Eftir sex mánaða málhvíld á Twitter rauf Stephen Fry þögnina og tilkynnti að hann væri farinn að tísta á ný. Aðdraganda brotthvarfs Fry má rekja til BAFTA-verðlaunaafhendingarinnar í febrúar á þessu ári en hann hætti á Twitter eftir að hafa gert athugasemdir við klæðaburð eins verðlaunahafans á samfélagsmiðlinum. Fry hefur verið duglegur að tísta nánast frá upphafi samfélagsmiðilsins en tístin eru orðin tæplega 22.000 talsins og er hann með yfir 12 milljón fylgjendur, sem verður að teljast nokkuð gott. En hvað hefur Fry gert til að öðlast slíkan fylgjendahóp og umtal í fjölmiðlum?
Twitter fyrir og eftir
Í þessu umdeilda tísti talaði hann um búningahönnuðinn Jenny Beavan sem „bag lady“ sem vísar til sóðalegra heimilslausra kvenna. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og gagnrýndu hann margir fyrir ummælin. Hann brást ókvæða við og gaf út yfirlýsingu á vefsíðu sinni að hann væri hættur á Twitter. Hann benti á að Beavan, konan sem hann gerði grín að, væri vinkona hans og að hún hefði ekki tekið illa í athugasemdina. Tístið hefði verið sett fram í góðu og vinsamlegu gríni.
Sjá má töluverða breytingu á Twitter-reikningi hans fyrir og eftir hlé. Frá því Fry byrjaði aftur að tísta hefur hann einblínt á viðburði sem tengjast vinnu hans eða málefnum sem vekja áhuga hans. Minna er um persónulegar athugasemdir og er nokkuð ljóst að hann heldur ákveðinni fjarlægð við fylgjendur sína miðað við áður.
Ólátur sem unglingur
Stephen Fry fæddist í Hampstead í London á Englandi árið 1957. Skólaganga hans einkenndist af vandræðum og var honum iðulega vikið úr skóla fyrir að óhlýðnast eða fyrir skapofsaköst. Hann hefur sjálfur greint frá því að hann hafi stolið hlutum og peningum sem barn og unglingur, ekki vegna þess að hann þyrfti á því að halda, heldur sóttist hann eftir spennunni sem fylgdi verknaðinum.
Þetta náði ákveðnum hápunkti þegar hann var 17 ára en þá hann var nappaður fyrir kreditkortastuld og látinn húka í fangelsi í nokkra mánuði. Hann segir að þetta atvik hafi mótað hann og að eftir þetta hafi hann hætt að taka hluti ófrjálsri hendi.
Fræg vinátta
Eftir þessar æskusyndir fór Fry í Cambridge, þar sem hann lærði enskar bókmenntir. Örlagavaldur hans var þó leiklistarklúbbur skólans sem kallaðist Footlights Club en þar fékk hann ástríðu fyrir gamanleik og leiklist. Hann kynntist einnig samstarfsmanni sínum og besta vini, Hugh Laurie, sem hann átti eftir að eiga í blómlegu samstarfi við næstu áratugina. Með þeim í klúbbnum var einnig leikkonan Emma Thomson sem síðar átti eftir að vinna til Óskarsverðlauna og öðlast heimsfrægð fyrir leik og handritagerð.
Fry and Laurie náðu strax vel saman, bæði persónu- og fagmannlega. Gamanþættirnir A Bit of Fry & Laurie urðu gríðarlega vinsælir í Bretlandi og víðar og voru fjórar seríur sýndar á BBC á árunum 1989 til 1995. Einnig gerðu þeir félagarnir saman þættina Jeeves and Wooster, þar sem Fry lék einkaþjón Laurie en atburðarásin var oft mjög kómísk.
Fleiri þættir komu Fry á kortið. Þar má til dæmis nefna Black-Adder II, þar sem hann lék hinn borubratta hershöfðingja Lord Melchett. Hann hefur einnig leikið í fjölda sjónvarpsbíómynda og í stórmyndum á við V for Vandetta og The Hobbit. Hann fékk Goben Globe verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki árið 1998 fyrir túlkun sína á Oscar Wilde í kvikmyndinni Wilde þar sem hann var sagður fara á kostum.
Einna frægastur mun Fry vera fyrir að vera spyrill og þáttastjórnandi í skemmtispurningaþættinum QI þar sem grínistinn Alan Davis hefur setið við hlið hans í ellefu ár. Fréttnæmt þótti á síðasta ári þegar Fry ákvað að stíga til hliðar og hætta sem spyrill. Davis mun þó halda áfram við hlið hinnar dönsku Sandi Toksvig sem birst hefur iðulega í þættinum sem gestur fram að þessu.
