„Við sjáum það nú í fyrsta skipti í mörg ár, á árinu 2016, að fleiri Íslendingar flytjast aftur til Íslands en frá landinu.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi á mánudag. Fyrir viku síðan sagði hann svipaða hluti á Facebook-síðu sinni, með vísan í ný gögn frá Vinnumálastofnun.
Staðreyndavakt Kjarnans ákvað að kanna þetta, ekki síst í ljósi þess að mikil umræða hefur átt sér stað um flutninga Íslendinga til og frá landinu.
40 fleiri til landsins en frá því
Hagstofa Íslands tekur saman mannfjöldatölur fyrir hvern ársfjórðung. Á síðasta ársfjórðungi, öðrum ársfjórðungi þessa árs, fluttu 150 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því. Á fyrsta ársfjórðungi fluttu hins vegar 110 fleiri burt en til landsins, svo að á fyrri hluta þessa árs fluttu 40 fleiri íslenskir ríkisborgarar til Íslands en fluttu burt.
Munurinn er hins vegar miklu minni en undanfarin ár. Á sama tímabili í fyrra höfðu 490 fleiri Íslendingar flutt í burtu frá Íslandi en til Íslands. Árið 2014 voru 190 fleiri Íslendingar fluttir burt en til landsins, og árið 2013 var staðan þannig um mitt ár að 135 fleiri höfðu til Íslands en í burtu. 2012 voru brottfluttir 350 fleiri en aðfluttir, 630 árið 2011 og 590 árið 2010.
Ef tekin eru heil ár sést að í fyrra fluttu 1265 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en til landsins. Árið var eitt mesta brottflutningsár frá því að mælingar á þessu hófust, og aðeins fimm sinnum frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta, samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar. Það var alltaf í kjölfar kreppuára, eða árin 107, 1995, 2009, 2010 og 2011, en árið 2015 skar sig því töluvert úr af því að ekki ríkti kreppa hér á landi.
Spár um framhaldið
Í minnisblaði Vinnumálastofnunar, sem Bjarni vísar í, er sett fram spá fyrir árið 2016, líkt og sjá má í færslu Bjarna hér að neðan.
Ekki kemur fram í minnisblaðinu hvernig sú spá er gerð eða hvaða tölur liggja þar að baki. Kjarninn hafði samband við Vinnumálastofnun til að fá útskýringar á spánni. Í svari Vinnumálastofnunar kemur fram að tölur um brottflutta og aðflutta á fyrri helmingi ársins hafi verið uppreiknaðar til ársloka út frá reynslu undanfarinna ára, það er að um það bil 40 prósent búferlaflutninga Íslendinga komi fram á fyrri helmingi ársins og um 60 prósent á þeim síðari. Það gildi bæði um brottflutta og aðflutta.Þannig er því spáð að aðfluttir verði 3.365 þegar árinu lýkur, á meðan brottfluttir verði 3.229. Það muni því um það bil 136 fleiri Íslendingar flytja til landsins en frá því.
Vinnumálastofnun tekur skýrt fram að þetta sé spá, og að hún byggi á því að um það bil 40 prósent flytji til og frá landinu á fyrri hluta árs en um það bil 60 prósent á seinni hlutanum.
Undanfarin sex ár hefur þetta hlutfall verið á bilinu 38 prósent til tæplega 44 prósent á fyrri hluta árs hjá aðfluttum, og sömu sögu má segja hjá brottfluttum. Þá gat verið talsverður munur á hlutfalli brottfluttra og aðfluttra innan hvers árs.
Að meðaltali hefur 41,5% aðfluttra komið til landsins á fyrri hluta ársins undanfarin sex ár á meðan 39,8% brottfluttra hafa farið burt á fyrri hluta ársins. Ef uppreiknað væri miðað við þessar tölur væri spáin öðruvísi, og myndi sýna örlítið fleiri brottflutta en aðflutta, eða um 11 manns. Þetta sýnir hversu erfitt er að spá fyrir um flutningsjöfnuðinn þegar munurinn á milli aðfluttra og brottfluttra er orðinn svona lítill.
Hagstofa Íslands hefur spáð því í mannfjöldaspá sinni fyrir árin 2016 til 2065 að „íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“ Því er spáð að að meðaltali verði um 850 íslenskir ríkisborgarar brottfluttir en aðfluttir á hverju ári.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Fullyrðing Bjarna um það að fleiri Íslendingar séu að flytjast aftur til Íslands en frá landinu á við nokkur rök að styðjast, ef litið er á stöðuna miðað við tölurnar sem fyrir liggja fyrir árið og stuðst er við spá Vinnumálastofnunar, líkt og hann gerir. Hins vegar er munurinn á þeim sem flytja burt og heim svo lítill, jafnvel miðað við spá Vinnumálastofnunar, að það getur auðveldlega brugðið til beggja vona og niðurstaðan eftir árið orðið sú að fleiri flytji burt en heim.
Það er niðurstaða Staðreyndavaktar Kjarnans að í þessu máli sé staðhæfing Bjarna á réttri leið.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu hana á stadreyndavaktin@kjarninn.is.