Fasteignasalinn og fyrrverandi öryggisvörðurinn í Argos-verslunarkeðjunni í London, Adama Barrow, vann óvæntan sigur í forsetakosningum í Gambíu 2. desember síðastliðinn þegar hann hlaut 45,5% atkvæða gegn 36,7% andstæðings síns Yahya Jammeh, forseta landsins til 22 ára. Jammeh viðurkenndi ósigur sinn í kosningunum í kjölfarið, óskaði Barrow til hamingju, og tjáði þar að auki að kosningarnar hafi verið „gegnsæjustu kosningar í heimi“. Jammeh var einungis annar forseti landsins frá sjálfstæði 1965 en hann tók völdin í valdaráni árið 1992.
Vonir Gambíumanna um að landið myndi upplifa fyrstu friðsamlegu valdaskipti í sögu landsins virtust hins vegar orðnar að engu þegar Jammeh tilkynnti rúmri viku eftir kosningarnar að hann hafnaði niðurstöðunum. Hann hafði þá skipt um skoðun og taldi að kosningarnar hefðu verið gallaðar og lagði til að nýjar yrðu haldnar. Hermenn vöktu í kjölfarið ugg hjá borgarbúum í Banjul, höfuðborg Gambíu, þegar þeir byrjuðu að hlaða sandböggum í kringum hernaðarlega mikilvæga staði víðs vegar í borginni.
Viðbrögð innanlands og meðal Afríkuríkja
Gambía undir stjórn Jammeh hefur fundið fyrir aukinni einangrun í alþjóðasamfélaginu á undanförnum árum og þá einna helst eftir fall Muammar Gaddafi í Líbíu sem veitti stjórn Jammeh umtalsverðan fjárhagslegan stuðning. Jammeh dró aðild Gambíu að Samveldi sjálfstæðra ríkja (e. Commonwealth) til baka árið 2013 og tilkynnti formlega að landið yrði íslamskt lýðveldi árið 2015 í nafni afnýlenduvæðingar en reyndi eflaust með því að færa landið nær efnamiklum bakhjörlum á borð við Sádí-Arabíu.
Það virðist þó eins og tilraunir Jammeh í alþjóðasamskiptum hafi mistekist í ljósi fordæmingar á gjörðum hans úr öllum áttum. Leiðtogar vestur-afríska ríkjasambandsins ECOWAS voru fljótir að fordæma atferli Jammeh sem og Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, Afríkusambandið (AU) og Samband íslamskra ríkja (OIC).
Sama er uppi á teningnum innanlands. Þegar Jammeh bað hæstarétt landsins um að úrskurða kosningarnar sem ólögmætar voru of fáir sitjandi dómarar til að gera það og getur Jammeh kennt sjálfum sér um fyrir að hafa rekið þá flesta á síðustu árum. Þá tilkynnti lögmannafélag Gambíu að þau álitu það landráð ef Jammeh víki ekki úr embætti og kennarafélag, námsmannafélag, viðskiptaráð, ellefu sendiherrar Gambíu erlendis og jafnvel íslamska ráð landsins hafa öll fordæmt Jammeh.
Tilraunir að sáttasamningum
Leiðtogar fjögurra ECOWAS-ríkja (Ghana, Líberíu, Nígeríu og Sierra Leone) fóru til Banjul eftir að Jammeh neitaði að víkja úr embætti til að sannfæra hann um að virða útkomu kosninganna en ítrekaðar tilraunir og tilboð um hæli, bæði frá Marokkó og Nígeríu, mistókust. ECOWAS tilkynnti strax í kjölfar ákvörðunar Jammeh að samtökin myndu ekki útiloka hernaðaraðgerðir til þess að framfylgja útkomu kosninganna og ríkisstjórn Senegal, sem umlykur Gambíu landfræðilega, tilkynnti að hún myndi vernda Senegala sem byggju í Gambíu.
Kjörtímabil Jammeh rann út þann 19. janúar og í aðdraganda þess stilltu hersveitir vestur-afrískra ríkja, undir stjórn Senegal, sér upp með fram landamærunum að Gambíu. Hershöfðingi gambíska hersins tilkynnti að hermenn hans myndu ekki berjast gegn innrás hersveita frá Senegal og að hann myndi ekki blanda hermönnum sínum inn í „heimskan bardaga“.
Adama Barrow var svarinn inn í embætti forseta Gambíu í sendiráði Gambíu í Dakar, höfuðborg Senegal, og var ætlað að snúa aftur til Banjul um leið og Jammeh hvarf frá. Föstudaginn 20. janúar, gengu hersveitir undir stjórn Senegal inn í Gambíu en Jammeh var enn í borginni eftir að forsetar Máritaníu og Gíneu höfðu gert lokatilraun til að ná að sáttasamningum við dagana tvo á undan. Jammeh óskaði eftir meiri tíma og því að ECOWAS verði skipt út sem samningsaðilar en ólíklegt var að neinar af óskum hans verði að veruleika. Vonir voru bundnar við að Jammeh myndi fallast á að víkja frá eftir því sem fleiri og fleiri gambískir hermenn ákváðu að berjast ekki gegn innrásarhernum.
Tími Jammeh sem forseti er nú liðinn og hefur hann loks tekið boði um að víkja úr embætti og fara í útlegð. Þetta táknar það einnig enda valdatíðar sem hefur einkennst af harðstjórn og brotum á löngum lista mannréttinda; morð, pyntingar og ofsóknir á blaðamönnum, mannréttindaverjendum, pólitískum andstæðingum og hinsegin fólki svo eitthvað sé nefnt. Þrýstingur frá hersveitum ECOWAS-ríkjanna og sáttasamninganefndir leiðtoga ECOWAS-ríkja báru ávöxt og útlegð Jammeh án átaka hlýtur að teljast sigur fyrir alþjóðastofnanir í Afríku fyrir að sýna samstöðu til að framfylgja útkomu lögmætra kosninga.
Jammeh steig um borð í ómerkta flugvél í nótt, aðfaranótt sunnudags, og yfirgaf Gambíu. Ekki er vitað hvert för hans var heitið en ljóst að hann hefur látið undan þrýstingnum.