Hugtakið jólalag er eitt það teygjanlegasta sem til er í tónlist. Einu skilyrðin sem lag þarf að uppfylla til að teljast jólalag er að það vitni einhvers staðar í jólin og/eða að það sé aðallega spilað um hátíðarnar. Það eru til jólalög í öllum geirum tónlistarinnar og flestir eiga sín uppáhalds jólalög. Yfirleitt eru það lög sem maður heyrði oft sem barn því jólin eru jú hátíð barnanna. Endurtekningin er því eitt helsta einkenni jólatónlistar. Í hverjum einasta nóvember byrja að heyrast sömu gömlu lögin og jólalag getur ekki talist vel heppnað nema það hafi verið flutt af mörgum flytjendum. Hér eru nokkur af þeim allra bestu.
10. The Christmas Song
The Christmas Song er silkimjúkt djasslag sem samið var árið 1945 af bandarísku lagahöfundunum Mel Tormé og Robert Wells. Ári seinna fengu þeir hinn mikla baritón Nat King Cole til að taka lagið upp og það náði töluverðum vinsældum. Cole tók lagið reyndar upp í nokkur skipti og margt samtímafólk hans spreytti sig einnig á því, s.s. Frank Sinatra, Bing Crosby og Judy Garland. Texti lagsins er ekki upp á marga fiska. Hann fjallar um jólaandann, eftirvæntingu barna og alls kyns hluti sem einkenna jólin. Titill lagsins er einnig misheppnaður þar sem flestir þekkja fyrstu línu lagsins (Chestnuts roasting on an open fire) mun betur og halda að það sé titillinn. Það sem gerir lagið svo gott er því fyrst og fremst óaðfinnanlegur flutningur Cole. Laginu hefur verið snúið upp á íslensku, fyrst af hljómsveitinni Brunaliðinu árið 1978 í mjög poppaðri útgáfu. Hét lagið þá Þorláksmessukvöld.
9.Little Saint Nick
Jólin eru ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á hjómsveitina The Beach Boys, frekar sandur og sól. Engu að síður tóku þeir upp heila jólaplötu árið 1964, The Beach Boy´s Christmas Album, sem fékk mjög góðar viðtökur og þykir sígild í dag. Vinsælasta lag plötunnar, Little Saint Nick, kom út ári áður og er byggt á eldra lagi þeirra Little Deuce Coupe. Little Deuce Coupe er eitt af fjölmörgum Beach Boys lögum sem fjalla um bíla. Þeir yfirfærðu bíladelluna á Little Saint Nick nema þá fjallaði lagið um sleða jólasveinsins. Sleðinn er svo mikið tryllitæki að sveinki þarf að nota akstursgleraugu og einhverra hluta vegna gengur sleðinn bæði fyrir bensíni og hreindýraafli. Þó að lagið sé hefðbundið brimbrettalag þá dugar textinn og nokkrar sleðabjöllur til þess að maður sé sannfærður um jólagildi þess.
8. Ef ég nenni
Ein af undarlegustu hefðum sem skapast hafa í íslenskri tónlist er það að breyta ítölskum dægurlögum í jólalög. Þar má t.d. nefna lögin Ég hlakka svo til, Þú komst með jólin til mín og Þú og ég og jól. Þegar maður heyrir lagið Ef ég nenni með Helga Björnssyni þá er óþarfi að gúgla hvaðan það er, ítölsku áhrifin leyna sér ekki. Lagið heitir á frummálinu Cosi Celeste (Svo himnesk) og er eftir Zucchero Fornaciari. Lagið var þýtt yfir á íslensku árið 1955, sama ár og það kom út í Ítalíu. Cosi Celeste er ástarsöngur og Ef ég nenni líka en munurinn er aftur á móti sá að í lokaversinu á því síðarnefnda er minnst á jólin. Lagið hefur haldið vinsældum sínum í 20 ár og er það ávallt meðal mest spiluðu jólalaganna í útvarpi. Árið 2014 var Ef ég nenni valið besta íslenska jólalagið af 24 manna dómnefnd.
