Helgi var einnig í viðtali í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar sagði hann að í Svíþjóð væru „fimmtíu hverfi þar sem ekki gilda sænsk lög.“
Kjarninn ákvað að kanna hvort þær fullyrðingar sem Helgi setti fram í þættinum og í viðtalinu við Stundina stæðust.
Skýrsla sænsku ríkislögreglunnar
Það er hægt að finna fjölmargar síður á netinu, og meira að segja hefðbundna fjölmiðla, sem halda því fram að í Svíþjóð séu 55 svokölluð „no-go“ svæði sem séu undir yfirráðum múslímskra glæpagengja sem sænska lögreglan þori ekki inn á. Flestar þeirra eiga það sameiginlegt að vera einhliða áróðurssíðursem tala fyrir hertum innflytjendalögum, takmörkun á flóttamannastraumi, gegn fjölmenningu og sérstaklega Islam með því að tala upp glæpatíðni og lögleysu í innflytjendahverfum víðs vegar um Evrópu.
Fullyrðingarnar eiga rætur sínar að rekja til 29 blaðsíðna skýrslu sem sænska ríkislögreglan sendi frá sér í október 2014. Í skýrslunni segir að í landinu séu 55 svæði þar staðbundnir hópar glæpamanna eru taldir hafa neikvæð áhrif á nærsamfélag sitt. Þessi svæði sé að finna í 22 borgum og bæjum í Svíþjóð og eiga það sameiginlegt að vera talin standa illa að vígi félagslega og efnahagslega í samanburði við önnur svæði í landinu. Hin glæpsamlegu áhrif á umrædd svæði virðist, að mati sænsku ríkislögreglunnar, tengjast félagslegri stöðu þeirra frekar en einbeittum vilja glæpamanna til að ná völdum og stjórn á nærsamfélagi sínu.
Í skýrslunni er ekkert minnst á „no go“ svæði og í henni er ekki fjallað um múslima né Islam einu orði. Þar segir að þeir glæpahópar sem finnist á svæðunum sem um ræðir séu ekki vel skipulagðir heldur sé frekar um óformlega hópa ungmenna að ræða. Lagt er til að sýnileiki og viðvera lögreglu verði aukin á þeim til að byggja upp traust mili lögreglu og nærsamfélaganna sem hún starfar í.
Skýrslan fékk nýtt líf þegar norska ríkissjónvarpið NRK fjallaði um hana og sérstaklega þrjú hverfi sem tiltekin eru í henni, Rinkenby, Tensta og Husby, sem eru öll úthverfi Stokkhólms þar sem margir innflytjendur og afkomendur þeirra búa. Þar var rætt við lögreglumenn og hagfræðing sem sagði stöðuna í hverfunum til marks um að stjórnvöldum hefði mistekist að aðlaga innflytjendur að sænsku samfélagi. Í miðju viðtali við hann veittist hópur ungmenna að starfsmönnum NRK svo þau þurftu að flýja frá kaffihúsi þar sem það fór fram.
Þeir sem halda því fram að sænska lögreglan hræðist ákveðin hverfi í landinu vísa einnig til þáttar sem ástralska útgáfa 60 Minutes fréttaskýringaþáttarins gerði í vor. Í honum fór fréttamaður ásamt tökuliði inn í Rinkenby. Í þættinum sést hvernig hópur grímuklæddra ungra manna ræðst að tökuliðinu með því að keyra utan í einn þeirra, með höggum og steinkasti. Í þættinum er lögreglan kölluð á vettvang og en einn lögreglumaður mælir með því við tökuliðið að hún fylgi þeim ekki inn á torg í hverfinu til að auka líkurnar á því að það geti unnið vinnuna sína.
Hægt er að sjá myndband af þættinum hér:
Ekki sýnileg glæpaalda með auknum flóttamannastraumi
Svíþjóð tók við 163 þúsund flóttamönnum árið 2015, sem var metfjöldi. Því hefur einnig verið haldið fram að glæpum í Svíþjóð hafi fjölgað mikið samhliða auknum flóttamannastraumi inn í landið. Í tölum sem sænsk stofnun sem einbeitir sér að glæpaforvörnum (e. The Swedish National Council for Crime Prevention) birti í janúar síðastliðnum kom hins vegar fram að tilkynntum nauðgunum hefði fækkað um tólf prósent á milli áranna 2014 og 2015 og smáþjófnuðum um tvö prósent.
Í annarri úttekt stofnunarinnar sést að hótanir, áreitni, líkamsárásir og rán voru hlutfallslega færri í Svíþjóð árið 2014 en þau voru árið 2005. Kynferðislegar árásir og tilkynnt svik voru hlutfallslega eilítið fleiri. Heilt yfir hefur tíðni glæpa sem framdir eru í Svíðþjóð lækkað frá árinu 2005.
Í umfjöllun vefmiðilsins thelocal.se frá því í febrúar á þessu ári sagði blaðafulltrúi sænsku lögreglunnar, Lars Byström, að hvorki ferðamenn né íbúar Stokkhólms ættu að finnast þeir vera í nokkurri hættu í borginni. Að hans mati væri borgin nokkuð örugg. Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í hinu virta fræðiriti Lancet, kom fram að Svíþjóð er í þriðja sæti í heiminum þegar kemur að því að uppfylla þau heilsumarkmið sem Sameinuðu þjóðirnar setja aðildarríkjum sínum. Þau snúast meðal annars um ofbeldi og félagsleg jafnræði. Ísland er í fyrsta sæti listans.
Þá steig Mats Karlsson, lögregluvarðstjóra í Malmö þar sem mikill fjöldi innflytjenda og flóttamanna býr, fram fyrr á þessu ári og sagði að þeir glæpir sem komi inn á borð lögreglunnar þar séu ekkert verri en annars staðar í Svíþjóð. Hann hafnaði því einnig algjörlega að það væru svæði í Malmö sem lögreglan forðist og gagnrýndi erlenda fjölmiðla fyrir að draga upp bjagaða mynd af borginni og þá sérstaklega hvað varðar samskipti innflytjenda og flóttamanna við lögreglu.
Niðurstaða staðreyndarvaktarinnar
Það er rangt að sænska lögreglan hafi sagt að hún fari ekki inn í 20-25 hverfi í landinu vegna þess að þar séu „innflytjendur í meirihluta“. Það er líka rangt að í Svíþjóð séu fimmtíu hverfi þar sem ekki gilda sænsk lög. Auk þess liggja fyrir tölulegar staðreyndir um að glæpatíðni sé á niðurleið í landinu og að þar sé einna best í heiminum að búa út frá mælikvörðum sem Sameinuðu þjóðirnar setja fram.
Það er hins vegar rétt að veist hafi verið af fréttamönnum sem voru að fjalla um stöðu þriggja hverfi í útjaðri Stokkhólms og að frétt NRK hafi komið fram lögreglukona færi helst ekki inn í umrædd hverfi án þess að vera vopnuð og í skotheldu vesti. Í málflutningi formanns Íslensku þjóðfylkingarinnar er öllu ofangreindu blandað saman í fullyrðingu sem stenst ekki nánari skoðun.
Það er því niðurstaða Staðreyndarvaktarinnar að Helgi Helgason hafi dregið rangar ályktanir af tölum sem fram hafa verið settar af sænsku ríkislögreglunni og þeim fréttum sem sagðar hafa verið af skýrslu hennar frá því í október 2014. Hann fór því með fleipur með fullyrðingu sinni í leiðtogaþætti RÚV á fimmtudag og í viðtali við Stundina.