Umræða um auðlegðarskatt fór fram á þingi á mánudaginn, þegar Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddu um samfélagsjöfnuð. Helgi spurði Bjarna meðal annars hvers vegna auðlegðarskatturinn hefði ekki verið framlengdur, og Bjarni svaraði því meðal annars til að fjármálaráðherra Samfylkingarinnar hafi lofað því að skatturinn yrði afnuminn, eða látinn renna út. Stjórnvöld hafi svo aðeins látið skattinn renna sitt skeið.
Þessi umræða varð tilefni Staðreyndavaktarinnar til að taka málið til umfjöllunar, án þess þó að verið sé að kanna beint sannleiksgildi þeirra ummæla. Hins vegar hefur sú umræða reglulega skotið upp kollinum að núverandi stjórnvöld hafi sérstaklega aflagt auðlegðarskattinn, og því var ákveðið að skoða málið út frá því.
Upphaf auðlegðarskatts
Það var Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, sem lagði fram frumvarp um tekjuöflun ríkisins haustið 2009. Þar var lagt til að lagður yrði auðlegðarskattur við álagningu 2010, 2011, 2012 og 2013, vegna eigna fólks í lok áranna 2009, 2010 og 2011. Í framsöguræðu sinni kom hann inn á ástæður þess að skatturinn var settur á.
„Á undanförnum árum auðgaðist tiltölulega fámennur hópur fólks mikið á útþenslu fjármálakerfisins sem hrundi síðan með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Af þessum ástæðum þykir nú sanngjarnt að taka upp sérstakan auðlegðarskatt og nýta tekjur af honum til að verja barnabótakerfið og hækka vaxtabætur....Augljóst má telja að þeir aðilar sem safnað hafa miklum eignum á undanförnum árum og hafa notið þess að skattur á fjármagnstekjur hefur verið lágur auk annarra hagstæðra skattareglna hafa því notið lækkandi skattlagningar á meðan allur almenningur hefur axlað þyngri byrðar. Af þeim sökum þykir ekki óeðlilegt að við þær aðstæður sem nú eru verði skattbyrði þessa hóps aukin nokkuð frá því sem áður var.“
Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem Helgi Hjörvar fór fyrir, kom sérstaklega fram að um væri að ræða „tímabundinn 1,25% skatt á eignir manna að frádregnum skuldum sem eru yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingum en 120 millj. kr. hjá samsköttunaraðilum. Lagt er til að skatturinn verði lagður á við álagningu 2010, 2011 og 2012.“
Tveimur árum síðar, haustið 2011, lagði Steingrímur svo fram annað frumvarp, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem lagt var til að auðlegðarskatturinn yrði framlengdur um tvö ár, en í meðförum þingsins tók málið breytingum og skatturinn var aðeins framlengdur um eitt ár.
Í umræðum um það mál á þingi tók Helgi Hjörvar til máls og leiðrétti Bjarna Benediktsson. „Háttvirtur þingmaður vék að auðlegðarskattinum og kallaði það svik að það sem hefði verið kynnt sem tímabundið væri nú ekki lengur tímabundið. Ég verð að leiðrétta hv. þingmann. Það er að vísu verið að framlengja þann skatt um eitt ár, því miður, en hann er engu að síður enn þá tímabundinn.“ Þeir töluðu einnig um möguleikann á því að fólk sem ætti að greiða auðlegðarskattinn flytti úr landi, og Helgi sagðist skilja áhyggjur „af því ef þetta yrði varanlegt sem skattlagning jafnmikil og hún er einmitt núna í augnablikinu.“
Þegar Oddný Harðardóttir var orðin fjármálaráðherra árið 2012 var hún spurð um auðlegðarskattinn og sagði „sá skattur er tímabundinn. Fyrst mundi ég skoða þann skatt ásamt lækkun á tryggingagjaldi áður en aðrar skattlagningar væru skoðaðar,“ um það hvort hún vildi lækka skatta.
Í viðtali við Viðskiptablaðið seinna árið 2012 sagði hún „Það eru hins vegar ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“
Í millitíðinni sagði Helgi á fundi VÍB: „Auðlegðarskattur er klárlega neyðarbrauð og ekki skattafyrirkomulag sem við viljum hafa viðvarandi. Með honum er leitað til þeirra sem eru efnaðastir í samfélagi okkar og þeir fengnir til að leggja sérstaklega af mörkum tímabundið í erfiðu árferði. Áætlað er að auðlegðarskatturinn verði út næsta ár, þó er ekki hægt í okkar erfiðleikum að útiloka að hann verði framlengdur eitthvað.“
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Ávallt var lögð á það áhersla að auðlegðarskattur væri tímabundin ráðstöfun, og meðal annars voru það rök þegar málið fór fyrir Hæstarétt, að skatturinn væri tímabundinn og því væri ekki talin ástæða til að líta svo á að hann bryti gegn stjórnarskránni. Það er því niðurstaða Staðreyndavaktarinnar að það séu fleipur að halda því fram að ríkisstjórnin hafi afnumið auðlegðarskattinn. Hann var einfaldlega látinn renna sitt skeið og ríkisstjórnin greip í raun ekki til neinna aðgerða í sambandi við hann.