„Við teljum að krónan hafi gengið sér til húðar. Hér eru hæstu vextir í heimi,“ sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, í umræðuþætti á RÚV um Ísland og umheiminn á þriðjudagskvöld. Össur endurtók þessa fullyrðingu í stöðuuppfærslu á Facebook og aftur í grein sem hann skrifaði á Kjarnann í gær. Þar sagði: „Á Íslandi eru hæstu vextir í heimi.“
Staðreyndavakt Kjarnans ákvað að kanna þessa fullyrðingu.
Stýrivextir og húsnæðisvextir
Á Íslandi eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 5,25 prósent um þessar mundir. Þetta eru vextir á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum. Þetta eru vissulega mun hærri stýrivextir en víðast hvar í Evrópu, til að mynda eru stýrivextir á evrusvæðinu 0,00 prósent. Í fimm ríkjum í Evrópu eru þeir þó hærri en á Íslandi. Í Hvíta-Rússlandi eru vextirnir 18 prósent, í Moldóvu 9,5 prósent, 10 prósent í Rússlandi, 7,5 prósent í Tyrklandi og 15 prósent í Úkraínu. Næst íslensku vöxtunum eru vextir í Bosníu og Hersegovínu, þar sem þeir eru 5,01%. Víða utan Evrópu eru stýrivextir enn hærri.
Ef horft er á vexti á íbúðalánum þá eru óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum hérlendis 5,9-10,4 prósent. Langalgengast er að óverðtryggðir, bæði fastir og breytilegir, séu undir sjö prósentum.
Verðtryggðu vextirnir hérlendis eru frá 3,15 til 4,5 prósent. Við þá bætast vitanlega verðbætur en þær hafa verið lágar á Íslandi um nokkuð langt skeið, enda hefur verðbólga hérlendis verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2014. Tólf mánaða verðbólga í dag mælist 1,8 prósent.
Vextir hérlendis eru því afskaplega háir og mun hærri en í flestum löndum sem við miðum okkur við. Enginn vafi er á því að það er mjög dýrt að taka húsnæðislán hérlendis og endurgreiðsla á því er margföld miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
Í Þýskalandi (þar sem gjaldmiðillinn er evra) eru húsnæðislánavextir til að mynda 0,89 prósent hjá Deutche Bank, stærsta banka landsins. Í Noregi (þar sem gjaldmiðillinn er norsk króna) eru þeir 1,95 prósent hjá Danske Bank. Í Bandarikjunum er meðaltal vaxta á húsnæðislánum ýmissa fjármálastofnanna 2,125 prósent. Allir þessir vextir eru óverðtryggðir, enda verðtryggð húsnæðislán séríslenskt fyrirbæri.
Vextir á húsnæðislánum eru þó samt sem áður mun hærri í mörgum löndum en þeir eru á Íslandi. Ef miðað er við algenga óverðtryggða vexti á Íslandi, sem eru 6,5-7 prósent, þá eru hærri vextir í að minnsta kosti 23 löndum. Vextir á húsnæðislánum í Makedóníu eru til að mynda 7,5 prósent, á Indlandi eru þeir 9,45 prósent, Í Kosovo eru 9,5 prósent, Rússlandi 11,5 prósent, Georgíu 14 prósent, Tyrklandi 16,08 prósent, Nigeríu 17,9 prósent, Pakistan 20 prósent og í Úkraínu 22,3 prósent.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Það er því niðurstaðan að fullyrðing Össurar Skarphéðinssonar um að hér séu hæstu vextir í heimi sé haugalygi.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu hana á stadreyndavaktin@kjarninn.is.