla árs 2018.
Þessi valdaskipti eru umdeild ekki eingöngu fyrir þær sakir að landinu verður líklega stjórnað næstu tvö árin af ókjörnum forseta. Ríkisstjórn Temer er sterklega bendluð við sömu spillingarmál og urðu Dilma Rousseff að falli. Þar að auki hefur Temer lýst yfir niðurskurðarstefnu til þess að takast á við síversnandi efnahagsástand í landinu, en búist er við því að erfitt verði að hrinda henni í gegn vegna skorts á hljómgrunni fyrir henni í þinginu.
Ávallt land framtíðarinnar?
Spilling í brasilískum stjórnmálum á sér langar rætur en sundrað flokkakerfi landsins - alls eru 22 flokkar á núverandi þingi - og tengsl alríkisins við smærri stjórnsýslueiningar stuðla að fyrirgreiðslukerfi sem erfitt hefur reynst að uppræta. Ákveðnar vonir voru bundnar við að búið væri að brjóta blað í sögu landsins - sem hafði sögulega einkennst af sveiflukenndum „boom and bust“-vexti - í kjölfar valdatíð hins vinsæla Luiz Inácio Lula da Silva („Lula“) fyrsta áratug þessarar aldar; hagvöxtur var tiltölulega sterkur og ýmsar vel heppnaðar velferðarstefnur á borð við Bolsa Familia og Fome Zero sáu til þess að stór hluti efnaminni fólks upplifði bætt lífskjör, og landið bar sigur í framboðum sínum til að halda bæði heimsmeistaramótið í knattspyrnu og sumarólympiuleikana. Lula útnefndi Rousseff sem arftaka sinn í PT-flokknum fyrir forsetakosningarnar 2010 og vann hún auðveldan sigur í skugga velgengni Lula. Hún hafði líkt og Lula tekið þátt í marxískri skæruliðahreyfingu á tímum herstjórnarinnar í Brasilíu á áttunda og níunda áratugnum og búist var við því hún myndi halda stefnum Lula áfram þegar hún tók við keflinu. Raunin varð önnur.
Bílaþvottastöðin Brasilía
Lækkun á verði olíu og annarra útflutningsauðlinda landsins gerðu Rousseff engan greiða og brátt kom í ljós hversu háður þeim efnahagur Brasilíu var. Hagvöxtur hrundi og ekki bætti úr skák þegar dómarinn Sérgio Moro skipaði í apríl 2014 lögreglurannsókn á stórfelldri spillingu innan ríkisrekna olíufyritækisins Petrobras. Rannsóknin hlaut nafnið Operação Lava Jato eða bílaþvottsaðgerðin og eftir því sem Rousseff var stjórnarformaður Petrobras á árunum 2003 til 2010 varð hún sjálf bendluð við spillingarskandalann ásamt fjölmörgum háttsettum stjórnmálamönnum í PT og PMDB.
Málshöfðunartillaga gegn Rousseff var loks samþykkt í desember 2015 og snerist formlega um brot á fjárhagsáætlanalögum vegna óábyrgra fjárveitinga sem veittar voru með forsetalegum tilskipunum til að komast hjá þingmeðferð. Þó er ljóst að bílaþvottsmálið og síversnandi efnhagsstaða landsins vógu þungt í bakgrunninum. Vörn Rousseff snerist nefnilega ekki einungis um að neita sök varðandi fjárveitingarnar heldur líka um færa rök fyrir því að eina markmið bílaþvottsaðgerðarinnar væri að steypa henni af stóli. Með öðrum orðum, samkvæmt Rousseff var málshöfðunin gegn henni einfaldlega valdaránstilraun hægriafla sem stefndi brasilísku lýðræði í hættu.
Tilkoma Tamer
Þegar Temer varð staðgengill forseta þann 13. maí síðastliðinn tók ekki nema tíu daga áður en að bílaþvottsmálið skaut upp kollinum aftur þegar dagblaðið Folha de São Paulo birti upptökur af símasamtali á milli nýútnefnds skipulagsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Temer, Romero Jucá, og fyrrverandi formanni Transpetro sem er dótturfyrirtæki Petrobras, Sérgio Machado. Í samtalinu heyrist Jucá tala um mikilvægi þess að koma ríkisstjórn Rousseff frá völdum til þess að geta „stöðvað blæðinguna“. Sjálfur vildi Jucá meina að með blæðingu ætti hann við versnandi efnahagslega stöðu landsins en margir vildu meina að blæðingin hafi verið bílaþvottsaðgerðin, og að eina leiðin til að koma í veg fyrir að hún fletti ofan af fleiri skandölum væri að koma á nýrri ríkisstjórn. Jucá sagði af sér ráðherraembættinu í kjölfarið. Með svipuðum hætti ollu upptökur af símtölum við Machado að þeirri kaldhæðni að gagnsæisráðherra, Fabiano Silveira, sagði af sér 30. maí, og rúmum tveim vikum síðar sagði ferðamálaráðherra, Henrique Eduardo Alves, af sér eftir ásakanir um að þiggja mútur frá Petrobras. Til viðbótar við grunsemdir um samsæri til að steypa Rousseff af stóli vakti mikla athygli að allir ráðherrar í upphaflegu ríkisstjórn Temer voru hvítir karlmenn, en nú á dögunum bættist fyrsta konan í ráðherrahóp Temer, og erfitt hefur reynst að sannfæra almenning um að ný ríkisstjórn hafi hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.
Nú er komin upp sú forvitnilega staða að skoðanakannanir sýna ekki einungis að Temer er jafnvel óvinsælli en hin skandalaþrungna Rousseff, heldur líka að meirihluti landsmanna er þeirrar skoðunar að það ætti að draga Temer fyrir dóm fyrir svipaðar sakir og Rousseff. Ljóst er að stjórnmálamenn Brasilíu eiga langt í land með að vinna aftur traust almennings.