Innflytendur á Íslandi voru 31.812 talsins í upphafi þessa árs. Þeim fjölgaði úr 29.192 á árinu. Frá árinu 2012 hefur innflytjendum fjölgað úr því að vera átta prósent af þeim mannfjölda sem býr á Íslandi og upp í 9,6 prósent. Hæst er hlutfall innflytjenda á Suðurnesjunum, en þar eru 16 prósent þeirra sem þar búa innflytjendur. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Þar kemur einnig fram að annarri kynslóð innflytjenda hefur líka fjölgað hratt á undanförnum árum og samanlagt hlutfall þeirra sem eru af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda hefur aldrei verið hærra, eða 10,8 prósent af mannfjöldanum. Önnur kynslóð innflytjenda telur nú 4.158 manns.
Þá hefur einstaklingum með erlendan bakgrunn, aðrir en innflytjendur, líka fjölgað. Þeir eru nú 6,7 prósent mannfjöldans.
16 prósent íbúa á Suðurnesjum
Sem fyrr eru Pólverjar langfjölmennasti hópurinn sem hér býr. Alls eru þeir 37,7 prósent allra innflytjenda og í upphafi árs voru íslensku Pólverjarnir 11.988 talsins.Þar á eftir koma innflytjendur frá Litháen og Filippseyjum.
Flestir fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur búa á höfuðborgarsvæðinu, eða 23.707 manns. Það eru 65,9 prósent allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af heildaríbúafjölda á landssvæði er hins vegar hæst á Suðurnesjunum þar sem 16 prósent íbúa eru innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Á Vestfjörðum er hlutfallið 14,1 prósent en lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra þar sem einungis 5,1 prósent mannfjöldans eru innflytjendur eða börn þeirra.
Innflytjendum mun að óbreyttu fjölga mikið
Hagstofan birti í lok júní nýja mannfjöldaspá sem nær til ársins 2065. Í miðspá stofnunarinnar var gert ráð fyrir að Íslendingar væru orðnir 442 þúsund í lok spátímabilsins, en þeir voru 332 þúsund í upphafi þessa árs.
Samkvæmt spánni munu fleiri flytja til landsins en frá því næstu hálfu öldina. Þar sagði: „Fjöldi aðfluttra verður meiri en brottfluttra á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“
Aðfluttir umfram brottflutta á árinu 2015 voru 1.447 talsins. Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgaði á sama tíma um 2.460. Hagstofan gerir ráð fyrir að þessi þróun muni halda áfram næstu 50 árin. Þ.e. að íslenskir ríkisborgarar sem leiti tækifæranna í öðrum löndum frekar en hér verði 850 fleiri að meðaltali á ári en þeir sem skila sér aftur heim eftir dvöl erlendis. Á 50 árum eru þetta um 43 þúsund manns.Til landsins munu hins vegar koma um 1.600 fleiri útlendingar á ári en flytjast frá því. Á 50 árum gera það um 80 þúsund manns. Verði Íslendingar 442 þúsund talsins árið 2065, líkt og spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir, ættu erlendir ríkisborgarar þá að verða um 107 þúsund talsins, eða um fjórðungur þjóðarinnar.
Borga meira í skatt og taka minna til sín
Í ágúst greindi Kjarninn frá því að erlendir ríkisborgarar eru nú yfir tíu prósent þeirra sem greiða skatta á Íslandi. Rúmlega annar hver nýr skattgreiðandi hérlendis á síðustu árum hefur komið erlendis frá og á árinu 2015 einu saman voru 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bættist við skattgrunnskrá landsins í fyrra voru erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var íslenskur ríkisborgari.
Á sama tíma voru greiðslur í félagslega aðstoð þær lægstu sem þær hafa verið frá hruni. Í fyrra, þegar útlendingum sem fluttu til Íslands fjölgaði meira en þeim hafði gert árum saman, drógust slíkar greiðslur saman í fyrsta sinn í átta ár. Umfang greiðslu atvinnuleysisbóta hefur enn fremur dregist mjög saman samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi. Árið 2011, þegar fjöldi þeirra náði lágmarki eftir hrun, greiddi íslenska ríkið 24,7 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. Í fyrra, þegar fjöldi erlendra ríkisborgara náði hámarki eftir hrun, var sú upphæð 8,8 milljarðar króna.