Það er annar Donald Trump sem mætir augliti fólks núna eftir að hann hefur náð kjöri sem forseti Bandaríkjanna en áður en úrslitin urðu ljós. Sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins háði Trump lágkúrulega kosningabaráttu sem rakin var með gífuryrðum og bulli um allt milli himins og jarðar.
Hann ætlaði að gera arfleið Barack Obama sem forseta að engu með því að afnema allar þær tilskipanir sem sitjandi forseti hefur skrifað undir. Þar á meðal er sjúkratryggingakerfið sem jafnan er kallað Obamacare og kjarnorkusamkomulagið við Íran. Auk þessara mála stendur Parísarsamningurinn um loftslagsmál á brauðfótum því Donald Trump hefur lýst því yfir að hann trúi ekki á að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað.
Nú hefur verðandi forseti hins vegar kastað af sér úlfsfeldinum – í það minnsta að hluta til – og talar nú á jarðbundinn hátt um menn og málefni. Fyrir kosningar átti mótframbjóðandi hans Hillary Clinton heima í fangelsi en núna, hrósar hann henni fyrir dugnað í sinn og segist geta ímynda sér að leita ráða hjá eiginmanni hennar og fyrrverandi forseta Bill Clinton. Skemmst er að minnast þess að í kappræðum fyrir kosningar úthrópaði Donald Trump eiginmann Hillary Clinton sem nauðgara og rak upp saumana á gömlum sárum á ferli Bills.
Það eru hins vegar vísbendingar um að Donald Trump hafi í hyggju að standa við mörg loforð sín.
Kjöri Trump hefur víða verið mótmælt í borgum bæði við austur- og vesturströndina. Mótmælendur hafa sum staðar heitið því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stefnumál Trump verði ekki að veruleika. „Donald Trump er að fara að stuðla að því að rústum Ameríku,“ sagði einn mótmælandi í samtali við Al-Jazeera. „Þetta kerfi er klárlega ekki að virka og við þurfum að gera eitthvað öðruvísi,“ sagði hún og veifaði skilti sem á stóð „#NoMorePresident“.
Keppast við að tryggja mikilvæg mál
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lét hafa eftir sér í opinberri heimsókn í Nýja Sjálandi að nú væri allt kapp lagt á það í ríkisstjórn Barack Obama að tryggja aðild Bandaríkjanna að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna þó Donald Trump verði forseti.
Við undirskrift samþykktu Bandaríkin að þau væru skuldbundin í fjögur ár til að fylgja samþykktum samningsins. Samkvæmt fréttastofu Reuters leita ráðgjafar Donalds Trump nú leiða til þess að komast hjá því að þurfa að uppfylla skilyrðin í þessi fjögur ár.
John Kerry vildi ekki velta vöngum um hvað Trump hygðist gera með Parísarsamninginn. Hann lagði hins vegar áherslu á skoðun sína um að loftslagsmálin ættu að vera í fyrirrúmi hjá nýrri ríkisstjórn. „Vísbendingarnar eru orðnar svo margar að fólk í opinbera geiranum ætti ekki að voga sér að reyna að komast hjá aðgerðum,“ sagði Kerry.
„Þar til 20. janúar, þegar núverandi ríkisstjórn fer frá, munum við leggja allt kapp á að uppfylla skyldur okkar gagnvart framtíðarkynslóðum svo þær geti mætt þessum ógnum við sjálfu lífinu á plánetunni.“
Embættismenn Baracks Obama keppast einnig við að festa í sessi bankareglur áður en Trump tekur við embætti forseta. Trump hefur einnig lofað að skrifa reglur um fjármálageirann upp á nýtt.
Nú kveður við annan tón
Önnur ríki heims og alþjóðasamfélagið hafa einnig verið að taka örlítið við sér á þeim dögum sem liðnir eru frá kjöri Donalds Trump. Á miðvikudag virtist heimurinn einfaldlega vera í losti; forsvarsmenn stofnanna og leiðtogar ríkja gerðu það sem allir venjulegir embættismenn gera venjulega og óskuðu nýkjörnum forseta til hamingju með kjörið og sögðust hlakka til að vinna með honum.
Einn þeirra var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sem sagði að hann hlakkaði til að vinna með nýjum forseta Bandaríkjanna í að mæta ögrandi nýju heimsöryggisástandi. Stoltenberg ritaði grein í breska blaðið The Observer sem kom út í dag þar sem greina má aðeins beittari tón.
„Það er ekki möguleiki í stöðunni að einangra sig, hvorki fyrir Evrópu né Bandaríkin,“ skrifaði Stoltenberg. NATO er ein þeirra alþjóðlegu stofnanna sem Trump hafði tjáð sig um og lýst yfir stefnubreytingu gagnvart, yrði hann forseti. Í greininni bendir Stoltenberg á að aðeins einu sinni hafi 5. grein sáttmálans um NATO verið virkjuð. Það var þegar bandalagsríkin gripu til vopna eftir að ráðist var á Bandaríkin 11. september 2001. NATO-ríkin hafa raunar staðið í ströngu vegna þeirra stríða sem Bandaríkin efndu til sem viðbragð vegna árásanna í New York, bæði Afganistan og í Írak.
