Nefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra Færeyja skilaði 3. október síðastliðinn ítarlegri skýrslu um skipan fiskveiðistjórnunar en núverandi fiskveiðistjórnunarlög falla úr gild í byrjun árs 2018. Nefndin leggur til uppboðsleið á veiðiheimildum og að sú leið verði varanlega fastsett niður með lögum.
Útlit er að fyrir að ný ríkisstjórn á Íslandi, sem tekur við völdum eftir kosningarnar 29. október næstkomandi, muni taka fiskveiðistjórnunarkerfið til endurskoðunar, og huga sérstaklega að uppboðsleið. Í það minnsta fimm flokkar segjast opnir fyrir breytingum í þá veru, Viðreisn, Píratar, Samfylkingin, Vinstri græn og Björt framtíð.
Skýrsla nefndarinnar ber heitið „Ný og varanleg skipan fiskveiðimála fyrir Færeyjar“. Hún er ítarleg, tæplega 250 síður, og er þar fjallað um helstu álitamál sem Færeyingar standa frammi fyrir við stjórn fiskveiða.
Lykilatriði til umfjöllunar
Nefndinni var með erindisbréfi ráðherra falið að fjalla um öll lykilatriði í skipan færeysks sjávarútvegs.
Nefndin leggur til að árlega verði stór hluti fiskveiðiheimilda boðinn upp en rétturinn að afganginum framlengdur til árs í senn.
Þó skal það þannig gert að þegar frá upphafi renni auðlindarentan - sem fæst fram með uppboðunum - að fullu í landssjóð Færeyinga. Lagt er til val á milli tveggja uppboðsleiða.
Hugmyndir um uppboðsleið við stjórnun fiskveiða hér á landi sem komið hafa fram, meðal annars hjá Þorkeli Helgasyni stærðfræðingi og Jóni Steinssyni hagfræðingi við Columbia háskóla, eru að grunni til svipaðar þeim sem fjallað er um í skýrslu nefndarinnar í Færeyjum.
Varfærin nálgun
Segja má að hugmyndirnar sem ræddar hafa verið mest hér á landi, séu varfærnari og tengjast hugmyndunum um fyrningu veiðiheimilda og uppboð á þeim heimildum sem þannig losna.
Má þar vísa til skýrslu sem Þorkell og Jón skrifuðu fyrir stjórnskipaða nefnd um endurskoðun á stjórn fiskveiða sumarið 2010, nánar tiltekið til þeirrar gerðar þar sem hluti aflaheimilda er boðinn upp til árs í senn en með skertum forleigurétti um framhaldið.
Bæði í færeysku hugmyndunum og hugmyndum Jóns og Þorkels er gengið út frá aflamarkskerfi til ráðstöfunar á leyfðum heildarafla. Jafnframt hafa hugmyndirnar það sammerkt að í upphafi er gengið er út frá þeim heimildum sem útgerðirnar hafa þá og þeim endurúthlutað með vissri skerðingu eða fyrningu. Þessi skerðing haldi síðan áfram hlutfallslega á hverju ári.
Það sem þannig losnar verði boðið upp til árs í senn með fyrirheiti um endurúthlutun en með fyrrgreindum skerðingarákvæðum. Í báðum hugmyndunum má setja bjóðendum skilyrði, eins og að þeir verði að vera innlendir og setja megi því skorður hvað safnast megi á sömu útgerð,.
Hugmyndirnar eru ólíkar að því leiti að Færeyingar vilja bæði bjóða stærri hluta heimildanna upp á hverju ári en Jón og Þorkell hafa talað fyrir. Ennfremur fá núverandi handhafar veiðiréttindanna enga fjárhagslega aðlögun í tillögum Færeyinganna, en í hugmyndum Jóns og Þorkels er núverandi kvótahöfum veitt meiri aðlögun að breyttu kerfi.
Draga má þennan afgerandi mun saman með eftirfarandi punktum:
• Færeyingar vilja bjóða upp 20% heimildanna á hverju ári en endurúthluta 80%. Í hugmyndum Jóns og Þorkels er gengið út frá mun hægari innkomu uppboða, eða 8% á ári. Endurúthlutunarhlutfallið er að sama skapi hærra í þeirra tillögum, eða 92%.
• Færeyingar veita þeim útgerðum, sem fyrir eru, engin grið. Enda þótt þeim sé gefin kostur á að fá 80% af fyrri heimildum endurúthlutuðum – fram hjá uppboðunum – þurfa þeir að greiða fyrir þær heimildir fullt verð, það verð sem verður til á uppboðunum. Í hugmyndum Jóns og Þorkels fá núverandi kvótahafar 92% réttinda sinna framlengd og það án nokkurs endurgjalds, en með árlegri skerðingu.
• Auðlindaarðurinn – sá umframarður sem verður til við nýtingu takmarkaðra en eftirsóttra gæða – er strax í upphafi innheimtur að fullu í landssjóðinn í tillögum Færeyinga. Í hugmyndum Jóns og Þorkels er aðeins 8% arðsins innheimtur á fyrsta ári og eftir að nýtt kerfi væri búið að vera í gildi í 9 ár skiptist þessi aukaarður enn að jöfnu milli samfélagssjóða og útgerðanna.
Að grunni til eru þær hugmyndir sem lagðar eru fram í skýrslu nefndarinnar í Færeyjum svipaðar þeim sem Jón og Þorkell hafa talað fyrir, nema hvað þau síðarnefndu vilja fara hægar í sakirnar til að tryggja að þessi kerfisbreyting gangi vel fyrir sig og tryggi almenningi sanngjarnt auðlindagjald.