Ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar 29. október síðastliðinn. Liðnir eru 36 dagar síðan kosningarnar voru sem er tvöfalt lengri tími en leið að jafnaði frá kosningum síðustu tvo áratugi.
Lengd stjórnarmyndunartímabilsins nú er í fimmta sæti yfir lengstu tímabil eftir kosningar og þar til ríkisráðsfundur er haldinn með nýrri ríkisstjórn. Enn vantar 23 daga þar til tímabilið eftir kosningarnar í haust verður fjórða lengsta stjórnarmyndunartímabilið.
Sé litið til stjórnarmyndana síðustu 60 ára þá hefur það tekið nýja þingmenn að jafnaði tekið 33 daga að mynda ríkisstjórn eftir kosningar. Lengsta slíka tímabilið var í aðdraganda fyrsta ráðuneytis Þorsteins Pálssonar en það liðu 74 dagar frá kosningum 1987 og þar til hann gat myndað meirihlutastjórn með Sjálfstæðisflokknum sínum, Framsóknarflokki og Alþýðuflokki.
Kosið var að vori árið 1987 og þá tapaði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þingmeirihluta sínum. Ríkisstjórn Þorsteins tók formlega við á ríkisráðsfundi í júlí þetta sama ár en hún varð ekki langlíf heldur sprakk hún rúmu ári síðar. Stundum er þessi ríkisstjórn kölluð „stjórnin sem sprakk í beinni útsendingu“.
Stjórnarkreppa 1978-1980
Í öðru sæti á þessum stjórnarmyndunarlista er ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar árið 1978 sem tók 68 daga að setja saman. Þetta var upphaf lengri stjórnarkreppu sem átti ekki eftir að leysast fyrr en nærri tveimur árum seinna. Ólafur, formaður Framsóknarflokksins, náði þarna að setja flokk sinn við ríkistjórnarborðið ásamt Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum. Það tók stjórnmálamennina allt sumarið 1978 að mynda ríkisstjórn því kosið var í júní og ríkisstjórnin tók ekki við fyrr en á ríkisráðsfundi 1. september.
Framsóknarflokkurinn var eftir kosningarnar 1978 minnstur flokka á Alþingi en þó með 12 þingmenn. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn höfðu 14 menn hvor og Sjálfstæðisflokkurinn 20. Ríkisstjórnarsamstarfið undir forsæti Ólafs Jóhannessonar sprakk hins vegar í október 1979 svo boðað var til kosninga og fóru þær fram 2. og 3. desember. Viðræðutímabilið sem fór þá í hönd tók heila 67 daga eða þar til Gunnar Thoroddsen, þingmaður klofins Sjálfstæðisflokks, gat sett sinn arm þingflokks Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið ásamt Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.
Í báðum þessum kosningum höfðu flokkarnir möguleika á að mynda tvegggja flokka meirihlutastjórn, ólíkt þeirri stöðu sem nú er uppi eftir kosningarnar 2016. Þá var það djúpur málefnaágreiningur sem varð þess valdandi að ekki tókst að mynda ríkisstjórn með öllum Sjálfstæðisflokknum.
