Markaðsvirði Icelandair Group hefur hrapað á undanförnum mánuðum. Gengi bréfa félagsins er nú rúmlega 16 á hlut en var tæplega 40 fyrir rúmu hálfu ári, í lok maí mánaðar í fyrra. Þá var markaðsvirði félagsins um 189 milljarða króna en nú er það 83 milljarða, miðað við stöðu félagsins í lok árs í gær.
Icelandair er eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og hefur verið það á uppgangstímum í ferðaþjónustunni á undanförnum sex árum.
Gengi félagsins á markaði í gær var með nokkrum ólíkindum en markaðsvirði félagsins lækkaði um rúmlega 24 prósent eftir að tilkynning var send til kauphallar og greint þar frá versnandi afkomu rekstrarins.
Miðað við síðustu birtu upplýsingar frá fyrirtækinu þá nema eignir félagsins tæplega 1,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 145 milljörðum króna. Eigið fé félagsins nemur tæplega 600 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 74 milljörðum króna.
En hvers vegna er gengi bréfa félagsins að lækka jafn mikið og raun ber vitni, á sama tíma og mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu?
Nokkur atriði má þar nefna sérstaklega, sem varða rekstur félagsins og hagsmunina sem eru undir.
1. Í tilkynningu Icelandair til kauphallar frá því í gær, kemur fram að miðað við núverandi forsendur geri félagið ráð fyrir að EBITDA ársins 2017 verði 140-150 milljónir Bandaríkjadala en í fyrra var hún 210 til 220 milljónir Bandaríkjadala. Ljóst er að þessar upplýsingar virðast hafa farið illa í markaðinn, enda um mikla lækkun að ræða milli ára gangi spáin eftir.
2. Gert er ráð fyrir að verð á þotueldsneyti (án tillits til varna) verði 540 USD/tonn að meðaltali, gengi EUR gagnvart USD verði að meðaltali 1,07 og gengisvísitala íslensku krónunnar verði 164 að meðaltali á árinu 2017. Vísitalan hefur að undanförnu verið í kringum 160. Eins og oft, er erfitt að spá fyrir um hvernig gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum þróast á þessu ári, en á því síðasta styrktist krónan verulega, eða um 18,4 prósent að meðaltali. Of mikil styrking getur verið erfið fyrir Icelandair.
3. Í tilkynningu Icelandair er sérstaklega vikið að því að gangur í alþjóðstjórnmálum kunni að hafa haft áhrif á gang mála þegar kemur að pöntunum á ferðalögum til Íslands. Ekki er nákvæmlega greint frá því um hvaða hræringar er að ræða. Ferðabann Bandaríkjanna á íbúa sjö ríkja þar sem múslimar eru í meirihluta hefur þó vakið gríðarleg viðbrögð í Bandaríkjunum. The Economist fjallaði meðal annars um möguleg mikil neikvæð áhrif af banninu á ferðaþjónustuna og segir þau geta orðið víðtæk. Fólk muni einfaldlega hræðast það að ferðast út fyrir landið, ekki síst innflytjendur. Allur hræringur í dvalarleyfum geti leitt til hræðslu hjá fólki. Í fyrra komu 415 þúsund Bandarískir ferðamenn til landsins, eða um 24 prósent af heildinni.
4. Stærstu hluthafar félagsins eru lífeyrissjóðir. Stærsti einstaki hluthafinn er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 14,6 prósent. Af fimm stærstu hluthöfunum eru auk Lífeyrissjóðs verzlunarmanna Gildi og LSR með ríflega sjö prósent hlut hvort. Þessi mikla lækkun að undanförnu, upp á meira en hundrað milljarða að markaðsvirði, hefur því verið töluvert högg fyrir þá.
5. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, hefur sagt að þrátt fyrir skammtímasveiflur sem komi sér illa fyrir félagið þá sé félagið með sterka og trausta stöðu til lengdar litið. Hótelstarfsemin gangi vel. Harðnandi sé í samkeppni á flugleiðum til og frá Íslandi og það komi við reksturinn. Þá vinni félagið að því að hagræða í rekstri og auka tekjur, eins og kostur er.