Í skýrslu um aflandseignir Íslendinga, sem birt var fyrst í gær, er fjallað um fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp, hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandseyjunum hafi skilað sér Íslands, með gengisafslætti, í gegnum fjárfestingaleiðina.
„Að lokum má fyrir forvitni sakir velta upp þeirri spurningu hvort fjárfestingarleið Seðlabankans hafi orðið til þess að eitthvað af þessu fjármagni fluttist aftur heim eftir hrun. Þegar litið var til þátttöku í fjárfestingarleiðinni fengust þær upplýsingar, að frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins tóku 7 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í einhverju af 21 útboði fjárfestingarleiðar á árunum 2012 til 2015 með 13 m. evra alls. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu tóku alls 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í útboðunum, alls með 41 m. evra. Þetta má tvöfalda þar sem aðilarnir þurftu að skipta öðru eins á álandsgengi til þess að uppfylla skilyrði útboðsins. Er því alls um 108 m. evra að ræða, eða rúmlega 14 ma.kr. á gengi dagsins í dag. Þetta er óveruleg fjárhæð hvort sem litið er til ætlaðra aflandseigna í heild (<3%) eða eignarhalds aflandsfyrirtækja í Kauphöll 2007 (<1%). Það sem máli skiptir í þessu samhengi er þó það, að þessir fjármagnsflutningar dragast ekki frá aflandseignum Íslendinga þar sem fjármunirnir eru enn í eigu aflandsfélaga. Hitt er aftur á móti ekki útilokað, að af 226 mö.kr. sem eftir standa af þeim 240 mö.kr. sem fjárfestingarleiðin skilaði, kann eitthvað að vera fé sem verið er að færa út úr aflandsfélögum í eigu Íslendinga og inn í íslensk félög eða yfir á nafn einstaklinganna sjálfra,“ segir í skýrslunni.
Erfitt að greina
Tekið er fram sérstaklega að erfitt sé að greina þessa hluti, þannig að vel sé gert. Þá er tekið fram að Seðlabankinn hafi veitt undanþágur fyrir flutningi á aflandskrónum upp á tugi milljarða króna. „Seðlabankinn hefur aftur á móti veitt aðilum sem sýnt hafa fram á samfellt eignarhald á aflandskrónum heimild til þess að flytja þær heim til Íslands, enda sýnt fram á að ekki hafi verið átt viðskipti með þær krónur á aflandskrónumarkaði. Samtals nema undanþágur til flutnings aflandskrónueigna hingað til lands 28 mö.kr. Í hvaða tilgangi það fé var flutt út upphaflega er óljóst, en ekki er ólíklegt að það hafi verið vegna skattalegrar hagræðingar og teljist féð því til aflandsfjár. Greining á þessu hefði einnig kallað á nokkra yfirlegu og jafnvel þó - 11 - í ljós kæmi að með réttu ætti að draga allt þetta fé frá mati á aflandseignum myndi það ekki breyta niðurstöðunni stórkostlega (um 5%),“ segir í skýrslunni.
Stökkbreyting
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, þá varð stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna í apríl á síðasta ári. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í september og kynnti hana í fjármálaráðuneytinu í byrjun október síðastliðins, en hún var ekki kynnt fyrir Alþingi fyrir kosningar. Kjarninn spurðist ítrekað fyrir um málið, og í nóvember var greint frá því að skýrslan kæmi fyrir nýtt Alþingi þegar það kæmi saman. Af því varð ekki, og Kjarninn sagði frá því fyrr í þessari viku að ekkert bólaði á skýrslunni þrátt fyrir að þing hafi komið saman í byrjun desember. Í dag var skýrslan svo gerð opinber, og hún hefur verið send til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Í starfshópnum áttu sæti Sigurður Ingólfsson, formaður, Andrés Þorleifsson frá Fjármálaeftirlitinu, Anna Borgþórsdóttir Olsen frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Björn R. Guðmundsson frá Hagstofu Íslands, Fjóla Agnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðmundur Sigbergsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurður H. Ingimarsson frá skattrannsóknastjóra og Sigurður Jensson frá ríkisskattstjóra.
Starfsmaður hópsins var Íris H. Atladóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hópurinn tekur margsinnis fram í skýrslunni að erfitt sé að meta umfang og tap af aflandsfélögum, og að flestar rannsóknir af þessu tagi taki mörg ár, en ekki nokkrar vikur eins og hér var raunin. Þá tekur hópurinn fram að ljóst sé að þær tölur sem kynntar eru í skýrslunni séu aðeins bráðabirgðaniðurstöður og mun ítarlegri greiningar sé þörf. „Telur starfshópurinn að gagnlegt gæti verið að taka upp þráðinn aftur síðar og freista þess að taka á þeim mörgu álitamálum sem upp komu í vinnuferlinu að þessu sinni.“