Kosningabarátta Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata, og Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, hefur verið fordæmalaus af mörgum ástæðum. Nú á kjördegi er staðan verulega spennandi, sé mið tekið af könnunum.
Vefurinn FiveThirtyEight telur að Hillary Clinton hafi náð byr í seglin á síðustu dögum, eftir að bandaríska alríkislögreglan FBI sendi frá sér tilkynningu um að ekki væri tilefni til saksóknar gegn Hillary vegna tölvupósta hennar, þar sem ekkert fyndist sem benti til þess að hún hefði brotið lög, eins og Donald Trump hefur margítrekað.
1. FiveThirtyEight metur nú um 70 prósent líkur á sigri Hillary, en 30 prósent á að Trump sigri. Staðan er þó tvísýn og ljóst þykir, að kosningaþátttaka mun ráða miklu um það hvernig fer að lokum. Sérstaklega er staðan spennandi í ríkjum eins og Nevada, Ohio, Norður-Karólínu og Flórída. Þar sýna kannanir hnífjafna stöðu, en líkurnar hafa þó verið með Trump þar undanfarna daga. Ljóst er að lokaspretturinn mun ráða miklu um hvernig fer í kosningunum í dag.
2. Kosningabaráttan – yfir langt tímabil – einkenndist af miklum átökum. Fyrst innan raða Demókrata og Repúblikana, og síðan undanfarna sex mánuði á milli framboða Hillary og Trumps. Bernie Sanders háði mikinn slag við Hillary en tapaði að lokum. Mikil heift var í baráttunni, og talaði Sanders fyrir því að Hillary væri „hluti af elítunni“ og „kerfinu“ sem þyrfti að breyta. Á fundi Demókrata, þar sem Hillary var útnefndur fulltrúi flokksins, voru aðdáendur Sanders áberandi og gagnrýndu bakland Hillary harðlega fyrir að svífasta einskis til að koma höggi á Sanders. Þrátt fyrir allt, hvatti Sanders sitt fólk til að styðja Hillary og koma í veg fyrir að Trump næði kjöri.
3. Hjá Repúblikönum var slagurinn bæði harður og óvæginn. Trump notaði stór orð um andstæðinga sína, einkum og sér í lagi Ted Cruz, sem hann sagði lygara og vesaling. Trump gekk síðan lengra og sagði faðir Cruz hafa verið viðráðinn morðið á John F. Kennedy árið 1963. Cruz sagði Trump þá hafa gengið of langt, en slagurinn hélt þó áfram alveg þar til í lokin, en Trump sigraði forkosningarnar með nokkrum yfirburðum þegar upp var staðið, þrátt fyrir að margir valdamiklir Repúblikanar hafi gagnrýnt hann harðlega fyrir að siðlausan málflutning og óvandaða orðræðu.
4. Eitt af áhrifamestu atvikum kosningabaráttunnar var þegar Washington Post birti á vef sínum, hljóð- og myndbandsupptöku af Donald Trump vera að tala illa um konur, frá árinu 2005. Í myndbandinu heyrist hann monta sig af því að hann geti, í skjóli frægðar sinnar, gripið um kynfæri kvenna. Þá lýsir hann því einnig þegar hann reyndi að komast í bólið með giftri konu, en gekk lítið. Fréttir af þessu fóru eins og eldur í sinu um internetið. Trump baðst afsökunar á orðum sínum, en svaraði strax í sömu mynt og benti á Bill Clinton, eiginmann Hillary, og sagði hann hafa gert miklu verri hluti heldur en hann sjálfur. Hann rökstuddi þó mál sit ekkert. Hillary gagnrýndi Trump harðlega, en leyfði honum þá að „þjást“ pólitískt, án þess að velta sér upp úr atvikinu. Skoðanakannanir sýndi að stuðningurinn við Trump minnkaði snarlega við birtingu upptökunnar, og byr komst í seg framboðs Hillary.
5. Við minningarathöfn í New York 11. september, þar sem fórnarlamba árásarinnar á tvíburaturnanna í New York var minnst, komst Hillary í fréttirnar. Hún þurfti að yfirgefa athöfnina, og sást styðjast við aðstoðarfólk sitt þegar hún fór inn í bíl og var keyrð í burtu. Trump greip þetta á lofti, og sagði augljóst að hún væri „veikburða“ og gæti ekki verið forseti. Hún hefði ekki úthaldið sem þyrfti. Eftir tvo daga sendi Hillary frá sér læknisskýrslu þar sem læknir hennar sagði að hún væri með lungnabólgu og þyrfti að hvílast í að minnsta kosti viku. Hún gerði það, og kom tvíefld til baka. Þrátt fyrir að atvikið hafi stolið fyrirsögnum í nokkra daga, þá skipti það litlu sem engu máli fyrir kosningabaráttuna sem slíka.
