„Þið munið þurfa að bera mig burt í kassa“
Bernie Ecclestone, einn ríkasti maður í heimi, hefur verið settur af sem framkvæmdastjóri yfir Formúlu 1. Hann, eins og svo margir aðrir einvaldar, missti af tækifærinu til að ráða eigin örlögum. Hér er rekið hvernig hann sá tækifæri í óreiðunni.
Bernie Ecclestone, framkvæmdastjóri Formúlu 1 til 40 ára, smávaxinn 86 ára gamall maður sem stundum er kallaður hringadrottinn, og stundum Napóleon sökum misræmis í vexti og völdum, hefur misst vinnuna. „Mikið var!“ var eflaust fyrsta hugsun hörðustu aðdáenda kappakstursins enda hefur það verið með Bernie eins og svo marga einráða að þeir eiga það til að sitja of lengi og missa af tækifærinu á að stjórna eigin örlögum.
Liberty Media, fyrirtæki í eigu bandaríska kapalsjónvarpsmógúlsins John Malone, hefur fest kaup á Formúlu 1. Verð Formúlunnar er um 8 milljarðar Bandaríkjadala, að því er fram kemur í tilkynningu Liberty Media. Og breska framkvæmdastjóranum Bernie Ecclestone hefur verið sagt upp en honum tókst byggja upp viðskiptaveldi í kringum kappakstursmótaröðina á undanförnum 40 árum sem veltir um það bil 1,9 milljörðum Bandaríkjadölu árlega.
En það var alls ekkert fararsnið á hinum aldna milljarðamæringi. Gróðavonin er enn til staðar, jafnvel þó skyn hans á nýja tíma virðist vera löngu horfið. „Ég hef ekki í hyggju að fara neitt.“ „Ég ætla að stjórna hér áfram í önnur 40 ár.“ „Þið munið þurfa að bera mig burt í kassa.“ Þetta voru svör Bernie við spurningum fólks um hvort hann ætlaði ekki að setjast í helgan stein bráðlega.
Bernie er samt ekki alveg horfinn af sjónarsviðinu þó það séu nýir gæjar teknir við sem sirkusstjórar. Bernie verður stjórnarformaður emeritus yfir stjórn Formúlu 1. Titillinn er auðvitað fundinn upp til þess hafa kallinn góðan enda sjá nýir eigendur að ef honum er ekki fundinn réttur staður í veldinu sem hann byggði sjálfur mun hann leggja alla stund á að rífa það niður.
Og hver ætlar annars að hringja beint í Vladimír Pútín þegar það er vesen með framkvæmd rússneska kappakstursins? Einhver amerískur fyrrverandi millistjórnandi með ofboðslegt yfirvaraskegg?
Sama hvað hægt er að segja um Bernie Ecclestone þá er hann sá sem gerði Formúlu 1 (og kappakstur í breiðari skilningi) að því sem mótaröðin er í dag. Bernie tókst, nánast upp á sitt einsdæmi, að gera hobbýsport evrópskra smurolíukalla að peningavél og kveikti áhuga almennings um allan heim á furðulegri jaðarhegðun.
Formúla 1 hefur hins vegar barist við marga kvilla undanfarin ár. Lækkandi áhorfendatölur í sjónvarpi hafa gert eigendur áhyggjufulla og orðið til þess að keppnisliðin eiga erfiðara með að sækja sér styrktaraðila. Minni keppnislið hafa ítrekað kvartað undan háum kostnaði við það eitt að fá keppnisrétt í Formúlu 1 og fara svo flest á hausinn með tilheyrandi þekkingartapi og stöðnun.
Svar Bernie við þessari þróun hefur undanfarna tvo áratugi eða svo verið öfugt við það sem flestir telja vera rétta leið. „Áfram veginn bara. Við þurfum ekkert að vera á Twitter. Við þurfum ekkert að vera á Facebook. Fólkið sem horfir á Formúlu 1 fékk áhuga með því að kveikja á sjónvarpinu, ekki með því að lesa um það á samfélagsmiðlum.“
Allt eru þetta svör hins aldna stjórnanda sem þekkti ekki sinn vitjunartíma, virðist enn vera að berjast við gamlar ógnir og þekkir ekki ný tækifæri.
