Um þessar mundir eru fimm mál til meðferðar fyrir Hæstarétti sem teljast til svonefndra hrun mála, og tvö fyrir héraðsdómi. Til hrun mála teljast mál sem tengjast hruni fjármálakerfisins með einum eða öðrum hætti. Tæplega átta og hálft ár eru frá því Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn féllu eins og spilaborg á þremur dögum, 7. til 9. október 2008.
Aðspurður um stöðuna á hrun málum um þessar mundir segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, að 15 mál hafi farið fyrir Hæstarétt og sé lokið, sex mál séu enn í rannsókn og önnur sex í ákærumeðferð, þar sem meta þarf hvort ákært verði í þeim eða ekki. Eitt málanna er í biðstöðu vegna rannsóknar erlendis, að sögn Ólafs Þórs. Fimmtán málum er því lokið og 20 málum ólokið, sé mið tekið af þessu.
Bankastjórar allra bankanna, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafa hlotið fangelsisdóma og eru ennþá til meðferðar mál sem beinast að þeim tveimur fyrrnefndu. Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri með Sigurjóni hjá Landsbankanum, hefur ekki hlotið dóm vegna hrunsmáls og ekki verið ákærður.
Á þriðja tug annarra hafa hlotið dóma í hrunmálunum, sem flest hafa verið mikil að umfangi og verið tímafrek í rannsókn, eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Stærsta málið, með tilliti til fjölda ákærðra, málskjala og umfangs í upphæðum, var markaðsmisnotkunarmál Kaupþings, en í því voru allir 9 ákærðu sakfelldir, en þyngstu dómana hlutu æðstu stjórnendur bankans.
Sakfellt hefur verið í velflestum málunum í Hæstarétti, eins og greint er frá í skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti sérstaks saksóknara frá því í nóvember í fyrra. „Af þeim 806 málum sem embættið tók við lutu 208 að upphaflegu verkefni þess, rannsókn og saksókn mála sem tengdust efnahagshruninu (hrunmál), og lauk það meðferð 173 þeirra, 27 voru í vinnslu þegar embættið var lagt niður og átta biðu afgreiðslu. Alls fóru 46 hrunmál í ákærumeðferð á starfstíma embættis sérstaks saksóknara. Þar af fékkst endanleg dómsniðurstaða í níu málanna. Einum dómi héraðsdóms var unað en átta dómar féllu í Hæstarétti. Sakfellt var að hluta eða öllu leyti í sjö málum en sýknað í tveimur,“ segir í skýrslunni. Þegar allt er talið eru það fimmtán mál, stór og smærri, sem er lokið fyrir Hæstarétti, samkvæmt svari Ólafs Þórs.
Í nýjasta málinu sem telst til hrun mála var sýknað, en í því voru stjórnarmenn og forstjóri SPRON ákærð vegna lánveitingar SPRON til Exista 30. september 2008, eða fyrir tæplega átta og hálfu ári. Einnig var sýknað í héraði í því máli.