Óhætt er að segja að fyrirtækið Tempo, sem er dótturfélag Nýherja, hafi átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum og hefur þetta ár ekki verið undantekning þar á. Tekjur fyrirtækisins jukust um 43 prósent milli ára, og eru starfsmenn nú orðnir 90 talsins, og telst fyrirtækið með mestu vaxtarfyrirtækjum landsins í hugbúnaðargeiranum. Starfsfólkið er staðsett í höfuðstöðvunum í Reykjavík, og einnig á skrifstofum fyrirtækisins í San Francisco í Bandaríkjunum og Montreal í Kanada.
Í forgrunni á stórri ráðstefnu
Í síðustu viku var Tempo aðalstyrktaraðilinn að Atlassian Summit, sem er stór ráðstefna sem haldin er í Sílikondalnum. Atlassian er hugbúnaðarfyrirtæki sem framleiðir hugbúnað fyrir fyrirtæki sem yfir 60 þúsund viðskiptavinir nýta sér á heimsvísu. Á ráðstefnunni eru vörur kynntar, en þetta var í áttunda sinn sem ráðstefnan fer fram. Þátttakendur á ráðstefnunni voru 3.200 að þessu sinni og voru 17 starfsmenn Tempo á ráðstefnunni til að kynna lausnir fyrirtækisins. Á meðal kynningarefnis fyrirtækisins voru myndbönd þar sem fyrirtækin Icelandair og LS Retail fóru yfir það hvernig lausnir Tempo hafa hjálpað þeim.
Mögulegt söluferli
Fyrirtækið var stofnað árið 2009, af starfsfólki TM Software. Vöxturinn hefur síðan verið næstum 50 prósent á hverju ári. Tempo er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar verkefnastýringar- og viðskiptahugbúnað (B2B) fyrir JIRA kerfið frá Atlassian.
Viðskiptavinir Tempo eru í dag um 8700 í yfir 115 löndum. Viðskiptavinir eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá smáum og meðalstórum fyrirtækjum yfir í stór alþjóðleg fyrirtæki.
Á síðustu mánuðum hafa mörg stór fyrirtæki bæst í hóp viðskiptavina fyrirtækisins, meðal annars Deloitte, LinkedIn, NBC Universal, Sears, og Starbucks. Aðrir stórir viðskiptavinir eru Amazon, BMW, Disney, Dow Jones, Hulu, NASA, Princeton University, og PayPal.
Nýherji tilkynnti um það í tilkynningu til kauphallar Íslands 24. ágúst síðastliðinn að fyrirtækið AGC Partners hefði verið ráðið til að undirbúa mögulegt söluferli á félaginu.