Íslenska krónan hefur styrkst mikið gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum heimsins á árinu 2016. Gagnvart evru nemur styrkingin um 16 prósentum og gagnvart Bandaríkjadal er hún nú um 13 prósent, en eftir vaxtahækkun Seðlabanka Bandaríkjanna síðastliðin miðvikudag þá hækkaði gengi Bandaríkjadals gagnvart krónunni um tvö prósent. Fram að því hafði styrking krónunnar gagnvart dalnum verið viðvarðandi og stöðug allt árið. Bandaríkjadalur kostaði 136 krónur fyrir rúmu ári en kostar nú 114 krónur.
Krónan er þó ekki sú mynt sem hefur sýnt mesta styrkingu á mörkuðum þetta árið. Rafmyntin Bitcoin slær öllum öðrum við, samkvæmt umfjöllun Bloomberg. Á þessu ári nemur styrking Bitcoin - eða ávöxtunin eins og frekar á við - um 79 prósent. Samkvæmt regluverki fjármálamarkaða í Bandaríkjunum eru viðskipti með rafmyntina skilgreind eins og hrávöruviðskipti fremur en gjaldmiðlaviðskipti.
Ein eining af Bitcoin jafngildir nú 793 Bandaríkjadölum, eða sem nemur ríflega 90 þúsund krónum.
Bloomberg segir ástæðurnar fyrir velgengni Bitcoin meðal annars vera vaxandi notkun fjármagnshafta í einhverri mynd á mörkuðum, sem hefur aukið viðskipti með Bitcoin. Þá hafa ýmsar aðrar nýjar reglur, sem eiga að draga úr áhættu í viðskiptum með gjaldmiðla, leitt til þess að áhættusæknir fjárfestar hafa fært fjármuni yfir í Bitcoin. Aðgerðir yfirvalda gegn ólöglegri starfsemi, og peningaþvætti sem henni tengist, virðast einnig hafa leitt til aukinnar fjárfestingar í Bitcoin.
Allt frá stofnun árið 2008 hefur tiltrúin á Bitcoin verið ein helsta hindrunin fyrir því að þessi nýja vara, sem segja má að rafmyntin sé, nái að skjóta rótum á fjármálamörkuðum. Árið 2016 hefur verið mikilvægt ár fyrir Bitcoin og unga sögu rafmynta.
Í viðtali við Bloomberg segir fjárfestirinn Tim Draper, sem hefur stundað viðskipti með Bitcoin árum saman, að hann búist við því að verðmiðinn á Bitcoin muni vaxa enn meira og jafnvel margfalt. Ástæðan er sú að hugmyndin um rafmyntina hafi heppnast og nú séu fjárfestar sífellt betur að átta sig á möguleikum hennar.