Eftir viku langan tíma í stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, sigldu viðræður í strand á sjötta tímanum í dag. Vinstri græn, Björt framtíð, Viðreisn, Píratar og Samfylkingin munu því ekki mynda ríkisstjorn.
Það steytti á nokkrum hlutum, samkvæmt heimildum Kjarnans, en deilur um áherslur í ríkisfjármálum og þá helst þegar kemur að skattamálum, reyndust óleysanlegar. Viðreisn gat ekki sætt sig við hugmyndir um að hækka skatta, meðal annars á þá sem hæstar tekjur af, eða yfir 1,5 milljónir á mánuði, og leggja á eignaskatta á þá allra ríkustu í samfélaginu.
Hugmyndir um uppbyggingu í heilbrigðis- og menntakerfinu voru tengdar þessum skattstofnum.
Augljós ágreiningur
Þá var einnig uppi ágreiningur í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, en Viðreisn hefur sett það á oddinn að gera kerfisbreytingar í þessum málaflokkum. Vinstri græn hafa ekki talað fyrir því, og var um þetta deilt í viðræðunum, ekki síst á milli þessara tveggja flokka, Vinstri grænna og Viðreisnar. Aðrir flokkar, Píratar, Samfylkingin og Björt framtíð, voru tilbúnir að gera málamiðlanir til að ná saman um fyrrnefnd áherslumál, en það steytti einkum á ágreiningi milli Vinstri grænna og Viðreisnar. Benedikt tilkynnti Katrínu um að hann hefði ekki sannfæringu fyrir framhaldi viðræðna, samkvæmt heimildum Kjarnans, og var það einkum þetta sem leiddi til þess að viðræðunum lauk.
Hvað gerist næst?
Nú hafa tvær tilraunir til myndunar ríkisstjórnar runnið út í sandinn. Fyrst sigldi tilraun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til að mynda stjórn með Viðrein og Bjartri framtíð, í strand, og síðan í dag viðræður flokkanna fimm undir forystu Katrín Jakobsdóttur. Óljóst er hvert framhaldið verður, en Katrín Jakobsdóttir sagðist að loknum fundi forystumanna flokkanna fimm í dag, að hún ætlaði sér að „sofa á“ niðurstöðunni og taka svo næstu skref. Hún hefur ekki misst umboðið til að mynda ríkisstjórn formlega ennþá, en það mun ekki skýrast fyrr en á morgun hvernig Guðni Th. Jóhannsson, forseti Íslands, mun stýra málum.
Þeir möguleikar sem fyrir hendi eru nú, við myndun ríkisstjórnar, eru þrátt fyrir allt nokkrir, sé horft til fjölda þingmanna eingöngu. Til dæmis gætu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn gætu myndað stjórn.
Áherslur þessara flokka eru ólíkar, að mörgu leyti, en þeir gætu náð saman um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, sem til þess hafa verið eldfim mál í stjórnarmyndunarviðræðunum. Vinstri græn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur einnig gætu einnig náð saman, en í ljósi reynslunnar til þessa er augljós málefnalegur ágreiningur sem erfitt er að yfirstíga.
Önnur mynstur eru einnig möguleg, svo sem að Framsókn kom inn í viðræður flokkanna fimm í stað Viðreisnar, en eins og reynslan sýnir, þá gæti reynst erfitt að ná saman um ríkisstjórnarsamstarf.
Boltinn hjá forsetanum
Spjótin beinast nú að forsetanum, Guðna Th. Jóhannessyni. Alveg eins og hann hafði áður gefið til kynna fyrir kosningar, þá er komin upp snúin staða í hinu pólitíska landslagi. Umboðið gæti næst farið til Pírata eða Viðreisnar. Svo er möguleikinn á utanþingsstjórn einnig fyrir hendi.