Frumkvöðullinn Elon Musk, stjórnandi og stofnandi geimskutlufyrirtækisins SpaceX og rafbílaframleiðandans Tesla Motors, hugsar stórt. Hann kynnti í gær áform SpaceX um að smíða geimskutlur sem munu fara til „nágranna“ plánetu jarðarinnar, eins og hann sagði sjálfur, Mars.
Hann segist líta svo á að nauðsynlegt sé fyrir mannkynið að byrja að hugsa um tengjast öðrum hnöttum og plánetum í geimnum, og setja miklu meiri peninga, tíma og kraft í rannsóknir á sviðum geimvísinda en nú er gert. Á næstu 40 til 100 árum muni mannkynið verða að finna leið til fara frá jörðinni og búa eða dvelja á öðrum hnöttum. Þetta sé rökrétt framhald fyrir mannkynið, og tæknin væri orðin nógu háþróuð til að stefna að þessu. Vilji og ákveðni væri það sem þyrfti einna helst, til að ná þessum breytingum fram. „Við verðum að gera þetta,“ sagði Musk.
Til Mars og til baka
Á kynningarfundi sínum í gær, þar sem áform hans og SpaceX um að komast til Mars með fólk voru kynnt, sagði hann að eitt væri alveg ljóst. Það fólk sem yrði í fararbroddi þessarar vinnu, það er í geimferðunum sjálfum, þyrfti að vera tilbúið til þess að deyja. Það væri því miður fylgifiskur þess að ganga nógu langt til þess að geta framþróað búnaðinn þannig að markmiðið myndi nást. „Þetta verða hetjur framtíðarinnar,“ sagði Musk. Flaugin sem SpaceX ætlar að smíða og koma til Mars, mun geta flutt 100 farþega ásamt farangri og áhöfn. Flaugin verður því risavaxin og fullbúin helstu þægindum. Stefnan er að smíða fjölmargar slíkar flaugar og fljúga fólki út í geim.
Musk sagði að ekki væri hægt að selja fólki ferðir til Mars ef ferðin kostaði 10 milljarða Bandaríkjadala á mann, eða um 1.150 milljarða króna. „Við teljum að það verði hægt að selja ferðina á það sem nemur um 200 þúsund Bandaríkjadölum (23 milljónum króna) á mann,“ sagði Musk.
Á fundinum var jafnframt kynnt myndband, þar sem framtíðarsýn Musk birtist. Þar sést fólk ganga inn í geimskutluna, og síðan er rakið hvernig ferðalagið mun ganga fyrir sig, og tæknin útfærð. Óhætt er að segja að þetta hafi verið áhrifamikið, og sýndu gestir það margir hverjir með líkamstjáningu.
Efasemdaraddir
Eins og oft er raunin með stórar hugmyndir, þá eru efasemdaraddir aldrei langt undan. Í þessu tilfelli eru hindranirnar margar og stórar. Sú fyrsta sem er augljósust er kostnaðurinn. Ljóst er að hann verður mjög mikill, og Musk mun þurfa að reiða sig á tiltrú fjárfesta til að ná markmiðinu. Þó vasar hans séu djúpir, þá þurfa fleiri að koma að.
Áformin eru ekki ennþá fjármögnuð, þó mikil vinna hafi farið í þau. Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur lengi kallað eftir auknu fjármagni til að geta flýtt þróun á tækni sem gerir geimferðir, sem með geimförum innanborðs, til Mars mögulegar. Það hefur ekki fengist til þessa, þrátt fyrir mikinn þrýsting á Bandaríkjaþing og stjórnvöld.
Í annan stað er það síðan traustið sem borið er til SpaceX. Margir efast um að innan fyrirtækisins sé nægilega mikil þekking á þeim þáttum sem þarf að leysa úr, til að geta náð markmiðinu. Stutt er síðan geimskutla þess sprakk með þeim afleiðingum að tjón varð sem metið er á 200 milljónir Bandaríkjadala, eða um 25 milljarða króna. Rannsókn á því stendur enn yfir, og ekki ljóst ennþá hvenær henni lýkur.
Musk sagðist á kynningarfundinum stefna að því að ná að fljúgi mannaðri geimskutlu til Mars fyrir árið 2024, og þegar allt væri tilbúið, þá myndi fara fullmönnuð geimskutla, með 100 farþegum, á 26 mánaða fresti til Mars. Ferðalagið er langt og strangt, tekur marga mánuði.
Curiosity, geimvagninn frá NASA, lenti á Mars í ágúst 2012 og hafa rannsóknir hans ekki síst snúið að því að meta hvort örverulíf sé að finna á Mars. Vagninn kostaði um 300 milljarða króna í smíðum, eða jafnvirði um 2,5 milljarða Bandaríkjadala. NASA hefur sagt að mörg ár til viðbótar muni taka að vinna úr þeim upplýsingum sem vagninn hefur safnað saman í einstökum leiðangri sínum um rauða sanda Mars.