Kvikmyndagerð getur oft verið listform og upplifunin að vera áhorfandi á það til að hreyfa við fólki og opna augu þess fyrir öðrum hliðum veruleikans. Blue Velvet er ein þessara mynda sem kemur á óvart og kallar á að áhorfandinn vinni sjálfur úr reynslunni og túlki sjálfur. Hann er ekki mataður á hefðbundinn hátt, heldur þarf að hann að vinna úr því sem fyrir augu ber á eigin vegum.
Blue Velvet varð strax mjög umdeild þegar hún kom út og fékk hún ekki góða dóma til að byrja með. Sumir gagnrýndu myndina og töldu hana spila á lægstu hvatir mannsins, hvatir kynlífs og ofbeldis. En þegar á leið og fólk fór að átta sig betur á myndinni fóru að heyrast aðrar raddir sem lofsungu hana og talað var um hana sem meistarastykki. Hún er í dag til að mynda númer átta á lista American Film Institute yfir bestu kvikmyndir kenndar við ráðgátu.
En hvað sem fólki finnst um þessa sérstöku kvikmynd þá verður ekki deilt um vinsældir hennar og sjá má á þessu þrjátíu ára afmæli að enn er til fólk sem sækist eftir þeirri reynslu sem áhorf hennar er. Rytminn og andrúmsloftið sem leikstjórinn, David Lynch, skapar í Blue Velvet er einstakt og einkennandi fyrir öll hans síðari verk.
Hugmyndin að myndinni kemur frá laginu Blue Velvet með Bobby Vinton frá árinu 1963. Lynch sagði að við það að hlusta á lagið hefði hann fengið fjölmörg brot hugmynda sem að lokum púsluðust saman í eina heild. Ferlið tók langan tíma og gerði hann fjögur uppköst að handriti áður en kvikmyndin fór í framleiðslu.
Eyra úti á víðavangi
Sögusviðið er lítill bær í Bandaríkjunum sem ber nafnið Lumberton. Jeffrey Beaumont snýr aftur heim til að sinna veikum föður sínum eftir heilablóðfall. Dag einn finnur Jeffrey eyra á afskekktri gönguleið og fer með það til lögreglunnar. Þá upphefst atburðarás þar sem hann kynnist dóttur lögregluforingjans, Sandy Williams, og byrja þau að rannsaka upp á eigin spýtur þetta undarlega mál.
Rannsóknin leiðir þau í vægast sagt furðulega atburðarás þar sem Jeffrey brýst inn í íbúð konu að nafni Dorothy Vallens sem þau telja tengjast málinu. Hann kemst að því að eiginmanni hennar og syni hafi verið rænt og að hún sé nú kynlífsfangi illmennisins Franks Booth, sem svo eftirminnilega er leikinn af Dennis Hopper. Þó má segja að söguþráðurinn sjálfur skipti ekki höfuðmáli heldur stemningin, myndatakan og ekki síst tónlistin sem er sköpuð fyrir áhorfandann. Myndin endar síðan á einhvers konar uppgjöri milli Jeffreys og Franks.
Misjafnir dómar
Eins og fyrr segir fékk kvikmyndin ekki góða dóma til að byrja með. Hún var sérstaklega gagnrýnd fyrir eitt atriðið þar sem karakterinn Dorothy Valles birtist nakin og blóðug úti á götu. Ekki þótti það sæma leikkonunni Isabellu Rossellini en greini hún sjálf frá því í viðtali að hún hafi kennt sjálfri sér um hvernig fyrstu dómar voru.
En þrátt fyrir harða dóma vestanhafs þá virðast íslenskir gagnrýnendur hafa tekið kvikmyndinni mun betur. Fjallað var um myndina hér á landi en hún kom ekki til sýningar fyrr en árið 1987 og í umfjöllun um myndina í DV í febrúar sama ár segir að handrit og leikstjórn gefi myndinni sérstakan blæ sem stundum virðist út úr fasa við raunveruleikann. Þar er farið fögrum orðum um leikstjórann og þessa nýju tegund af kvikmyndagerð.
Í umfjölluninni er töluvert gert úr því að Isabella Rossellini sé dóttir Ingrid Bergman, kvikmyndaleikkonu, en myndin opnaði ýmsar dyr tækifæra fyrir leikkonuna eftir frammistöðuna í Blue Velvet. Þetta var einungis þriðja kvikmyndin sem hún lék í og í viðtölum hefur hún sagt frá þeirri vanmáttarkennd sem hún fann fyrir vegna reynsluleysis. Hún sagðist einnig hafa lært mikið af leikstjóranum, enda átti hún eftir að leika í fjölda kvikmynda og þátta eftir þetta.