Áhrifamikill og upptekinn
Ekki síst er Fry þekktur fyrir heimildaþáttagerð. Hann hefur búið til fjölda þátta þar sem viðfangsefnin eru margvísleg og sumir þeirra hafa verið sýndir á Rúv. Þar má nefna Stephen Fry in America þar sem hann fór þvert yfir Bandaríkin á breskum leigubíl og kynnti sér menningu og þjóð. Hann gerði einnig þættina Last Chance to See, með dýrafræðingnum Mark Carwardine, og Stephen Fry: Out There þar sem hann fjallaði um viðhorf til samkynhneigðar um heim allan.
Einnig hefur hann skrifað bækur, tekið þátt í hinum ýmsu spjallþáttum, búið til útvarpsþætti, leikið á sviði og talað inn á talbækur og tölvuleiki. Hann hefur hlotið heiðursdoktorsnafnbót og fengið ýmis verðlaun fyrir störf sín í sjónvarpi. Þegar hann varð fimmtugur heiðraði BBC Four hann með því að tileinka tvö kvöld afmælinu með heimildaþáttum um hann. Hann hefur því ótvíræð áhrif á breskt samfélag og það kristallast meðal annars í verkum hans og viðbrögðum almennings við honum.
Glíma við geðhvarfasýki
En þrátt fyrir mikla velgengni um ævina hefur Fry ekki alltaf liðið vel. Hann var greindur með geðhvarfasýki árið 1995 eftir að hafa horfið skyndilega eftir sýningu í West End í London. Hann greindi síðar frá því að hann vildi enda líf sitt eða í besta falli flýja lífið eins og hann þekkti það. Síðan þá hefur hann ekki veigrað sér við að tala opinberlega um veikindi sín en hann bjó til heimildaþætti um geðhvarfasýki, Stephen Fry: The Secret Life of the Manic Depressive, sem áttu eftir að vinna til Emmy verðlauna. Þar greindi hann frá sinni eigin reynslu og tók viðtöl við fjölda fólks með sama sjúkdóm.
Opinn með samkynhneigð
Fry hefur einnig verið ötull talsmaður samkynhneigðra en hann ákvað eftir að hann varð frægur að fara aldrei í felur með það. Hann gerði eins og áður sagði heimildaþættina Stephen Fry: Out There þar sem hann talaði meðal annars við fræga einstaklinga á borð við söngvarann Elton John um reynslu hans og upplifun á tímum fordóma og þröngsýni. Einkar athyglisvert var þegar hann talaði við fólk út um allan heim sem bjó við hinar ýmsu félagslegu aðstæður þar sem það lýsti ofsóknum og þeim hryllilega veruleika sem það þurfti að lifa við.
Fry giftist uppistandaranum og grínistanum Elliott Spencer í janúar 2015 en töluvert var fjallað um giftinguna í blöðum í Bretlandi. Fry greindi frá áætlunum sínum að giftast á Twitter og úr því varð tveimur vikum síðar.
Hann er númer tvö á lista yfir áhrifamestu samkynhneigða einstaklinga í heiminum árið 2016 á eftir leikaranum Sir Ian McKellen.
Óvarleg ummæli
Fry er vinsæll viðmælandi enda koma blaðamenn og spjallþáttastjórnendur sjaldan að tómum kofanum hjá honum. Hann tjáir sig um allt milli himins og jarðar, allt frá tungumálinu yfir í trúarbrögð. Á netinu má finna ógrynni viðtala við hann í riti, útvarpi eða sjónvarpi. Fyrir vikið hefur hann í gegnum tíðina látið ummæli falla sem ekki eru vel séð.
Nýlegasta dæmið er þegar hann sagði í viðtali fyrr á þessu ári að það ætti að vera hægt að skrifa um til dæmis kynferðisofbeldi án þess að eiga á hættu að vera ritskoðaður. Hann sagði að ef fólk kæmist í uppnám við að horfa MacBeth vegna eigin persónulegu reynslu þá væri lítið við því að gera og að fólk ætti ekki að vorkenna sér. „Sjálfsvorkunn er ljótasta tilfinningin,“ var meðal annars haft eftir Fry. Þessi ummæli fóru ekki vel í marga og þótti sumum hann fara yfir strikið. Hann baðst síðar afsökunar á orðum sínum og sagðist vera miður sín yfir því að hafa móðgað fólk og sært það. Honum hafi mistekist herfilega að koma frá sér því sem hann ætlaði að segja.
En þrátt fyrir umdeild ummæli og núninga á samfélagsmiðlum virðist Fry ekki geta slitið sig frá opinberri umræðu. Hann heldur áfram að tjá sig, hvort sem það er á Twitter eða í gegnum aðra miðla og ekkert lát er á störfum þessarar þjóðargersemar Breta.