Formlega séð snerist þjóðaratkvæðagreiðslan á Ítalíu, sem nýverið fór fram, um fimm stjórnarskrárbreytingar sem kosið var um í einum „pakka“. Meginviðfangsefni tillaganna var að fækka öldungadeildarþingmönnum úr 320 í 100 og skerða völd deildarinnar í þeim tilgangi að gera hana að eins konar ráðgefandi stofnun fyrir undirdeild þingsins sem yrði þá valdameiri. Þessar breytingar ásamt umbótum á kosningakerfinu á þann hátt að flokkurinn með mesta fylgið hefði fengið óhlutfallslega háan hluta þingsæta myndu gera það auðveldara að koma málum í gegn.
Ástæðurnar fyrir þessum tillögum voru margar en Ítalía hefur haft 63 ríkisstjórnir eftir seinni heimsstyrjöld og er stofnanakerfi landsins sérstaklega hannað til að torvelda lagasetningu enda er það hannað í kjölfar valdatíð fasistastjórnar Benito Mussolini. Samkvæmt Renzi myndu breytingarnar veita landinu skilvirkara og stöðugra stjórnarfar og væru lykilatriði í því að geta komið í gegn löggjöf sem myndi hraða landinu úr þeirri langvinnu og erfiðu efnahagslegu lægð sem landið hefur verið í á 21. öldinni. Lífskjör á Ítalíu hafa ekki hækkað síðan um þúsaldarmótin og er atvinnuleysi, og þá sérstaklega atvinnuleysi ungmenna, undirliggjandi vandamál sem hafa versnað í kjölfar heimskreppunnar og evrukrísunnar.
Nei við hverju?
Renzi áleit kosningarnar vera “núna eða aldrei“-augnablik fyrir Ítalíu; annað hvort myndi þjóðin veita honum stuðning til að koma á nauðsynlegum breytingm til að gera Ítalíu kleift að nútímavæðast í stað þess að þróast lengra í áttina að því að verða hálfgert „safn“ sem ætti ekki erindi í að taka forystuhlutverk á alþjóðavettvangi. Ef þjóðin ákvæði að veita honum ekki stuðning varaði Renzi við að ekki einungis myndi hún kjósa gegn umbótum heldur einnig greiða leiðina fyrir popúlistann Giuseppe „Beppe“ Grillo og flokk hans Fimmstjörnuhreyfinguna (Movimiento 5 Stelle), og öfgahægriflokkinn Norðurdeildina (Lega Nord).
Þó eru skiptar skoðanir um það hvort skilgreining Renzi hafi verið sanngjörn lýsing á þjóðaratkvæðagreiðslunni og koma þær úr öllum áttum; The Economist tjáði í leiðara sínum um kosningarnar að þótt að það leiki enginn vafi á því að sár þörf sé fyrir umfangsmiklar umbætur á hinu staðnaða hagkerfi Ítalíu þá væru tillögur Renzi ekki rétta meðalið, á meðan Jacobin Magazine hafði áhyggjur af því að tillögurnar myndu færa landið enn lengra á braut nýfrjálshyggjunnar og skerða enn frekar réttindi launþega sem nú þegar hefðu átt undir högg að sækja í valdatíð Renzi. Það þarf því að forðast að útskýra atkvæðagreiðsluna einfaldlega sem baráttu á milli evrópusinnaðra umbótaafla gegn öfgahægri popúlisma og ber að skilgreina vel hvernig staðan á Ítalíu á samleið með stjórnmálaþróunum á þessu ári í löndum á borð við Bandaríkin, Bretland, Austrríki, Frakkland, Þýskaland.
Quitaly?
Ítalska þjóðin kaus gegn tillögunum með afgerandi hætti, 59% gegn 41%, og Renzi sagði af sér í kjölfarið eins og hann hafði lofað. Í stað þess að boða strax til nýrra þingkosninga ákvað forseti landsins, Sergio Mattarella, að útnefna nýjan forsætisráðherra frá Demókrataflokknum til að taka við af Renzi. Gentiloni, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Renzi, varð fyrir valinu og hefur í vikunni skipað nýja ríkisstjórn sem samanstendur að mestu leyti af fyrrverandi ráðherrum frá ríkisstjórn Renzi.
Núverandi kjörtímabili lýkur í byrjun árs 2018 og lítur því út fyrir að ríkisstjórn Gentiloni verði skammlíf. Fimmstjörnuhreyfingin sem mælst hefur með stærsta fylgið að undanförnu, kallaði eftir eftir nýjum þingkosningum í kjölfar ósigurs Renzi enda gæfi afsögn hans í skyn að þjóðaratkvæðagreiðslan snerist einnig um vantraust almennings á sitjandi ríkisstjórn. Þó að hægt sé að skilgreina Fimmstjörnuhreyfinguna sem popúlistaflokk er hún ekki sambærileg öfgahægriöflum eins og popúlistaflokkar víðs vegar um Evrópu. Flokkurinn, sem á rætur sínar að rekja til bloggskrifa Beppo Grilli snerist upphaflega um fimm atriði, eða „stjörnur“; opinberar vatnsveitur, sjálfbærar samgöngur, sjálfbæra þróun, réttinn að internetaðgengi, og umhverfisvernd, en andstaða hans við þá spillingu sem hann telur einkenna hefðbundnar stofnanir í ítölsku samfélagi hefur gert hann skeptískan gagnvart evrunni þó flokkurinn sé hlynntur áframhaldandi ESB-aðild.
Ákvörðun Mattarella hefur gefið demókrataflokknum tækifæri á að klára kjörtímabilið sitt en ljóst er að næstu þingkosningar á Ítalíu gætu aukið vægi popúlista verulega. Þó er lítil ástæða til að halda að 65. ríkisstjórn landsins verði langlífari eða skilvirkari en þær sem á undan hafa gengið. Þá hlýtur spurningin um hvaða stjórnmálamenn og flokkar sem stjórna landinu að vera síður áhugaverð en sú hvernig og hvort Ítalíu tekst að glíma við þá efnahagslegu og félagslegu pattstöðu eða jafnvel hnignun sem landið hefur staðið yfir síðustu ár.