Kosningar | Ríkisráðsfundur | Fjöldi daga | Forsætisráðherra |
---|---|---|---|
25. April 1987 | 8. July 1987 | 74 | Þorsteinn Pálsson |
25. June 1978 | 1. September 1978 | 68 | Ólafur Jóhannesson |
3. December 1979 | 8. February 1980 | 67 | Gunnar Thoroddsen |
30. June 1974 | 28. August 1974 | 59 | Geir Hallgrímsson |
29. October 2016 | 4. December 2016 | 36 | ? |
23. April 1983 | 26. May 1983 | 33 | Steingrímur Hermannson |
13. June 1971 | 14. July 1971 | 31 | Ólafur Jóhannesson |
24. June 1956 | 24. July 1956 | 30 | Hermann Jónasson |
27. April 2013 | 23. May 2013 | 26 | Sigmundur Davíð Gunnlaugsson |
26. October 1959 | 20. November 1959 | 25 | Ólafur Thors |
8. May 1999 | 28. May 1999 | 20 | Davíð Oddsson |
25. April 2009 | 10. May 2009 | 15 | Jóhanna Sigurðardóttir |
8. April 1995 | 23. April 1995 | 15 | Davíð Oddsson |
10. May 2003 | 23. May 2003 | 13 | Davíð Oddsson |
12. May 2007 | 24. May 2007 | 12 | Geir Haarde |
20. April 1991 | 30. April 1991 | 10 | Davíð Oddsson |
Meðaltal | 33 | ||
Meðaltal síðustu 20 ára | 17 | ||
Meðaltal síðustu 60 ára | 34 |
Davíð Oddsson var snöggur að þessu
Sé aðeins litið til síðustu tveggja áratuga eða svo sést að tiltölulega hratt hefur gengið að mynda ríkisstjórnir hér á landi eftir síðustu sex Alþingiskosningar. Athygli vekur að Davíð Oddsson var áberandi sneggstur allra verðandi forsætisráðherra að mynda ríkisstjórn. Það liðu aðeins 10 dagar frá kosningum og þar til Davíð lét mynda sig og fyrsta ráðuneyti sitt árið 1991.
Davíð fór sem formaður flokksins í þrjár aðrar Alþingiskosningar. Eftir kosningarnar 1995 myndaði hann og Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn með Halldóri Ásgrímssyni og Framsóknarflokknum. Þá liðu 15 dagar frá kosningum þar til nýtt ráðuneyti Davíðs tók við. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu svo ríkisstjórnarsamstarf undir forystu Davíðs þar til um mitt kjörtímabilið 2003-2007 þegar bæði Davíð og Halldór drógu sig í hlé frá stjórnmálunum.
Að gamni eru dagarnir sem liðu frá kosningum og þar til nýtt ráðuneyti Davíðs tók við, jafnvel þó ríkisstjórnarsamstarfið hafi verið það sama. Meðaltal Davíðs var 14,5 dagar sem er mun minna en þeir formenn Sjálfstæðisflokksins sem á undan honum voru.
Augljós úrslit
Árið 2007 var Geir Haarde orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins sem fékk stjórnarmyndunarumboð frá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta. Geir hringdi í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og hittust þau á Þingvöllum til að ræða ríkisstjórnarsamstarf. Samfylkingin hafði fengið góða kosningu og hafði 18 þingmenn. Geir var líka fljótur að þessu og var búinn að láta mynda sig með samflokksmönnum og fyrstu ráðherrum Samfylkingarinnar 12 dögum eftir kosningar.
Tveimur árum síðar – vorið 2009 í fyrstu kosningunum eftir efnahagshrunið – hlutu Samfylkingin og Vinstri græn samanlagt meirihluta þingmanna. Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafði starfað sem forsætisráðherra í minnihlutastjórn þessara flokka frá því að Geir Haarde baðst lausnar í lok janúar 2009. Eftir kosningarnar liðu 15 dagar frá kosningum þar til Jóhanna tók við sínu öðru ráðuneyti.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands eftir kosningarnar 2013. Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs hafði þá unnið mikinn kosningasigur og bætt við sig fjölda þingmanna frá kosningunum fjórum árum áður. Vinstri flokkunum var klárlega hafnað og þess vegna lá í augum uppi að Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn tækju höndum saman.
Í sumarbústað Bjarna Benediktssonar var stjórnarsáttmáli settur saman. Samningalotan var hins vegar nokkuð löng í þetta sinn og myndin af Sigmundi Davíð og ráðuneyti hans var ekki tekin fyrr en 26 dögum eftir kosningar. Það er einum degi lengra en það tók Ólaf Thors og Emil Jónsson að setja saman Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat árin 1959-1971.
Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var uppvís af því að hafa átt félög í skattaskjólum og sagði af sér í apríl á þessu ári. Það er einnig ástæða þess að kosið var 29. október.