Þann 26. september síðastliðinn undirrituðu forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, og leiðtogi marxísku skæruliðasamtakanna Fuerzas Armadas Revolucionarias de Colombia (FARC), Rodrigo Londoño (sem einnig er kallaður Timochenko í höfuðið á sovéska herforingjanum Semyon Timochenko), friðarsáttmála til að binda enda á fimmtíu og tveggja ára löng átök í landinu. Landið var því einungis einu skrefi frá því að friðarsáttmálinn myndi taka gildi en varð svo óvænt felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag, sunnudaginn, 2. október. Hver er aðdragandi þessara átaka?
„Ef Jesús væri á lífi þá væri hann skæruliði“
Átökin milli FARC og ríkisstjórnar Kólumbíu eiga rætur sínar að rekja til stofnunar FARC í kjölfar árásar kólumbíska hersins á landsvæði stjórnað af kommúnistaskæruliðahreyfingum bænda í Marquetalia-lýðveldinu svokallaða sunnan við Bogotá, höfuðborg landsins, þann 27. maí 1964. Þeir Pedro Antonio Marín (þekktur sem Manuel Marulanda), reynslubolti úr borgarastyrjöldinni á milli íhaldsflokks og frjálslynda flokks Kólumbíu 1948-1958, og Luís Morantes (þekktur sem Jacobo Arenas), marxískur kenningasmiður, verkalýðsfélagsleiðtogi, og leiðtogi innan hins bannaða kommúnistaflokks Kólumbíu, urðu leiðtogar FARC og gerðu samtökin að hinum vopnaða væng kommúnistaflokksins. Morantes - hugmyndafræðilegur leiðtogi flokksins - taldi sig feta í fótspor Che Guevara og yfirsá hægan en stöðugan vöxt samtakanna á 7. og 8. áratugnum. Þrátt fyrir að samtökin voru að mestu leyti fjármögnuð með gíslatökum og fjárkúgun á þeim tíma nutu þau ímyndar sem rómantískir uppreisnarmenn sem veittu hliðhollum þorpum mennta- og heilbrigðisþjónustu og mótstöðu við ríkisstjórn sem beitti sér af mikilli hörku gegn vinstriöflum innan landsins.
Á þessum tíma mynduðust einnig fjölmörg önnur svipuð uppreisnarsamtök og ber þar helst að nefna Ejército de Liberación Nacional (ELN) sem átti rætur sínar í borgum landsins og samanstóð af háskólanemum, róttækum kaþólikkum, og vinstrisinnuðu menntafólki, andstætt við FARC sem hefur ávallt verið kennt við landsbyggðina. Camilo Torres Restrepo, kaþólskur prestur og einn af leiðtogum ELN sem reyndi að samrýma hugmyndafræði kaþólisma og marxisma, lét fræg titilorð þessa undirkafla falla en ELN hafa reynst jafn langlíf og FARC og gegna lykilhlutverki á bakvið tjöld friðarsamningaferlisins í dag.
Horfið frá byltingu
Þrátt fyrir að fíkniefnasmygl hafi almennt verið álitið „andbyltingarkennt“ og ekki byltingarsinnum boðlegt sem tekjulind þá byrjaði FARC að skattleggja cocalaufs bændur undir lok 8. áratugarins. Tekjur samtakanna jukust í kjölfarið til muna og fjöldi skæruliða einnig, eða úr nokkur hundruðum og í um þrjú þúsund. Þar af leiðandi hófust fyrstu friðarsamningaviðræður þar sem FARC fékk sæti við samningaborðið hófust í forsetatíð Belisario Betancur árið 1982 en óhætt er að segja að þær leiddu ekki til viðvarandi friðar.
