„Í Reykjavík er skólum bannað að fara með börnin í kirkjur eða halda jólatrésskemmtanir eins og einhver skaðist af því.“ Þetta skrifar Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína í síðustu viku.
Ásmundur er ekki einn um að halda þessu fram, enda hafa umræður um þessi mál verið árviss viðburður fyrir jólin undanfarin ár. Staðreyndavakt Kjarnans ákvað að kanna málið.
Reglur settar um heimsóknir í kirkjur
Mennta- og menningarmálaráðherra gaf út meginviðmið um samskipti skóla og trúfélaga þann 29. apríl 2013. Það var gert eftir að starfshópur ráðherrans hafði skilað tillögum til ráðherra um þessi mál, en fulltrúar frá Biskupsstofu, Heimili og skóla, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siðmennt og fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins sátu í hópnum. Það var þó áréttað að leik- og grunnskólar séu á forræði sveitarfélaga og þau beri ábyrgð á samstarfi skóla við aðila utan hans. Þá var mælst til þess að sveitarfélög settu sér reglur um samskipti trúfélaga og skóla.
Í reglunum sem menntamálaráðuneytið setti fram kemur fram að leggja eigi áherslu á mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu í fjölmenningarsamfélagi og vettvangsheimsóknir til trúfélaga geti verið hluti af slíkri fræðslu. „Mikilvægt er að fræðsla þessi og heimsóknir sé gerð á vegum skólans og í þeim tilgangi að fræða nemendur um tiltekin trúarbrögð, inntak þeirra, helgidóma og siði en feli ekki sér innrætingu tiltekinna trúarskoðana eða tilbeiðslu. Vettvangsheimsóknir til trúfélaga og heimsóknir fulltrúa þeirra í skóla skulu taka mið af ofangreindu og vera innan ramma aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla,“ segir í fyrsta kafla reglnanna.
„Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar telst hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleið þjóðarinnar,“ segir svo í öðrum kafla. Þá segir í þriðja kafla að „eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.“
Fjölmörg sveitarfélög hafa í kjölfar brýningar ráðuneytisins sett sér reglur um samskipti trúfélaga og skóla. Í reglum Reykjavíkurborgar kemur fram að „heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.“
Ekki bannað að fara í kirkju
Skólum í Reykjavík er því almennt ekki bannað að fara í kirkju, þótt um slíkar heimsóknir gildi strangari reglur en sums staðar annars staðar. Engu að síður er farið með börn í kirkju í mörgum grunnskólum Reykjavíkurborgar, líkt og sjá má hér að neðan, en upplýsingarnar byggja á því sem sagt er frá á vefsíðum skólanna. Upptalningin er ekki tæmandi, auk þess sem sums staðar var litlar upplýsingar að sjá.
Í Austurbæjarskóla verður jólaskemmtun, og í Árbæjarskóla eru jólaskemmtanir auk þess sem haldin verða litlu jól. Í Ölduselsskóla fara börn bæði í heimsókn í Seljakirkju, halda litlu jól og fara á jólaskemmtanir. Sömu sögu er að segja af Seljaskóla. Í Vættaskóla verður haldin jólaskemmtun og nemendur hafa haldið samverustundir á aðventu þar sem kveikt er meðal annars á aðventukransi og sungin jólalög. Í Vogaskóla eru bæði litlu jólin og jólaskemmtun haldin. Jólaskemmtun verður haldin í Vesturbæjarskóla og þar er líka haldinn svokallaður rauður dagur, líkt og búið er að gera í Sæmundarskóla. Í Sæmundarskóla er líka árlegur helgileikur leikinn, og haldin jólaskemmtun við lok skólastarfsins.
Í Selásskóla eru haldin litlu jól, og í Rimaskóla verður farið í heimsókn í Grafarvogskirkju, auk þess sem búið er að halda jólaskemmtun fyrir fyrsta bekk og jólaskemmtun. Í Norðlingaskóla er búið að halda jólasveinahúfudag og haldin verður jólaskemmtun. Í Melaskóla er bæði jóla- og aðventusamsöngur, og jólaskemmtun. Í Laugarnesskóla er haldið jólakaffi, jólalög eru sungin og jólaskreytt. Í Laugalækjarskóla eru haldnir jólaleikar, jólaball og stofujól. Í Ingunnarskóla er jólapeysudagur, jólaball og litlu jól og í Húsaskóla er jólaskemmtun.
Í Hólabrekkuskóla er farin heimsókn í Fella- og Hólakirkju, auk þess sem haldnar eru jólaskemmtanir, jólagetraun og jólahúfudagur. Í Fellaskóla er haldið jólafjör og jólaball. Í Hlíðaskóla eru jólaböll auk þess sem búið er að halda aðventuhátíð. Í Grandaskóla eru jólahátíðir í tvo daga, í Fossvogsskóla er búið að halda jólaball og í Foldaskóla er jólafatadagur á föstudag og bæði farið í kirkju, á jólaball og haldin litlu jól síðar í mánuðinum.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Það er því niðurstaða Staðreyndavaktarinnar að Ásmundur fari með fleipur. Þrátt fyrir að það séu strangar reglur um kirkjusókn grunnskólabarna í Reykjavík fara margir skólar í heimsóknir þangað, og svo virðist sem nánast allir ef ekki allir grunnskólar borgarinnar haldi jólaskemmtanir fyrir jólafrí.