Stærsta félagið á íslenskum hlutabréfarmarkaði, sé horf til markaðsvirðis, er Marel. Það er nú 171 milljarður íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum á vef Keldunnar. Í nýju verðmati hagræðideildar Landsbankans kemur fram, að verðmiðinn á félaginu ætti að vera um 19,2 prósent hærri, eða tæplega 205 milljarðar króna. Gengi bréfa félagsins, eins og það var á markaði í lok dags í gær, var 238,5.
Tekjuvöxtur
Í verðmatinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram fram að það sé mat Landsbankans að gengið á bréfum félagsins ætti að vera umtalsvert hærra en markaðurinn sýnir, þar sem reksturinn sé góður og staða verkefna og pantana fyrir næsta ár sé góð. „Mikill drifkraftur hefur verið í tekjum af varahlutum og viðgerðum (e. maintenance) á árinu 2016 og eru þær tekjur nú um 40% af heildar tekjum samstæðunnar. Ný stórverkefni (e. greenfield) á fyrstu 9 mánuðum ársins þróuðust ágætlega í kjúklingi en voru lakari í kjöti og fiski. Hins vegar var viðsnúningur í kjöti á Q3 ásamt því að stórum samningi var landað á Q4 í fiski. Þessi þróun ásamt skriðþunga í PMI vísitölum og jákvæðari tón stjórnenda fyrir komandi misseri gerir það að verkum að 2017 ætti að vera gott ár fyrir Marel. Við gerum ráð fyrir 5,0% vexti tekna (pro forma 3,6%) og 14,6% leiðrétt EBIT, að mestu vegna aukningar í sölu í stórverkefnum,“ segir í verðmati Landsbankans.
Hörð samkeppni
Í greiningunni segir enn fremur að ytri vöxtur sé líklegur, og jafnvel nauðsynlegur, í ljósi þess hvernig staðan hjá samkeppnisaðilum Marels hefur þróast. „Töluvert hefur verið um kaup og sameiningum hjá helstu samkeppnisaðilum Marels (t.d JBT og Middleby) og þróunin í þá átt að alþjóðlegir framleiðendur í matvælaiðnaði fækki. Að okkar mati er nauðsynlegt að Marel taka þátt í þeirri þróun, þó kaup á öðrum fyrirtækjum þurfa ekki að vera á sömu stærðargráðu og MPS. Frekari kaup myndu líklega styðja Marel í þeim geirum sem þeir eru með minnsta (má jafnvel orða versta) starfsemi, t.d. í áframvinnslu (e. further processing) og frumvinnslu í fiski, þó annarskonar strategísk kaup eru ekki útilokuð,“ segir í verðmatinu.
Gott gengi
Efnahagur Marels hefur styrkts nokkuð á undanförnu ári, en í lok þriðja fjórðungs á þessu ári námu heildareignir félagsins tæplega 1,4 milljörðum evra, eða sem nemur um 172 milljörðum króna. Eigið fé félagsins nam 505 milljónum evra á sama tíma, eða sem nemur um 62 milljörðum króna.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans á dögunum, þá hefur markaðsvirði stærstu félaganna í kauphöllinni, Marels, Össurar og Icelandair, lækkað umtalsvert upp á síðkastið. Vegur Icelandair er þar þyngst, en markaðsvirði þess hefur fallið um meira en 70 milljarða á síðustu sex mánuðum. Líklegt er að styrking krónunnar sé áhrifavaldur í þessari þróun, enda efnahagur fyrrnefndra fyrirtækja í erlendri mynt.