Byrjendur verða að stjörnum
Kyle MacLachlan, sem leikur Jeffrey Beaumont, öðlaðist frægð fyrir hlutverkin í kvikmyndum Davids Lynch, Dune og Blue Velvet. Ekki má heldur gleyma einu minnistæðasta hlutverki hans sem Dale Cooper í Twin Peaks en fyrir þann leik vann hann til Golden Globe verðlauna árið 1991. Hann hefur einnig leikið í þáttum á borð við Sex and the City, Desperate Housewives og How I Met Your Mother.
Isabella Rossellini er hvað þekktust fyrir að vera dóttir leikkonunnar Ingrid Bergman og leikstjórans Roberto Rossellini. Hún starfaði sem fyrirsæta og leikkona en hún vakti fyrst athygli fyrir að leika hlutverk Dorothy Vallens í þráttnefndri Blue Velvet. Hún hefur leikið í mörgum kvikmyndum og þáttaröðum síðan þá, gefið út bækur og gerst aðgerðarsinni.
Frægasti leikarinn í Blue Velvet á þessum tíma var Dennis nokkur Hopper. Hann vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt í Easy Rider árið 1969 og fylgdi hann henni eftir með eftirminnilegu hlutverki sínu í Apocalypse Now. Frammistaða hans sem vitfirringurinn Frank Booth í Blue Velvet fór ekki fram hjá þeim sem á horfðu og var honum veitt ýmis verðlaun fyrir hana. Hopper sagðist hafa verið þakklátur Lynch fyrir tækifærið, þar sem hann var nýkominn úr meðferð á þessum tíma og búinn að brenna margar brýr í kvikmyndaiðnaðinum. Blue Velvet kom honum aftur á kortið og átti hann eftir að leika í fjölmörgum myndum eftir það. Hann lést árið 2010 úr krabbameini aðeins 74 ára að aldri.
Síðast en ekki síst er vert að fjalla aðeins um Lauru Dern en hún túlkaði Sandy Williams í Blue Velvet. Hún hefur leikið í ógrynni kvikmynda og þátta síðan, til að mynda Wild at Heart, Jurassic Park, I am Sam og núna síðast vakti hún sérstaka athygli fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni Enlightened frá árinum 2011-2013. Hún var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Rambling Rose. Skemmtilegt er að greina frá því að Dern og Lynch munu enn og aftur leiða saman hesta sína því hún fer með eitt hlutverkið í þriðju þáttaröð Twin Peaks sem mun koma út á næsta ári.
Öðruvísi leikstjóri
Ekki er hægt að fjalla um Blue Velvet án þess að gefa gaum að leikstjóranum sjálfum, David Lynch. Hann fæddist í bænum Missoula í Montana-fylki í Bandaríkjunum árið 1946. Hann lærði myndlist sem ungur maður en snéri sér fljótlega að kvikmyndagerð. Hann byrjaði að framleiða stuttmyndir en öðlaðist frægð þegar hann leikstýrði kvikmyndinni Elephant Man árið 1980 með Antony Hopkins og John Hurt.
Ætla má að hann sé einna frægastur á Íslandi fyrir költ-þáttaröð sína, Twin Peaks, sem sýnd var á RÚV á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar við miklar vinsældir, ekki síst fyrir þær sakir að Öxar við ána hljómar svo eftirminnilega í einum þættinum. Hann hélt áfram að skrifa og leikstýra súrrealískum kvikmyndum á 9. og 10. áratugnum á borð við Lost Highway og Mulholland Drive. Hann hefur þrisvar sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leikstjórn og unnið til verðlauna um allan heim.
Lynch er þekktur fyrir áhuga sinn á andlegum málefnum en hann kom til Íslands árið 2009 til að halda fyrirlestur um innhverfa íhugun en hann taldi að slík hugleiðsla myndi meðal annars hjálpa Íslendingum eftir efnahagshrunið árið áður.
Mikil eftirvænting ríkir fyrir nýjasta verkefni Lynch. Til stendur að þriðja þáttaröð Twin Peaks líti dagsins ljós á næsta ári. Orðrómur hefur verið um gerð nýrra þátta um þó nokkurn tíma en nú er það staðfest að hún muni koma út. Margir leikarar snúa aftur í þessari þriðju þáttaröð. Sem dæmi má nefna Kyle MacLachlan sem lék lögreglumanninn Dale Cooper og Sherilyn Fenn sem túlkaði Audrey Horne dóttur hóteleigandans. Margir nýir munu bætast í leikarahópinn, til að mynda Laura Dern og Ashley Judd.
Hér fyrir neðan er áhugaverð heimildamynd um gerð Blue Velvet frá árinu 2002, þar sem notast er við gömul viðtöl við Lynch, auk þess sem tekin eru viðtöl við leikarana og aðra sem komu að gerð myndarinnar.