Sjónvarpið var einmitt það sem gerði Bernie Ecclestone ríkan. Það og Max Mosley, fyrrverandi forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins, en samband þeirra verður rætt betur síðar. Með því að finna upp viðskiptamódelið sem flest sjónvarpssport gengur út á í dag varð Bernie ofboðslega ríkur og öðlaðist gríðarleg völd í kappakstri. En síðan áhorfstölurnar náðu hámarki árið 2008 hafa línuritin sýnt neikvæða þróun. Í apríl í fyrra greindi rekstrarfélag formúlunnar (FOM) frá því að á átta árum hefði áhorfendafjöldinn minnkað um þriðjung. Það voru um 200 milljón áhorfendur sem hættu að horfa reglulega.
Efasemdamenn segja að kappakstur snúist aðeins og eingöngu um að fara í hringi. Þeir hafa hugsanlega eitthvað til síns máls: Undanfarin ár hafa keppnisliðin í Formúlu 1 haft mun meira að segja um þær reglur sem um smíði bílanna gilda og reglurnar á brautinni. Það liggur í augum uppi að þegar keppendur fá að ákveða reglurnar, sérstaklega þegar stærstu liðin hafa mest vægi í ákvarðanatökunni, þá munu reglurnar vera liðunum í hag fremur en áhorfendum.
Bernie Ecclestone varð að áhrifamanni í Formúlu 1 árið 1972 þegar hann hafði fest kaup á Brabham-liðinu. Þá var mótaröðin skipulögð af liðstjórum og keppendum, öryggið nær ekkert og dauðaslys tíð. Í þessari óreiðu sá Bernie tækifæri. Það varð til þess að hann stofnaði samtök keppenda í Formúlu 1 – oftast kölluð FOCA – ásamt fleiri liðstjórum og áhrifamönnum. Bernie tókst vel til sem liðsstjóri og gerði Nelson Piquet að heimsmeistara í tvígang árin 1981 og 1983. Honum gekk hins vegar betur að sannfæra liðstjórana um að veita honum umboð til þess að tala þeirra máli þegar kom að samningum um hver skyldi eignast ágóðann af Formúlu 1.
Ecclestone hafði, í krafti liðanna í FOCA hafið sölu á sjónvarpsútsendingarétti frá Formúlu 1. Bernie hafði með öðrum orðum hafist handa við að breyta þessu úr jaðarsporti í viðskiptatækifæri. Hann virtist vera sá eini sem sá gróðatækifæri í kappakstrinum. Hinir – stjórnendur Ferrari, McLaren, Tyrrell og fleiri þekktra liða – einbeittu sér heldur að kappakstrinum en peningunum.
Venjulega gerðust kaupin á eyrinni þannig að mótshaldarar gerðu samninga við keppnislið um að taka þátt í mótum. Þau lið sem höfðu stjörnuökumenn á sínum snærum fengu örlítið meira en hin liðin sem tóku þátt en í öllum tilvikum var um smápeninga að ræða. Þar var stóra vandamálið sem Ecclestone vildi leysa.
Hann lagði til að gerður yrði sameiginlegur samningur fyrir öll liðin í Formúlu 1 og vegna þess að Ecclestone var þegar þekktur sem kröftugur samningamaður tóku allir þátt. Hann sameinaði þannig Formúlu 1 undir merkjum FOCA og ef einhver mótshaldari taldi sig vera að borga of mikið þá kom enginn að keppa. Ef féð yrði reitt af hendi myndu öll liðin mæta. Þessir hættir borguðu sig margfalt fyrir liðin. Liðsstjórarnir urðu ríkari en þeir gátu nokkru sinni ímyndað sér og í því umhverfi þótti þeim sjálfsagt að Bernie sæi um þessi mál. Það er engin furða að á endanum hélt hann á öllum þráðum í Formúlu 1.