Viðræður ríkisstjórnarinnar við FARC urðu vægast sagt erfiðar, en stofnun flokksins Union Patriótica (UP) árið 1985 sem eins konar þingflokks FARC var vonast til þess að samtökin myndi að lokum leggja niður vopnin og verða stofnanabundið stjórnmálaafl í landinu. Jacobo Arenas, og yfirstjórn FARC, var þó á öðru máli; vopnuð uppreisn byltingarinnar, og fjáröflunarleiðir hennar, áttu að halda ótrauðar áfram samhliða afskiptum af stjórnmálum. Afleiðingarnar urðu þær að vopnahlé ríkisstjórnarinnar við FARC endaði loksins árið 1987. UP hafði á skömmum tíma áunnið sér fylgi á vinstri væng stjórnmála í Kólumbíu. Í kjölfar áframhaldandi vopnaðra aðgerða og gíslatökum FARC höfðu hins vegar sprottið upp fjölmargar vopnaðar sveitir fjármagnaðar af hópum andvígum FARC á borð við stóra landeigendur og fíkniefnasmyglara en þessar sveitir álitu UP vera lýðræðislegt atgervi hryðjuverkasamtaka og auðvelt skotmark. Ríflega þrjú þúsund meðlimir UP létu lífið næstu ár sem varð til þess að flokkurinn varð lagður niður og eftir að Arenas lést úr hjartaáfalli árið 1990 dróg mikið úr hugmyndafræðilegu vægi í starfsemi FARC.
Samtökin höfðu eflst á 9. áratugnum og héldu áfram að vaxa allan þann 10. í skjóli þess að siðferðisleg valkreppa tengd afskiptum af fíkniefnasmygli var að mestu leyti horfin. Um þúsaldarmótin var því spáð af leyniþjónustu varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að landið ætti í hættu að verða að „narco-state“ stjórnað af FARC innan fimm ára; samtökin töldu um 20 þúsund skæruliða, stóðu fyrir um þrjú þúsund gíslatökum á ári, og stjórnuðu landssvæðum sem námu um einn þriðja hluta Kólumbíu - land sem á þeim tíma framleiddi um 90% af öllu kókaíni í heiminum.
Engir sigurvegarar
Áralöng þreyta á átökum og vonbrigði almennings yfir misheppnuðum friðarsamningaviðræðum í foresetatíð Andrés Pastrana (1998-2002) sýndu sig í kjöri hins stríðsglaða Álvaro Uribe árið 2002 í kosningarbaráttu þar sem einn mótframbjóðandi Uribe, Íngrid Betancourt, var tekin sem gísl af FARC. Með yfir níu milljarða Bandaríkjadali í hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum - hið Plan Colombia svokallaða - ásamt beitingu hinna vopnaða sveita sem áttu sitt upphaf á níunda áratugnum, náði Uribe að snúa vörn í sókn og á næstu átta árum fækkaði skæruliðum FARC niður í átta þúsund, fjölmargir leiðtogar samtakanna létust - þar á meðal hinn upphafsmaðurinn, Manuel Marulanda - og þau neydd til að draga vopnaða skæruliða sína til baka í strjálbýl landamærahéruð landsins. Þó svo að FARC hefði veikst til muna varð þó einnig ljóst að ómögulegt væri að vinna endanlegan hernaðarsigur; ríkisstjórn landsins hefur lagt allt í sölurnar í að berjast gegn samtökunum frá árinu 2002 en þrátt fyrir það eru þau enn talin hafa um 40 þúsund meðlimi og vera með tilvist í 28 af 32 sýslum landsins.
Ekkert plan B
Eftir að fjögurra ára friðarsamningaviðræðum á milli Juan Manuel Santos og Timochenko lauk með drögum að samningi síðsumars í ár var útlit fyrir að væri hægt að binda enda á, eða að minnsta kosti loka löngum kafla í, átakasögu Kólumbíu eftir að rúmlega tvö hundruð og tuttugu þúsund manns hafa látið lífið og yfir fimm milljónir misst heimili sín í fimmtíu og tveggja ára löngum átökum. Skammsýnt væri að halda að farsæl niðurstaða friðarsamningana myndi binda enda á fíkniefnasmyglstarfsemi og gíslatökur uppreisnarsamtaka í landinu - það er ýmislegt sem bendir til þess að ELN hafa tekið við keflinu af FARC á ákveðnum svæðum - en þó kemur það á óvart að kólumbíska þjóðin hafi kosið gegn samningnum. Santos og Timochenko hafa báðir tjáð að samningurinn sé sá besti sem báðir aðilar gætu orðið sammála um, og Santos héfur látið þau orð falla að hann „hafi ekkert plan B því plan B er að fara aftur í stríð“. Vonandi er hægt að komast hjá plani B.