Árið er 1963. Robert Zimmerman, öðru nafni Bob Dylan, sendi þá frá sér plötuna Times They Are Changing, sem var hans þriðja í röðinni. Hann var 22 ára þegar platan kom út, og hafði í farteskinu skerandi beitta texta og einstaka hæfileika. Þeir voru augljósir og höfðu raunar verið frá því hann kom fyrst fram sem unglingur.
Inn að beini
Textar ristu inn að beini hjá valdhöfunum, þjöppuðu kynslóðunum saman sem risu upp víða í Bandaríkjunum, þar sem kynþáttahyggja og klofningur vegna Víetnamstríðsins og aðdraganda þess, hafði mikil áhrif á samfélagsgerðina.
Á þessum tíma myndaði Dylan sterk og djúpstæð tengsl við bandarískan tíðaranda og fólk úr öllum stéttum, um öll Bandaríkin. Þau tengsl áttu svo eftir að berast út fyrir ríkin og um heim allan.
Það nötraði og skalf í húsum valdhafanna þegar hann steig á svið með gítarinn, einstæðan söng og texta sem sögðu sögur sem fólk tengdi við. Hann skapaði sinn eigin stíl, var sannur frumkvöðull á sviði þjóðlagalistar sem fylgt hefur Bandaríkjunum alla tíð.
Stóð með svörtum mitt í hatrinu
Sérstaklega náði Dylan að hreyfa við réttindabaráttu svartra með lögum sínum og flutningi, mannréttindabaráttu vítt og breitt, auk þess að skapa farveg – nánast einn síns liðs – fyrir samtakamátt listamanna þegar stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam var mótmælt. Á árunum frá 1963 og fram yfir 1975 þá var hann svo áhrifamikill, að fá dæmi eru fyrir því nokkru sinni að tónlistarmaður hafi náð að mynda slík tengsl við landa sína og áheyrendur.
Í morgunþætti útvarpsstöðvar hér á Seattle-svæðinu í morgun
voru Nóbelsverðlaun Bob Dylan mál málanna, og var þá ferill hans rifjaður upp. Tilkynnt
var um það í Stokkhólmi í morgun að verðlaunin færu til Dylan þetta árið. Rökin sem einkum var vísað til, voru textar hans sem höfðu mikil áhrif á bandaríkska þjóðlagasenu og samfélagið allt.
The New Yorker segir í pistli af þessu tilefni að nú eigi fólk að njóta þessara tímamóta með því að hlusta.
Dylan
hefur engin viðtöl veitt, og gerir það sárasjaldan, en hann er með tónleika í
Las Vegas í kvöld. Engin yfirlýsing hefur enn borist frá honum vegna
verðlaunanna. Hann hefur alltaf farið sínar eigin leiðir. Stundum valdið deilum
og farið á móti straumnum, en enginn getur efasta um sjálfstæði hans sem
listamanns.
Erfitt að átta sig á áhrifunum
Samtíðarmenn hans sögðu ómögulegt fyrir yngra fólk í dag að átta sig á því hvernig Dylan hefði hreyft við fólki á miklum umrótartímum í Bandaríkjunum.
Ný samfélagsgerð var að tekin að mótast eftir Kreppuna miklu og seinna stríð, og ógnvekjandi kynþáttahatur, stríðsrekstur og djúpstæðar deilur höfðu augljós áhrif á hann sem listamann. Nokkrum mánuðum eftir að Times They Are Changing kom út var John F. Kennedy Bandaríkjaforseti skotinn, 23. nóvember 1963, í Dallas.
Tveimur árum seinna sendi hann frá sér sitt vinsælasta lag, Like a Rolling Stone, sem kom út árið 1965. Ferill hans tók að teiknast upp inn í umrótið og var sum part hluti af því.
Stríðsreksturinn í Víetnam hertist í kjölfar dauða Kennedys og þjóðin var í sárum. Tilgangsleysi stríðsins og ótti almennings var umfjöllunarefni listamanna, ekki síst ungs fólks í New York, þangað sem Dylan flutti til að fylgja ferli sínum betur eftir ríflega tvítugur. Þar næstum áþreifanlegur sköpunarkraftur á þessum tíma.
Á árunum 1960 til 1980 urðu lög hans að eins konar þjóðsöngvum baráttufólks um öll Bandaríkin. Svartir náðu sérstaklega tengslum við Dylan-lögin. Eftir að Martin Luther King var drepinn í Memphis, 4. apríl 1968, ómuðu lög Dylans oftar en ekki undir mótmælum.
Eitt af hans frægari lögum, Hurricane, sem Dylan samdi með Jacques Levy, kom út árið 1975. Lagið var baráttulag fyrir boxarann Rubin „Hurricane“ Carter, sem mátti þola kynþáttafordóma og margvíslegt óréttlæti allan sinn feril. Denzel Washington lék Hurricane í samnefndri kvikmynd sem kom út árið 1999.
Flutti hugsanir sínar
Dylan hefur sjálfur fjallað um þennan tíma í bók sinni, Chronicles Volume One, og segir í þeim að hann hafi aldrei haft það bak við eyrað að hann væri í einhverri baráttu. Hann sagðist hafa reynt að orða hugsanir sínar og flytja þær eins og hann teldi best. Það væri allt og sumt.
Dylan hefur verið á tónleikatúr svo til allan sinn feril, og spilaði á tónleikum um allan heim. Hann þykir sérlundaður og á það til að halda tónleika sem gestir eiga erfitt með að átta sig á.
Þessi broddfluga tónlistarheimsins – og nú bókmenntanna – skilur eftir sig dýpri spor í bandarísku þjóðlífi en flestir ef ekki allir núlifandi Bandaríkjamenn. Síðasti Bandaríkjamaðurinn til að vinna verðlaunin var Toni Morrison árið 1993.
Þegar tilkynnt var um að verðlaunin færu til Bob Dylan, spurðu blaðamenn hvers vegna tónlistarmaður væri að fá bókmenntaverðlaunin. „Times They Are Changing“ var svarið.
Dylan, sem nú er 75 ára gamall, hefur ekki sagt sitt síðasta. Hann hefur sent frá sér 37 stúdíóplötur, 11 tónleikaplötur, 58 smáskífur og fjöldann allan af safnplötum. Afköstin hafa verið með ólíkindum á ferli sem spannar nú 55 ár.
Það er táknrænt að tilkynnt um að Nóbelsverðlaunin hafi fallið í hans skaut, á meðan hann var að undirbúa sig fyrir tónleika. Hann er eiginlega alltaf í þeim aðstæðum: Að fara spila á tónleikum.
Kannski hljóma þessar línur hér að neðan. Beittari og kjarnyrtari verða textarnir ekki.