FISA, íþróttahluti alþjóðaakstursíþróttasambandsins FIA, undir stjórn forsetans bráðlynda, Jean-Marie Balestre, þótti vald Ecclestone orðið nógu mikið. Balestre vildi sjálfur hafa völdin, enda forseti yfirvaldsins sem setti reglurnar. Rifrildið milli Ecclestone og Balestre magnaðist stöðugt í það sem síðan hefur verið kallað FISA/FOCA-stríðið. Stríðið endaði í sáttasamningum árið 1981 þegar fyrstu Concorde-samningarnir voru undirritaðir. Jafnvel þó Balestre hafi lýst sig sigurvegara þessa stríðs með því að „hrifsa“ til sín öll völd yfir reglusetningu í Formúlu 1 þá var það Ecclestone sem var raunverulegur sigurvegari.
Með hjálp vinar síns, lögfræðingsins Max Mosley, afsalaði Ecclestone öllu reglusetningarvaldi frá liðunum en allur hagnaður af sölu sjónvarpsréttinda skiptist á þrjá vegu: FIA skyldi fá 30 prósent, liðin (FOCA) skyldu fá 47 prósent og nýstofnað fyrirtæki, Formula One Promotions and Administration í eigu Bernie nokkurs Ecclestone, fengi 23 prósent. Gegn því að fá skerf sjálfur skuldbatt Bernie sig hins vegar til þess að veita liðunum peningaverðlaun í lok árs.
Áratug síðar, eftir að Bernie hafði tekist að gera Formúlu 1 að vinsælum sjónvarpsviðburði um allan heim og sjálfan sig enn auðugari tók, Max Mosley vinur hans og samverkamaður, við af Balestre sem leikstjórnandi og forseti FIA. Nú hafði Bernie alla sína menn í réttum stöðum.
Concorde-samningurinn var endurnýjaður á nokkurra ára fresti og alltaf voru skilmálarnir þeir sömu, að því er talið er enda var það aldrei gert opinbert hvernig hagnaðinum var raunverulega skipt. Þar til árið 2001 þegar Max Mosley samþykkti að selja sýningaréttinn að Formúlu 1 enn á ný til Bernie Ecclestone, fyrir summu sem þótti þá nokkuð sanngjörn; litlar 360 milljónir dollara. En í þessum samningi voru liðin undanskilin. Og sýningarrétturinn yrði í eigu Ecclestone í 100 ár. Hluti þessara samninga voru síðar birtir án leyfis samningsaðila og þykir það nokkuð augljóst í dag að Mosley hafi selt vini sínum réttindin að Formúlu 1 á ofboðslegu undirverði.
„Bíddu bara,“ sagði Ken Tyrrell á grafarbakkanum sumarið 2001. „Bernie á eftir að siga hrægömmunum á þá.“ Tyrrell var einn liðsstjóranna sem gerði Bernie að forsvarsmanni FOCA árið 1974 og þekkti vel til.
Það átti raunar eftir að verða eins og Ken gamli Tyrrell spáði. Bernie seldi sýningarréttinn áfram og hann gekk á milli banka og sjónvarpsfyrirtækja eins og nammiskál áður en CVC Partners eignuðust stærstan hluta í fyrirtækinu utan um Formúlu 1 árið 2005. Salan til CVC var hins vegar ekki vandræðalaus.
Einn starfsmaður bankans sem seldi, Gerhard Gribkowsky, var sakaður um að hafa þegið mútur frá Ecclestone að upphæð 44 milljónir dollara til þess að koma því þannig fyrir að verð hlutarins sem gengi á milli bankans og CVC yrði lægra. Bernie hafði komið því þannig fyrir að hann yrði áfram við stjórnvölinn ef CVC hefði stjórn. Gribkowsky var sakfelldur og síðar átti Ecclestone að koma fyrir dómstóla í Þýskalandi en af einhverjum sökum var málið látið niður falla þegar 100 milljón dollara tékki barst frá Bernie.