7. Santa Baby
Santa Baby er með ósæmilegri jólalögum sem til er. Þetta er rólegt djasslag, samið árið 1953 af Joan Javits og Philip Springer og flutt af söngkonunni Eartha Kitt. Kitt flutti lagið svo í söngleikjamyndinni New Faces ári seinna. Kitt gerði út á kynþokkann á sínum ferli og hann kemur bersýnilega í ljós í Santa Baby, hennar langþekktasta lagi. Lagið rambar reyndar á barmi þess að vera beinlínis klámfengið. Í laginu syngur Kitt beint til jólasveinsins á mjög svo tælandi hátt og í lok lagsins heimtar hún hring. Það er þó ekki það eina sem hún heimtar. Lagið er stútfullt af neysluhyggju þar sem Kitt finnst t.d. sjálfsagt að sveinki gefi sér snekkju og fylli út ávísanir fyrir sig til að eyða út í bæ. Fjölmargar söngkonur á borð við Madonnu og Kylie Minogue hafa fetað í fótspor Kitt og jafnvel reynt að toppa hana í kynþokkanum. Engin útgáfa jafnast þó á við þá upprunalegu.
https://www.youtube.com/watch?v=DeNhjPaP53I
6. Litli trommuleikarinn
Litli trommuleikarinn var saminn af Katherine Kenniscott Davis, amerískum tónlistarkennara, árið 1941. Það fjallar um lítinn fátækan dreng sem spilar á trommu fyrir nýfætt Jésúbarnið. Lagið er nokkuð látlaust og einkennist af taktföstum trommuslættinum. Það minnir því fremur á útför hermanns heldur en jólin. Eftir að lagið var sungið af austurrísku söngfjölskyldunni Trapp (sem fjallað er um í kvikmyndinni Sound of Music) árið 1955 náði lagið miklum vinsældum. Síðan þá hafa ótal söngvarar, sérstaklega djúpraddaðir karlar, flutt lagið og er það orðið að nokkurs konar fasta á jólaplötum. Margir muna eftir flutningi Bing Crosby og David Bowie á laginu og sérlega undarlegu myndbandi sem fylgdi. Þekktast er lagið þó sennilega í flutningi country-söngvarans Johnny Cash. Fjölmargir Íslendingar hafa reynt sig við lagið en enginn með betri árangri en sjálfur Raggi Bjarna.
5. O Helga Natt
Ó helga nótt eða Cantique de Noel eins og það heitir á frummálinu er franskt lag, samið árið 1847 af Adolphe Adam við ljóð Placide Cappeau. Það náði strax mikilli útbreiðslu og var t.a.m. þýtt yfir á enska tungu aðeins 8 árum síðar. Lagið er nokkuð hefðbundið og það fjallar um nóttina sem Jésú fæddist og mikilfengleik hans. Lagið er vel þekkt kóralag en einnig hafa margir af fremstu óperusöngvörum sögunnar spreytt sig á því, t.d. Enrico Caruso, Luciano Pavarotti og Placido Domingo. Margir þekkja einnig stórbrotna útgáfu Eric Cartman af laginu. Enginn kemst þó með tærnar þar sem sænski tenórinn Jussi Björling hefur hælana. Björling tók lagið upp árið 1959. Þá var hann nýkominn af spítala eftir mikil hjartaveikindi og þá barðist hann einnig við alkóhólisma og þunglyndi á þessum tíma. Raunir hans skína í gegn í upptökunni sem gera hana svo áhrifamikla. Björling lést ári seinna, tæplega fimmtugur að aldri.
4. God Rest Ye Merry Gentlemen
God Rest Ye Merry Gentlemen er hefðbundið enskt jólalag sem flestir tengja við Viktoríutímann og Jólasögu Charles Dickens. Kvæðið hefur þó verið til síðan á 16. öld og jafnvel fyrr. Fyrsti þekkti heildartextinn er frá miðri 18. öld og um miðja 19. öld var lagið orðið mjög vinsælt í Bretlandi. Í laginu er sagt frá fæðingu Jésúm í Bethlehem og flestir þekkja línuna „To save us all fom Satan´s Power“. Það er jú fátt sem kemur manni í jafn gott jólaskap og Satan. Lagið er þekkt kóralag og einnig vinsælt hjá litlum jólasönghópum. Fjölmargir heimsþekktir tónlistarmenn hafa tekið það upp í gegnum tíðina t.d. Bing Crosby, Nat King cole, Annie Lennox og Mariah Carey, en Youtube stjörnur samtímans hafa einnig sett það í athyglisverðan búning. Má þar nefna accapella-hópinn Pentatonix og tónlistarhópinn Postmodern Jukebox sem flytur þekkt lög í swing útgáfum.
