Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, fór mikinn í upphafi umræðuþáttar á RÚV á fimmtudaginn, eftir að sýnd hafði verið samantekt á kjörtímabilinu og sagt að það væri vegna hans og Wintris-málsins sem væri verið að kjósa snemma. Sigmundur kannaðist ekki við það, og sagði svo að hann hafi aldrei átt aflandsfélag og að aflandsfélag konu hans hafi ekki verið í skattaskjóli.
„Í fyrsta lagi verð ég nú að gera athugasemd við að það sé verið að kjósa snemma vegna þessa máls sem þú rekur. [...] Ég á ekki, hef aldrei átt aflandsfélag. [...] Ég hef aldrei átt hlut í þessum eignum. [...] En það er hins vegar tilfellið að eiginkona mín átti eignir í ákveðnu landi sem hefur aldrei verið í skattaskjóli. Þetta er land sem er með tvísköttunarsamninga við Ísland, upplýsingaskiptasamninga við Ísland.“
Kjarninn ákvað að kanna hvort þessar þrjár fullyrðingar Sigmundar Davíðs eigi við rök að styðjast.
1. Er verið að kjósa snemma vegna Wintris-málsins?
3. apríl síðastliðinn var sýndur sérstakur Kastljóssþáttur þar sem greint var frá tengslum Sigmundar Davíðs, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal við aflandsfélög í skattaskjólum. Daginn eftir, þann 4. apríl, voru haldin mótmæli sem lögregla og kannanir segja að séu stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Yfirskrift mótmælanna var krafan um að flýta kosningum. Flestir sem mættu sögðust vera að mótmæla spillingu stjórnmála og hagsmunatengslum ráðherra, til þess að knýja á um kosningar strax og til þess að Sigmundur Davíð segði af sér.
Degi síðar fór af stað ótrúleg atburðarás. Þá var það Sigmundur Davíð sjálfur, sem greindi frá því á Facebook-síðu sinni, að hann hefði á fundi með Bjarna Benediktssyni sagt að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins „treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“ Að þessu búnu fór hann á Bessastaði, þar sem honum og Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta, ber ekki saman um hvort Sigmundur hafi formlega óskað eftir þingrofi eða ekki. Að minnsta kosti sagði Ólafur Ragnar að hann hefði hafnað beiðni um þingrof. Þegar deginum lauk hafði verið tilkynnt að Sigmundur Davíð myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi tæki við. Þeir Bjarni Benediktsson kynntu málið fyrir fréttamönnum degi síðar.
„Í þessari viku hefur með stóru skrefi, sögulegu, verið brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hafa í íslensku samfélagi með því að forsætisráðherra hefur stigið til hliðar og í hans stól mun þá setjast Sigurður Ingi, aftur í samræmi við þá verkaskiptingu sem verið hefur milli flokkanna. En við ætlum að stíga viðbótarskref til þess að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu, til þess að koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast og hyggjumst stefna að því að halda kosningar í haust, stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing.“ Þetta sagði Bjarni þegar hann og Sigurður Ingi kynntu um áframhaldandi samstarf flokkanna tveggja eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér embættinu.
Áður en þetta gerðist hafði stjórnarandstaðan boðað að hún myndi leggja fram vantrauststillögu og óska eftir þingrofi um leið og þing kæmi saman aftur. Það var svo gert seinna sömu vikuna.
2. Átti Sigmundur aldrei aflandsfélag?
Félagið Wintris Inc. var stofnað utan um arf Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs, af Mossack Fonseca fyrir Landsbankann í Lúxemborg árið 2007. Félagið var skráð á Bresku Jómfrúreyjunum, á Tortóla. Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug voru bæði skráð eigendur félagsins frá upphafi, eins og sjá má í skjalinu hér að neðan.
Þau voru ekki gift á þeim tíma sem félagið var stofnað, en hafa gefið þær skýringar að þau hafi verið með sameiginlegan fjárhag og ekki hugsað út í það að þau hafi bæði verið skráð fyrir félaginu. Það hafi alltaf verið ljóst að eignirnar væru Önnu. Það hafi svo verið þegar þau ákváðu að gifta sig sem þau hafi þurft að fara yfir ýmis mál og á sama tíma hafi þau skipt um umsýslufyrirtæki. Hið nýja hafi bent þeim á að þau væru bæði eigendur félagsins. Þetta var árið 2009, og á gamlársdag, daginn áður en ný löggjöf tók gildi á Íslandi, seldi Sigmundur Davíð Önnu Sigurlaugu sinn hlut á einn dal, eins og sjá má hér að neðan.
3. Er Tortóla skattaskjól?
Lágskattasvæði samkvæmt fjármálaráðuneytinu er: „Ríki eða lögsagnarumdæmi telst vera lágskattaríki þegar tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.“
Bresku Jómfrúreyjarnar eru lágskattasvæði samkvæmt lista ráðuneytisins, og sá listi byggir á lista OECD.
Helstu einkenni skattaskjóla samkvæmt OECD eru:
- Enginn eða mjög lágur tekjuskattur
- Skortur á skilvirkum upplýsingaskiptum
- Skortur á gagnsæi
- Engin raunveruleg starfsemi fer þar fram
Upplýsingaskiptasamningur á milli Íslands og Bresku Jómfrúreyjanna, var gerður þann 18. maí árið 2009, en samkvæmt þessum lista utanríkisráðuneytisins hefur hann ekki verið fullgiltur. Hann tók þó gildi samkvæmt Stjórnartíðindum árið 2011. Tvísköttunarsamningur við Bresku Jómfrúreyjar er líka í gildi, en hann er með takmörkuðu umfangi. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um Bresku Jómfrúreyjarnar er Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri, sem sagði til að mynda fyrir tveimur árum að erfitt væri að fá upplýsingar um skattaskjól því ýmsar banka- og fjárhagsupplýsingar lægju ekki fyrir. Hún nefndi sérstaklega Bresku Jómfrúreyjarnar í því samhengi. Upplýsingarnar séu ekki aðeins erfitt að sækja eða nálgast, þær séu einfaldlega ekki til staðar.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Ástæða þess að verið er að kjósa snemma eru Panamaskjölin, og stærsta málið þar er Wintris-mál Sigmundar Davíðs. Skjöl sýna fram á að Sigmundur Davíð átti Wintris og seldi sinn hlut í lok árs 2009, og Tortóla er skilgreint sem skattaskjól, hvað sem líður skattgreiðslum. Það er því niðurstaða Staðreyndavaktarinnar að samandregið séu þessar þrjár fullyrðingar haugalygi.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu hana á stadreyndavaktin@kjarninn.is.
*Þessi staðreyndavakt hefur verið uppfærð með upplýsingum um að upplýsingaskiptasamningur við Bresku Jómfrúreyjar tók gildi árið 2011 samkvæmt Stjórnartíðindum.