„Áætlanagerð til langs tíma er bara vitleysa“
Bernie hélt áfram að gera samningana í Formúlu 1 á meðan Formúla 1 hætti að standast væntingar áhugafólks í síauknum mæli. Dyggustu stuðningsmennirnir eru flestir frá Evrópu en í einlægri gróðavon hefur Bernie gert fleiri og fleiri samninga við auðug ríki sem borga háar fjárhæðir til þess að fá að halda kappakstur. Sem þætti ekkert slæmt ef það væri ekki á kostnað mótanna í Evrópu. Franski kappaksturinn er ekki lengur á dagskrá, evrópski kappaksturinn er nú í Aserbaídsjan, sá breski er sífellt í hættu eins og sá belgíski og þýski. Áhugafólkið í Evrópu kunni ekki við þessar áherslubreytingar.
Mótin í þeim ríkjum þar sem mannréttindi eru fótum troðin hafa einnig verið þyrnir í augum áhugafólks. Barein er dæmi um slíkt ríki en þar hefur mótið verið haldið nær óslitið síðan 2004. Þegar arabíska vorið stóð sem hæst í Miðausturlöndum fór um marga þegar kappaksturinn var haldinn í Barein, enda var Formúlu 1-sirkusinn á vegum stjórnvalda þar í landi.
Og svo fóru áhorfendatölurnar að hrynja um það leyti sem samfélagsmiðlar urðu vinsælir. Fyrst um sinn var Formúla 1 hvergi á internetinu eða þar til fyrir tveimur árum sem gert var átak til þess að kynna Formúlu 1 á þessum miðlum. Allt snerist enn þá um sölu sýningarréttinda til sjónvarpsstöðva.
„Veröldin breytist svo fjári hratt – hver sem talar um það sem er að fara að gerast eftir fjögur ár er hálfviti,“ sagði Bernie einhvern tíma. „Áætlanagerð til langs tíma er bara vitleysa.“ Þessi hugmyndafræði kann að hafa gagnast Ecclestone einhvern tíma en leiddi hugsanlega til þess að hann missti tökin. Eina áætlanagerð virðist hann hafa gert til langs tíma því hárgreiðslan hans hefur ekki breyst ögn síðan fyrstu myndirnar af honum voru teknar.
Framtíðin
CVC Partners ákváðu á endanum að það væri kominn tími til þess að sækja peningana í þennan sjóð og selja réttindin að Formúlu 1 og um leið láta Ecclestone hanga. Liberty Media hefur tekið við og sett þrjá karla í stað Bernie Ecclestone. Chase Carey, fyrrum hægri hönd fjölmiðlamógúlsins Ruperts Murdoch, tekur við sem samningamaður af Ecclestone, Ross Brawn, arkítektinn að árangri Michael Schumacher hjá Ferrari, mun sjá um að eiga við áætlanagerð til framtíðar og Sean Bratches, fyrrverandi framkvæmdastjóri ESPN-íþróttasjónvarpsstöðvarinnar, verður með markaðsmálin á sinni hendi.
Og helstu álitsgjafar og pistlahöfundar eru flestir bjartsýnir á að þessar breytingar muni hafa gott eitt í för með sér. „Nú er hægt að takast á við breytingarnar sem ekki var hægt að framkvæma á meðan skrípaleikurinn stóð yfir,“ skrifar Damien Smith í pistli sínum á vef Autosport.com.
Það er óvíst hvaða breytingar Liberty Media vill gera á Formúlu 1. Ólíklegt er að fátt gerist á næsta keppnistímabili sem hefst í Ástralíu í mars. Löngu samþykktar reglubreytingar um hönnun bílanna árið 2017 munu taka gildi en þær eiga að gera þá „sportlegri“ og mun fljótari í beygjum en bíla síðustu ára. Í lok þessa mánaðar munu flest keppnisliðin afhjúpa nýjustu keppnisbíla sína og hefja prófanir áður en vertíðin hefst.