Parísarsamkomulagið um ástand loftslags jarðar er í uppnámi eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna á þriðjudag. Samningurinn sem gerður var í París fyrir tæpu ári síðan á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna tók gildi fyrir fáeinum vikum síðan, þegar þau lönd sem bera samanlagða ábyrgð á 55 prósent af útblæstri mannkyns höfðu innleitt samninginn. Bandaríkin og Kína mynduðu bandalag um að innleiða samninginn og var þá lykilþáttur í því að samanlögð ábyrgð mengara heimsins næði 55 prósentum.
Bandaríkjaþing undir stjórn Repúblikana hefur hins vegar lagst gegn loftslagssamkomulaginu svo Barack Obama, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, þurfti að gefa út forsetatilskipun til þess að samþykkja Parísarsamkomulagið. Donald Trump hefur heitið því að fella úr gildi allar forsetatilskipanir Obama og leggja þannig arfleið hans sem forseta í rúst.
Árleg loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er nú haldin í Marrakesh í Marokkó. Ráðstefnan hófst á mánudaginn og á að fjalla um innleiðingu Parísarsamkomulagsins og hver næstu skref skuli vera. Strax á þriðja degi ráðstefnunnar er dagskráin hins vegar í uppnámi. Fjölmiðlar greina frá því að á göngum ráðstefnuhallarinnar reyni gestirnir að grípa í öll strá vonar sem finnast. Það sem flestir reyna að sannfæra sig um er að Trump er, þegar öllu er á botninn hvolft, ósamkvæmur sjálfum sér í nær öllu sem hann hefur sagt og vart stendur steinn yfir steini í máli hans. Þar til hægt verður að færa sönnur á annað er lögð áhersla á vonina um að nýkjörinn forseti sé umhverfisvænni en hann segist vera.
Meiri kol og meira gas!
Í maí sagði Trump á framboðsfundi um orkumál að hann mundi ógilda undirritun Bandaríkjanna við Parísarsamninginn. „Allar reglugerðir sem eru úreltar, óþarfar, slæmar fyrir vinnandi menn eða standa gegn hagsmunum þjóðarinnar verða afnumdar og lagðar að öllu leyti niður,“ lét Trump hafa eftir sér. Um leiða kallaði hann eftir því að fleiri borholur yrðu gerðar eftir olíu og að (hin mjög svo umdeilda) Keystone XL-olíuleiðslan yrði lögð frá tjörusöndunum í Kanada til Bandaríkjanna. Obama neitaði að samþykkja olíuleiðsluna, enda stuðlar hún að frekari olíunámum í Kanada.
Donald Trump hefur haft mörg orð um loftslagsmál og öll kasta þau rýrð á það að hlýnun jarðar sé raunverulega af mannavöldum. Hann hefur sagt hlýnun jarðar vera kínverskt gabb.
Hann hefur sagst ætla að afnema reglugerðir um náttúruvernd, afnema allan alríkiskostnað við hreina orku – þar á meðal rannsókna- og þróunarkostnað við beislun vindorku, sólarorku og rafknúna bíla.
Ef Trump var alvara með þessar yfirlýsingar sínar er ljóst að Bandaríkin munu brenna mun meira af kolum, menga mun meira og útblástur gróðurhúsalofttegunda þaðan mun aukast verulega. Það hafa raunar verið gerð líkön af því hver áhrif stefnu Trumps verði í samanburði við stefnu Hillary Clinton í loftslagsmálum.
Þátttaka helstu iðnríkja mikilvæg
Áhyggjur þeirra sem fylgst hafa með tilurð Parísarsamningsins eru ekki aðeins að Bandaríkin muni hætta við öll loftsagsáform sín, heldur einnig hvað bandalagsríkin gera í kjölfarið. Spurningar eins og „mun Kína standa vörð um loftslagssamkomulagið?“ hafa vaknað. Í ljósi sögunnar er stuðningur Bandaríkjanna við samkomulög á borð við þetta mjög mikilvægur. Hvað varðar loftslagsmálin þá ber helst að nefna Kýótósáttmálann sem Bandaríkin unnu að í samvinnu við flest ríki heims en tóku á endanum ekki þátt í vegna andstöðu heima í Washington. Þá hættu önnur stór iðnríki við þátttöku, meðal annars vegna þess að Bandaríkin lögðu ekki sitt af mörkum.
Fulltrúar smáþjóða sem víst er að munu eiga undir högg að sækja vegna hlýnunar jarðar hafa lýst vonbrigðum sínum með kjör Donalds Trump. Hilda Heine, forseti Marshall-eyja, benti á að hlýnun jarðar væri einnig ógn við Bandaríkin. „Ég geri ráð fyrir að Trump átti sig á að loftslagsbreytingar eru ógn við hans þjóð eins og þær eru ógn við allar þjóðir sem deila hafinu. Ég hlakka til að sjá Trump takast á við þær áskoranir sem fylgja því að tryggja öryggi þjóðar sinnar,“ segir hún.
Segolene Royale, umhverfisráðherra Frakklands, hefur hins vegar bent á að Bandaríkin geti ekki auðveldlega sagt sig frá loftslagsmarkmiðum sínum. Parísarsamningurinn bindi aðildarríkin í að minnsta kosti þrjú ár auk þess að uppsagnarfresturinn er eitt ár. Það munu því líða fjögur ár áður en Bandaríkin geta sagt skilið við skuldbindingar sínar.
Á loftslagsráðstefnunni í Marrakesh hafa þeir sem vilja láta í sér heyra bent á það sama; Parísarsamningurinn hefur þegar tekið gildi og það gæti verið flókið fyrir stjórn Repúblikana undir forystu Trump að tæta samninginn í sundur.
Hagsmunaaðilar hafa einnig látið í sér heyra. Forsvarsmaður 350.org, May Boeve, segir að nýi forsetinn verði að vernda þjóð sína gegn loftslagshörmungum. „Engar persónulegar skoðanir eða pólitískir hagsmunir geta breytt þeim kalda raunveruleika að hver ný olíuborhola og hver ný gasleiðsla færir okkur nær náttúruhörmungum.“
Thoriq Ibrahim, orkumálaráðherra Maldíveyja og formaður Samtaka smárra eyríkja, segir að helsta verkefni Trump sé að takast á við loftslagsmálin. „Í síðasta mánuði – í fyrsta sinn í sögunni – tóku endurnýjanlegir orkugjafar fram úr jarðefnaeldsneyti hvað varðar raforkuframleiðslu í heiminum. Bandaríkin hafa leitt þessa tæknibyltingu og getur haldið áfram að skapa störf og tækifæri í þessum geira,“ sagði hann.
Íslensk stjórnvöld taka ekki afstöðu að svo stöddu
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir í samtali við Kjarnann að íslensk stjórnvöld muni ekki aðhafast fyrr en það skýrist betur hver stefna Trump-stjórnarinnar verður. Ótímabært sé að draga ályktanir um slíkt nú, enda kvað við annan tón í sigurræðu hans í nótt miðað við orð Trump í kosningabaráttunni. Það eigi við um utanríkismál sem og loftslagsmál.