„Það var meira en tákrænt,“ skrifar Stoltenberg um virkjun fimmtu greinarinnar. „NATO tók í kjölfarið yfir allan stríðsrekstur í Afganistan. Hundruð þúsundir evrópskra hermanna hafa gengt herþjónustu í Afganistan síðan. Og meira en þúsund þeirra hafa gjaldið það með lífi sínu; í verkefni sem var beint svar við árás á Bandaríkin.“
„Eðlilega erum við ólík ríki. En leiðtogar beggja vegna Atlantshafsins, og þvert á pólitíska litrófið, hafa alltaf viðurkennt þær taugar sem binda okkur. Saga okkar er um sameiginleg vandamál sem við leystum í sameiningu,“ skrifar Stoltenberg.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við Kjarnann á miðvikudag að það væri ótímabært að lesa of mikið í orðræðu Donalds Trump í kosningabaráttunni. Hann hafði þá um morguninn talað á allt öðrum nótum í sigurræðu sinni og fyrir heiminum birtist þar allt annar maður en hafði rekið kosningabaráttuna.
Trump lagði mikla áherslu á í kosningabaráttu sinni að aðildarríki NATO myndu, í hans valdatíð, leggja til þær fjárhæðir sem þær hafa skuldbundið sig til að greiða til NATO. Ísland er meðal aðildarríkja NATO og er þar minnsta aðildarríkið og eina ríkið sem hefur ekki her. Ísland er meðal þeirra landa sem hefur ekki greitt að fullu þær fjárhæðir sem samningurinn utan um Atlantshafsbandalagið gerir kröfu um.
„Það er nokkuð erfitt að ráða í hans stefnu; hann hefur ekki lagt til lista um hvað hann hyggist gera. Það verður farið betur yfir það og þess vegna er ótímabært að álykta neitt um þetta, fyrr en við sjáum hver verði þeirra utanríkisráðherra og hver verði þeirra varnarmálaráðherra,“ sagði Lilja á miðvikudaginn.
Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá
Síðustu daga hefur komist óskýr mynd á það hverjir það verða sem muni manna ríkisstórn Donalds Trump og hverjir verða hans helstu ráðgjafar í Hvíta húsinu. Trump hefur sjálfur sagt að hann metur tryggð fram yfir allt annað svo tryggasta samstarfsfólkið fær væntanlega bestu embættin. Hér eru fáeinir samverkamenn taldir til.
Fyrst ber að nefna Stephen K. Bannon, framkvæmdastjóra kosningabaráttunnar og stjórnanda Breibart News. Sá hefur rasískar skoðanir; hefur skýra afstöðu gegn innflytjendum og aðhyllist þjóðernishyggju. Bannon varð að fallbyssufóðri fyrir kosningabaráttu Hillary Clinton (þó það hafi ekki skilað miklu) vegna öfgafullra skoðana. Bannon er einnig talin vera í hópi þeirra sem Trump íhugar að gera að starfsmannastjóra í Hvíta húsinu.
Lou Barletta og Marsha Blackburn eru bæði kjörnir fulltrúar og hafa stutt Trump lengi. Barletta hefur samþykkt hörð innflytjendalög í Pensilvaníu þar sem hann er þingmaður. Blackburn er þekktust fyrir ofboðslega íhaldssamar skoðanir sínar á hjónaböndum samkynhneigðra og fóstureyðingum. Hún hefur einnig haldið því fram að loftslagsbreytingar séu bara plat og að andrúmsloft jarðar sé raunverulega að kólna.
Þá er talið að elstu börnin hans þrjú muni fá veigamikil verkefni í stjórnartíð Trump. Þau munu til dæmis fá það verkefni að reka viðskiptaveldi hans á meðan hann stjórnar Bandaríkjunum. Það þarf ekki að rekja í löngu máli hvernig það gæti stangast á við lög og reglur í Bandaríkjunum og hvernig risastórir hagsmunaárekstrar geta átt sér stað.
Þeir stjórnmálamenn sem taldir eru líklegir ráðherrar í ríkisstjórn Trumps eru fulltrúar á borð við Söruh Palin, Chris Christie, Newt Gingrich og Rudy Giuliani. Vanalega hafa forsetaefni verið löngu búin að útbúa lista yfir fólk sem það vill ráða í ráðgjafastöður eða ráðherraembætti áður en það nær kjöri. Frá því hefur verið greint að Hillary Clinton hafi verið búin að undirbúa þessa daga fram að embættistökunni 20. janúar 2017 vandlega.
Kjör Donalds Trump viðrist því hafa komið jafn flatt upp á hann sjálfan og alla heimsbyggðina. Enn er ómögulegt að segja hvernig forseti Donald Trump verður en ljóst af því fólki sem hann hefur raðað í kringum sig, og af því sem hann hefur látið út úr sér að hann verði íhaldssamur leiðtogi.