Árið 1971 var Starbucks fyrirtækið stofnað í Seattle og var fyrsti kaffibollinn undir þessu þekkta vörumerki seldur fyrsta viðskiptavininum sama ár. Saga fyrirtækisins er ævintýraleg og hafa síðustu tíu ár ekki síst markað afar jákvæðan kafla í 45 ára sögu fyrirtækisins. Stofnendur þess voru Gordon Bowker, Jerry Baldwin og Zev Siegl.
Þeir vildu í upphafi búa til vettvang þar sem fólk kæmi saman og hefði úr mörgum tegundum af kaffi að velja. Þetta hefur verið leiðarstef fyrirtækisins alla tíð, þó kaffihúsin séu mörg og misjöfn eins og staðsetningarnar.
Opna átta ný kaffihús á dag
Samkvæmt síðustu birtu áætlun fyrirtækisins, frá því í gær, stefnir Starbucks nú að því að fjölga kaffihúsum um tólf þúsund á næstu fjórum árum. Það nemur um átta kaffihúsum á hverjum degi næstu fjögur árin.
Þá hefur sala fyrirtækisins á ýmsum vörum í búðum stóraukist og gera áætlanir ráð fyrir í það minnsta 5 prósent árlegum vexti næstu árin.
Markaðsvirði Starbucks nemur í dag um 82 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 9.120 milljörðum króna.
Í fyrra var Starbucks með 25 þúsund kaffihús á heimsvísu en ef allt gengur upp þá verða þau 37 þúsund árið 2021 og 50 þúsund árið 2025. Fyrir einungis fimm árum voru kaffihúsin 15 þúsund, svo þeim hefur fjölgað hratt að undanförnu.
Sú veitingakeðja í heiminum sem er með flestar sjálfstæðar staðsetningar á heimsvísu er Subway, með tæplega 45 þúsund staðsetningar. Þar á eftir kemur skyndibitakeðjan McDonalds með 36 þúsund staðsetningar.
Vöxtur í Asíu og í úthverfum borga
Starbucks hefur á undanförnum árum vaxið hratt og hefur verið einblínt á góðar staðsetningar í borgum. Á síðustu tveimur árum hefur fyrirtækið opnað sífellt fleiri kaffihús í úthverfum ýmissa stórra borga, einkum í Bandaríkjunum, og hefur það gefist vel. Það glæðir hverfin lífi og móttökurnar hafa verið góðar.
Howard Schultz hætti sem forstjóri undir lok síðasta árs og tók Kevin Johnson, sem var hans nánasti samstarfsmaður í æðstu stjórn, við forstjórastöðunni. Formlega munu skiptin þó ekki ganga í gegn fyrr en í apríl á þessu ári. Schultz er áfram stjórnarformaður og því helsti leiðtogi fyrirtækisins.
Barmenning á kvöldin
Fyrir rúmum tveimur árum hóf Starbucks að bjóða viðskiptavinum sínum upp á áfenga drykki á völdum stöðum, en yfirlýst stefna fyrirtækisins er sú að auka við sölu seinni part dags og á kvöldin, meðal annars með sölu á bjór og vínum einnig. Fyrirtækið hefur ekki farið hratt af stað í þessari þróun, og er það með vilja gert. Schultz hefur sjálfur sagt að Starbucks vilji halda í viðskiptavinina sem kaupa fyrst og fremst kaffi og léttan mat, en rökrétt sé fyrir fyrirtækið að bjóða betri þjónustu á kvöldin og nýta þannig verðmæta staðsetningu margra kaffihúsa fyrirtækisins enn betur.
Gjöfult ár framundan?
Mark Kalinowski, greinandi hjá Nomura, segir í samtali við Bloomberg að Starbucks verði sú veitingakeðja sem muni líklega ná bestum árangri á árinu 2017. Mörg önnur vörumerki eigi í vök að verjast á meðan Starbucks hefur haldið sjó og náð að vaxa enn hraðar en bæði hluthafar og greinendur reiknuðu með. Lykillinn að velgengni sé áherslan á áreiðanleika og góða þjónustu. Um 190 þúsund starfsmenn fyrirtækisins á heimsvísu sjái til þess að kaffið skili sér fljótt og vel, þrátt fyrir oft á tíðum langar biðraðir.