3. Gilsbakkaþula
Gilsbakkaþula var samin laust eftir miðja 18. öld af Kolbeini Þorsteinssyni. Kolbeinn, sem síðar varð prestur í Miðdalskirkju við Laugarvatn, samdi kvæðið um jólaheimsókn sína til tengdafjölskyldunnar á bænum Gilsbakka í Borgarfirði. Kvæðið lýsir jólahaldinu á bænum ítarlega og er Guðrúnu dóttur Kolbeins sem var þá barn að aldri, í aðalhlutverki. Í kvæðinu koma fyrir fjöldamörg nöfn á fólki sem fæstir kunna deili á en það gefur því einstaklega persónulegan tón. Það er eins og maður sé bókstaflega á staðnum. Gilsbakkaþula var oft dönsuð fyrir jólin áður fyrr en sá siður er nú í dvínun. Tvær þjóðlagahljómsveitir hafa gert kvæðinu góð skil, Savannatríóið (1963) og Þrjú á palli (1971). Það sem kvæðið er mjög langt spiluðu hljómsveitirnar einungis hluta af kvæðinu og ekki einu sinni sama hluta. Seinni útgáfan var á plötunni Hátíð fer að höndum ein, einni þekktustu jólaplötu Íslands.
2. O Come, O Come Emmanuel
Lagið Veni, Veni Emmanuel (Kom þú, kom vor Immanúel) er eitt af elstu þekktu jólalögunum með rætur aftur til miðalda. Laglínan er a.m.k. frá 15. öld og elstu textabrotin hugsanlega frá 9. öld. Lagið segir frá Gyðingunum og leit þeirra að Messíasi og svo komu Jésú Krists og uppfyllingu orðsins. Um miðja 19. öld var það þýtt á enska tungu af prestinum John Mason Neale og hefur það notið sérstakrar hylli í hinum enskumælandi heim allar götur síðan. Lagið hefur verið flutt af frægum poppstjörnum á borð við Whitney Houston, U2 og Enyu en er fyrst og fremst þekkt sem kóralag. Ameríska pönkhljómsveitin Bad Religion flutti athyglisverða útgáfu af laginu á jólaplötu sinni Christmas Songs árið 2013. Greg Graffin, söngvari hljómsveitarinnar, var sjálfur í kirkjukór á yngri árum.
1. Fairytale of New York
Lagið er afurð veðmáls milli meðlima hljómsveitarinnar The Pogues og hljóðblandara þeirra, Elvis Costello. The Pogues sömdu lagið og fengu Kirsty MacColl, dóttur þjóðlagasöngvarans Ewan MacColl, til að syngja með. Lagið, sem er nokkuð hefðbundin þjóðlagaballaða með mjög óhefðbundnum texta, kom svo út fyrir jólin árið 1987. Lagið fjallar um rifrildi fyllibyttupars í New York borg og er það bæði dónalegt og rómantískt í senn. Þrátt fyrir að vera jólalag þá koma ýmis blótsyrði á borð við slut, arse, scumbag og faggot fyrir í því. Í sumum útgáfum er þó búið að skipta faggot út fyrir haggard. Það er að miklu leyti vegna orðbragðsins sem lagið varð svo vinsælt og þá sérstaklega hvernig MacColl hreytti óþverranum út úr sér. Lagið er langvinsælasta lag söngkonunnar sem lést langt fyrir aldur fram í köfunarslysi í Mexíkó. Lagið hefur notið nánast samfelldra vinsælda síðan þá og rýkur upp vinsældalistana í Bretlandi á hverju ári.