6. Sjónvarpskappræðurnar þrjár voru sögulegar, og mörkuðu djúp spor í kosningabaráttuna. Hillary var sigurvegari í öllum kappræðunum, samkvæmt mati flestra álitsgjafa, og kannanir sýndu að hún kom mun betur út. Ótrúleg ummæli Donalds Trump, flest alveg órökstudd, stálu senunni. Hann fullyrti til að mynda að Hillary væri spillt, og hann myndi beita sér fyrir því að skipa saksóknara sem myndi ákæra hana, ef hann yrði forseti. Hillary var mun rólegri í kappræðunum, og einbeitti sér meira af því að halda sig málefnin sem voru til umfjöllunar.
7. Kynþáttahatur hefur verið einkar sýnilegt í Bandaríkjunum í allri kosningabaráttunni, og hefur verið áberandi hjá stuðningsmönnum Donalds Trump, og raunar honum sjálfum einnig. Mörgum forystumönnum Repúblikana ofbauð það, þegar Trump neitaði að gagnrýna Ku Klux Klan, eftir að haturssamtökin lýstu yfir stuðningi við Trump. Einn þeirra var Paul Ryan, leiðtogi Repúblikana í þinginu og fyrrum varaforsetaefni flokksins, en hann sagði málflutning Trumps óboðlegan og ganga gegn áherslum Repúblikana um frelsi einstaklingsins til að blómstra á eigin forsendum. Þrátt fyrir allt, þá lýsti Ryan að lokum yfir stuðningi við Trump. Það sama gerði Ted Cruz þrátt fyrir ótrúlegar og rætnar árásir Trumps á hann og föður hans, á fyrri stigum kosningabaráttunnar.
8. Eitt af kosningaloforðum Trumps er að reistur verði veggur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, og að veggurinn verði reistur á kostnað Mexíkóa. Þrátt fyrir að stjórnvöld í Mexíkó segist ekki ætla að verða við þessu, þá hefur Trump fullyrt þetta ítrekað, og fullyrt enn fremur að Mexíkóar séu „nauðgarar“ og „fíkniefnasmyglarar“. Þessum fullyrðingum hefur verið harðlega mótmælt, og hefur Hillary sagt að í þessu felist kynþáttafordómar.
9. Tölvupóstamál Hillary Clinton hefur valdið henni miklum vandræðum, og hefur hún opinberlega beðist afsökunar á að hafa verið kærulaus varðandi meðferð upplýsinga þegar hún var starfandi utanríkisráðherra. Hún var meðal annars að höndla með trúnaðarupplýsingar, sem ekki var í samræmi við reglur, en eftir ítarlega rannsókn FBI á póstunum hendar, sem skiptu tugþúsundum, var hún ekki ákærð og þótti ekki tilefni til frekari rannsókna. Í siðustu viku tók málið svo aðra stefnu þegar tölvupóstar hennar, og aðstoðarkonu hennar, komust í hámæli eftir að FBI sendi þinginu bréf og sagði að tölvupóstar Hillary væru nú aftur komnir til rannsóknar. Í lok dags á föstudinn síðastlinn kom síðan önnur yfirlýsing frá FBI þar sem tekið var fram, að ekki væri tilefni til ákæru eða frekari rannsóknar. Hillary var því sloppin, en á aðeins fjórum dögum sýndu kannanir að þetta mál var að skaða framboð Hillary verulega.
10. Donald Trump hefur gert það að einu stærsta kosningamáli sínu að alþjóðlegir viðskiptasamningar Bandaríkjanna séu skaðlegir landinu, og séu að flytja störf frá því til Kína og Asíu, ekki síst. Þessi orðræða hefur náð vel til fólks víða, ekki síst í miðríkjunum, en á sama tíma hafa margir þeir sem aðhyllast frjáls viðskipti spurt sig að því, hvað Trump sé í reynd að boða. Hillary hefur lagt meiri áherslu að efnahagur Bandaríkjanna haldi sveigjanleika sínum, og verði áfram helst uppspretta nýsköpunar og rannsókna. Ekki sé hægt að berjast gegn alþjóðavæðingunni með annarri hendi, en boða hana með hinni. Trump segir að kosningarnar snúist meðal annars um það, hvort fólk vilji fá „reynslumikinn“ mann úr heimi viðskiptanna til að semja um viðskipti landsins, eða Hillary Clinton. „Valið er einfalt“ sagði hann á útifundi í Nevada á dögunum.
Hvernig sem fer í kosningunum, verður spennandi að sjá hvernig heimurinn bregst við úrslitunum. Ljóst er að Hillary getur skráð sig á spjöld sögunnar, rækilega, með sigri þar sem hún verður fyrsta konan til að verða forseti Bandaríkjanna nái hún markmiði sínu. Donald Trump hefur með fordæmalausri hegðun sinni tekist að halda kastljósinu á sér svo til alla kosningabaráttuna, og vafalítið mun það fylgja honum áfram verði hann forseti.