Þótt hún sé stutt á veg komin er ólíklegt að mörgum hafi látið forsetatíð Rodrigo Duterte fram hjá sér fara. Eftir að hafa verið svarinn í embætti forseta Filippseyja þann 30. júní síðastliðinn hefur hann látið til sín taka en ríflega 3.000 manns hafa látið lífið enn sem komið er í stríði hans gegn fíkniefnum - 2000 af þeim myrtir af óþekktum árásarmönnum utan lögreglunnar. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að styðja á bak við svokallaðar „dauðasveitir“ líkt og hann hefur verið ásakaður um að gera í tíð sinni sem borgarstjóri Davao, þriðju stærstu borg landsins.
Nú á dögunum bað hann engu að síður um sex mánaða framlengingu; umfang fíkniefnastarfseminnar var mun stærri en hann bjóst við, útskýrði Duterte, og viðurkenndi að hann gæti líklega ekki drepið alla þótt að hann að vildi, jafnvel þó hann eigi langt í land með að efna kosningaloforð sitt um að henda líkum hundrað þúsund glæpamanna í Manila-flóa.
Þá hefur hann látið til sín taka í utanríkismálum og sóst eftir nánari tengslum við Kína meðal annars í þeim tilgangi að auka flæði innviðafjárfestinga til landsins ásamt því að styrkja sjálfstæði Filipseyja frá Bandaríkjunum í stefnumótun í utanríkismálum. Þessi stefna hefur vakið sérstaka athygli í ljósi sigri Filippseyja gegn Kína í Alþjóðlega gerðardómsins í Haag um yfirráð á stórum hluta Suður-Kínahafs. Samhliða því hefur hann hreytt blótsyrðum og svívirðingum í átt að Bandaríkjaforseta Barack Obama, Ban Ki-moon, og nú síðast ESB.
Duterte var kosinn forseti með 39% atkvæða og vinsældir hans meðal Filipseyinga virðast hafa farið vaxandi síðan. Samkvæmt skoðanakönnun Pulse Asia þann 20. júlí síðastliðinn treysta 91% Filipseyinga Duterte og leiðtogi minnihlutaflokka á þingi, Danilo Suarez, sagði í vikunni að hann byggist ekki við því að vinsældir Duterte myndu minnka í kjölfar fjölgandi ásakana um tengsl Duterte við dauðasveitir. Hvað liggur á bak við stuðningin við hin grimma Duterte?
Spillingardans
Ójöfnuður í Filippseyjum er með því mesta sem gerist í heiminum. Fjörutíu ríkustu fjölskyldur landsins réðu yfir um þrjá fjórðu af vergri landsframleiðslu en 37.6% Filippseyinga þénuðu undir 3,1 Bandaríkjadal á dag samkvæmt könnunum frá árinu 2012. Ítök efnamikilla fjölskyldna landsins í stjórnmálum hefur verið staðreynd allt frá sjálfstæði landsins frá Bandaríkjunum 1946 og er að sjálfsögðu ekkert einsdæmi á heimsvísu. Hin gríðarlega spilling sem hefur fylgt þessum ítökum er hins vegar vart trúandi.
Þá rúma tvo áratugi sem Ferdinand Marcos stjórnaði landinu með harðri hendi stal hann um tíu milljarða Bandaríkjadollara – næstmest af öllum þjóðhöfðingjum eftir seinni heimsstyrjöld – að sögn hæstarétti landsins eftir að honum var steypt af stóli í byltingu árið 1986. Imelda Marcos, ekkja Ferdinand eftir að hann lést í útlegð á Hawaii 1989 og tákn spillingar Marcos-stjórnarinnar, var fyrst sýknuð í spillingarmáli 1990 (hún hefur síðan þá verið sýknuð í mörg hundruð spillingarmála í filipseyska réttarkerfinu) og sneri aftur til Filipseyja í kjölfarið, bauð sig fram og sætti ósigri í forsetakosningum 1992, en var kjörinn öldungadeildarþingmaður árið 1995. Sonur Marcos-hjónanna, Ferdinand „Bongbong“ Marcos Jr., er öldungadeildarþingmaður í dag og tapaði naumlega varaforsetakosningum sem fram fóru samhliða forsetakosningunum í vor. Enn hefur einungis lítill hluti peninganna sem var stolið verið endurheimtur og enginn hefur hlotið fangelsisdóm vegna hlutdeildar í málunum.
Annað gott dæmi er Joseph Estrada sem var forseti landsins milli 1998-2001 og náði á þeim skamma tíma að ávinna sér tíunda sætið yfir spilltustu þjóðarhöfðingjum eftir að hafa stolið um 80 milljónum bandaríkjadala. Hann hlaut lífstíðardóm fyrir vikið árið 2007 eftir sex ára málsmeðferð (í millitíðinni varð kona hans, Luisa Pimentel-Ejército kjörinn öldungadeildarþingmaður árið 2001). Skömmu eftir að úrskurður kom í dómsmáli Estrada hlaut hann fulla náðun af þáverandi forseta landsins, Gloria Macapagal Arroyo og er Joseph Estrada í dag borgarstjóri í Manilla.
Það eru til grátlega mörg svipuð dæmi úr valdastéttum Filippseyja sem lýsa hringekju spillingar þar sem sömu ættarnöfnin skjóta upp kollinum aftur og aftur.
Shabu og Sinaloa
Fíkniefnavandi Filippseyja hefur farið sívaxandi undanfarin ár. Neysla innanlands hefur stóraukist og samkvæmt skýrslu fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC)
er landið með hlutfallslega hæstu amfetamínneyslu í Asíu. Einna helst hefur tegund af amfetamíni sem kölluð er „shabu“ notið vinsælda og um 2,1% Filippseyinga á bilinu 16-64 ára neyta efnisins.
Þá hefur landið orðið mikilvæg miðstöð fyrir fíkniefnasmygli til og frá Asíu og námu andvirði um 8,4 milljarða bandaríkjadala árið 2013. Mexíkósk glæpasamtök á borð við hið illræmda Sinaloa Cartel hafa bæst í hóp kínverskra og vest-afrískra glæpasamtaka með starfsem í landinu en landfræðileg lega þess, mikil eftirspurn innanlands, ásamt spilltri og óskilvirkri löggæslu gera landið að tilvöldum stað fyrir fíkniefnasmygl.
Viðbrögð við vonbrigði
í ljósi þessarar þróunar hefur aðkoma hins 71 árs gamla Rodrigo Duterte verið ferskur blær í filippseyskum stjórnmálum. Hann stendur fyrir utan valdaklíkur landsins og með kosningu hans hefur almenningur í Filippseyjum fengið útrás fyrir reiði og óþolinmæði gagnvart hinum hefðbundnu ráðandi stéttum. Áralöng vonbrigði gagnvart misspilltum ríkisstjórnum landsins ásamt blússandi fíkniefnavanda hafa búið til grundvöll fyrir teiknimyndalega grimman karakter með mikla persónutöfra eins og Duterte.