Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hafa með fréttum undanfarin ár að meðalhiti andrúmslofts jarðar hefur náð hæstu hæðum undanfarin ár. Reglulega berast fréttir af því að síðasta ár hafi verið það hlýjasta í bókum veðurfræðinga og að allt stefni í að næsta ár muni svo slá öllu við.
Alþjóðlegaveðurfræðistofnunin gaf nýverið út skýrslu um veðurfar og hitastig á jörðinni árin 2011 til 2015. Öll þessi ár eru á lista 16 hlýjustu ára sögunnar. Þetta fimm ára skeið er jafnframt hlýjasta fimm ára skeið sem mælt hefur verið, en samræmdar hitamælingar hófust um miðja 19. öld um svipað leyti og iðnbyltingin var að hefjast.
Þrjú veigamikil gagnasett voru notuð til þess að meta meðaltal hitastigs á jörðinni árin 2011–2015 og mældust þau 0.57°C yfir meðalhitastigi áranna 1961–1990 sem jafnan er notað til viðmiðunar. Séu síðustu fimm ár borin saman við árin fimm þar á undan (2006–2010) þá sést að það munar þó nokkru; Þá var hitastigið 0,51°C yfir viðmiðunarmeðaltalinu. Þessi þróun er jafnframt í takt við þá þróun sem merkja má af hitamælingum jarðar síðan um miðjan áttunda áratuginn.
21. öldin sker sig úr
Hlýjasta árið í sögunni var í fyrra og var það einstakt vegna þess að það var í fyrsta sinn sem meðalhiti á jörðinni fór meira en 1°C yfir meðalhita jarðar fyrir iðnbyltinguna. Í Parísarsáttmálanum er fjallað um að ríki heims ætli að reyna að takmarka hlýnun jarðar miðað við meðalhitann fyrir iðnbyltingu við 1,5°C til 2°C árið 2100. Muni þessi öra þróun hitastigsins halda áfram er hins vegar útséð um metnaðarfyllra markmiðið um 1,5°C og óvíst með hitt.
Árið þar á undan er sem stendur í öðru sæti yfir hlýjustu ár sögunnar. 2014 var 0,61°C yfir meðaltali áranna 1961–1990. Árið 2013 situr jafnt fleiri árum í fimmta sæti þessa lista en árin þar á undan neðar. Þetta „hitakast“ síðustu þriggja ára má að einhverju leyti skýra með því að benda á veðurafbrigði á borð við La Niña og El Niño sem verða reglulega til yfir Kyrrahafi og hafa í för með sér ýktari veður og hærra hitastig en venjulega.
El Niño spannar jafnan tvö ár og hefur yfirleitt enn ýktari áhrif á hitastigið í seinna árinu en því fyrra. Árið 2016 verður því að öllum líkindum lang hlýjasta árið í sögunni. Raunar benda öll meðaltöl sem þegar hefur verið safnað til þess að það verði raunin.
Samanburður á hitastigi milli ára getur hins vegar verið misvísandi á hverjum tíma vegna þessara verðurafbrigða sem ýja eða milda sveiflur í veðurfari á jörðinni. Sé þysjað út sést að langtímaþróun hitastigsins er að það hlýnar hratt í andrúmslofti jarðar, og mun hraðar á 21. öldinni en þeirri á undan. Raunar hafa öll 12 hlýjustu ár sögunnar orðið síðan 1998. Níu þessara hlýjustu ára hafa orðið síðan árið 2005.
Þessi þróun er að verða vegna sí aukins magns gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar.
Hlýnun loftslags 2011-2015
Líkur á ofsaveðri tífaldar vegna mannsins
Í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (e. World Meteorological Orgainization, WMO) segir að með því að horfa til fimm ára í senn geri það vísindamönnum kleift að skoða einstaka verðurtilvik, sem oft spanna meira en eitt ár, í samhengi við loftslagsbreytingar. Af niðurstöðum 79 rannsókna sem gefnar voru út af bandaríska veðurfræðisamfélaginu á árunum 2011 til 2014 bendir helmingurinn til þess að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafi átt þátt í þeim ofsaveðrum sem könnuð voru. Sumar þessara rannsókna sýndu fram á að líkur á ofsaveðri aukast tífalt vegna áhrifa mannsins á loftslag jarðar.
Í inngangsorðum sínum segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóri WMO ,að nú hafi áhrifa loftslagsbreytinga verið vart í umhverfi mannsins í meira en þrjátíu ár: „[…] hækkandi hitastig, bæði yfir landi og í hafinu, hækkun sjávarborðs, víðtæk bráðnun íss. Allt hefur þetta aukið hættuna á ofsafengnum veðrum á borð við hitabylgjum, þurrkum, metrigningum og flóðum.“
Í skýrslunni eru einstakir atburðir taldir til sem ullu hvað mestum mannskaða eða efnahagslegum skaða. Þar á meðal eru þurrkarnir í Austur-Afríku árin 2010–2012 sem taldir eru hafa stuðlað að dauða 258.000 ótímabærum dauðsföllum, þurrkar í sunnanverðir Afríku árin 2013–2015 eru einnig nefndir. Þá eru flóð í Suðaustur Asíu árin 2011 talin til en í þeim fórust 800 manns og efnahagslegur skaði nam meira en 40 milljörðum Bandaríkjadala.
Hitabylgjur í Indlandi og Pakistan árið 2015 sem taldar eru hafa orðið meira en 4.100 manns að bana eru þarna á meðal auk fellibylsins Sandy sem reið yfir austurströnd Bandaríkjanna árið 2012. Sandy er talin hafa valdið efnahagslegu tjóni sem er metið á 67 milljarða Bandaríkjadala. Þá er ótalinn fellibylurinn Haiyan sem reið yfir Filippseyjar árið 2013 þar sem 7.800 manns fórust.
Atburðir sem sagðir eru vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum
Ræða næstu skref eftir Parísarsamninginn
Ríki heims funda nú í Marrakesh í Marokkó á tuttugustu og annarri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með COP22, eins og ráðstefnan er kölluð í daglegu tali meðal sendifulltrúa, er að taka ákvarðanir um næstu skref miðað við Parísarsamninginn sem gerður var á loftslagsráðstefnunni í fyrra COP21.
Skýrsla veðurfræðistofunarinnar var lögð fyrir COP22 á dögunum en þar mun sama stofnun leggja til fyrstu drög að samantekt á loftslagsbreytingum ársins 2016 á mánudag.
Eftir kjör Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta hefur mikið verið rætt um framtíð loftslagsmála á alþjóðasviðinu. Trump hefur ítrekað lýst því yfir að hann trúi ekki að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað. Hann hefur til að mynda úthrópað kenningar um loftslagsbreytingar sem kínverskt gabb.
Eftir að Trump var kjörinn hefur Kína stigið upp og ítrekað skuldbindingar sínar og loforð í loftslagsmálum. Ein helsta ástæða þess að það hefur tekist að láta Parísarsamninginn taka gildi er að bæði Bandaríkin og Kína hafa staðið með þessum samningi. Forsetar þessara ríkja, Barack Obama fyrir Bandaríkin og Xi Jinping fyrir Kína, gegnu í bandalag um að innleiða þennan samning. Þessi ríki bera hvort um sig ábyrgð á mestri mengun allra ríkja heimsins og þess vegna mikilvægt að bæði tækju þátt.