Trúnaðarmannaráð Rafiðnaðarsambands Íslands krefst þess að Kjararáð dragi til baka úrskurði sína um hækkun launa helstu ráðamanna þjóðarinnar, það er alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands sem og þá úrskurði sem hækkuðu laun afmarkaðra hópa umfram það sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur þegar afþakkað hækkunina, en þingmenn og ráðherrar hafa ekki gert það.
Í tilkynningu sem trúnaðarmannaráðið sendi frá sér í dag, og vitnað er til á vef RÚV, segir að launahækkun ráðamanna „gjöreyði“ sáttinni sem unnið hefur verið að því að ná á vinnumarkaði. „Úrskurðir kjararáðs eru til þess fallnir að gjöreyða þeirri sátt í samfélaginu sem reynt hefur verið að móta á undanförnum árum með miklum átökum. Nauðsynlegt er að árétta að öll ábyrgð á úrskurðum kjararáðs hvílir á Alþingi og alþingismönnum sjálfum.“
Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna verður 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Öll helstu samtök verkalýðshreyfingarinnar, vinnuveitenda og opinberar starfsmanna hafa mótmælt launahækkun ráðamanna harðlega, og sagt hana grafa undan möguleikanum á því að ná sátt á vinnumarkaði, þegar kemur að samningum um kaup og kjör.
Í tilkynningutilkynningu frá Samtöku atvinnulífsins og Viðskiptaráði segir að Alþingi hafni alfarið nýlegum launahækkunum Kjararáðs. „Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands skora á nýtt Alþingi að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs og leggja málið í sáttaferli. Með því er bæði átt við úrskurði um þingfararkaup og laun ráðherra sem og nýlega úrskurði um ríflegar hækkanir á launum embættismanna. Að öðrum kosti er borin von að aðilar vinnumarkaðarins geti haldið áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð, ferli sem kennt hefur verið við Salek.“