Tíu fleiri Íslendingar fluttu til Íslands frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð í fyrra heldur en fluttu til þessara landa. Þetta er í fyrsta sinn frá hruni sem fleiri flytjast heim frá þessum löndum en flytja til þeirra, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Hagstofan tekur saman tölur um brottflutning og aðflutning, en tölurnar fyrir árið 2016 hafa ekki verið birtar í heild sinni. Hins vegar hafa þær verið birtar að hluta fyrir hvern ársfjórðung og því er hægt að reikna út tölurnar fyrir árið.
Miðað við það fluttu 2.130 Íslendingar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á árinu 2016. Á sama tíma fluttu 2.140 Íslendingar til landsins frá þessum þremur löndum, en meirihluti flutninga Íslendinga milli landa er til og frá þessum þremur nágrannaríkjum Íslands.
Danmörk var vinsælasti áfangastaður Íslendinga sem fluttu utan í fyrra, en 990 Íslendingar fluttust búferlum til Danmerkur af þeim 3.250 sem alls fluttu burt frá Íslandi. Hins vegar komu flestir Íslendingar heim frá Noregi í fyrra, 850 talsins af þeim 3.080 sem fluttu heim á árinu. 820 Íslendingar komu einnig heim frá Danmörku í fyrra, svo ekki munaði mjög miklu á löndunum tveimur.
Samkvæmt tölunum var árið í fyrra einnig það ár frá hruni sem fæstir Íslendingar ákváðu að flytja burt frá Íslandi til þessara þriggja landa. Flestir Íslendingar fluttu burt árið 2009, 3.546 talsins.
Fleiri fóru en komu á heildina litið
Þegar litið er á heildarbrottflutning og -aðflutning Íslendinga kemur hins vegar í ljós að fleiri fluttu frá landinu en aftur heim í fyrra. Brottfluttir Íslendingar voru 190 fleiri en aðfluttir, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.
Munurinn á milli þeirra sem flytja burt og heim var mun minni en árið 2015, sem var eitt mesta brottflutningsár frá því að mælingar hófust. Þá fluttu 1265 fleiri Íslendingar úr landi en til landsins. Aðeins fimm sinnum áður frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta. Í öll þau skipti var það í kjölfar kreppuára hér á landi, meðal annars árin 2009-2011. Árið 2015 skar sig töluvert úr af því að ekki ríkti kreppa það ár.
Samkvæmt tölunum fluttu 3080 íslenskir ríkisborgarar til landsins á árinu 2016 en 3250 fluttu burt. Allt árið 2015 fluttu hins vegar 2380 Íslendingar heim á meðan 3875 fluttu burt. Hagstofan hefur spáð því í mannfjöldaspá sinni að þróun mannfjöldans verði áfram með þessum hætti, það er að fleiri flytji burt en heim, á hverju ári fram til ársins 2065.
Bjuggust við meiri aðflutningi en brottflutningi
Mikið hefur verið rætt um aðflutning og brottflutning Íslendinga undanfarin misseri. Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra en nú forsætisráðherra, sagði til að mynda í tvígang síðastliðið haust að í fyrsta skipti í mörg ár væri útlit fyrir að á árinu 2016 myndu fleiri Íslendingar flytjast til landsins en frá landinu.
Þetta byggði Bjarni meðal annars á gögnum frá Vinnumálastofnun, sem setti fram spá fyrir árið. Kjarninn hafði þá samband við Vinnumálastofnun til að fá upplýsingar um það hvernig spáin hefði verið unnin.
Í svari Vinnumálastofnunar kom fram að tölur um brottflutta og aðflutta á fyrri helmingi ársins hafi verið uppreiknaðar til ársloka út frá reynslu undanfarinna ára, það er að um það bil 40 prósent búferlaflutninga Íslendinga komi fram á fyrri helmingi ársins og um 60 prósent á þeim síðari. Það gildi bæði um brottflutta og aðflutta. Því var þess vegna spáð að um 136 fleiri Íslendingar myndu flytja til landsins en frá því. Það var ávallt tekið skýrt fram að aðeins væri um spá að ræða, sem byggði á því að um það bil 40 prósent flytji til og frá landinu á fyrri hluta árs en um það bil 60 prósent á seinni hlutanum.
Undanfarin sex ár hefur þetta hlutfall verið á bilinu 38 prósent til tæplega 44 prósent á fyrri hluta árs hjá aðfluttum, og sömu sögu má segja hjá brottfluttum. Þá gat verið talsverður munur á hlutfalli brottfluttra og aðfluttra innan hvers árs.
Að meðaltali hefur 41,5% aðfluttra komið til landsins á fyrri hluta ársins undanfarin sex ár á meðan 39,8% brottfluttra hafa farið burt á fyrri hluta ársins. Ef uppreiknað væri miðað við þessar tölur væri spáin öðruvísi, og myndi sýna örlítið fleiri brottflutta en aðflutta, eða um 11 manns. Þetta sýnir hversu erfitt er að spá fyrir um flutningsjöfnuðinn þegar munurinn á milli aðfluttra og brottfluttra er orðinn svona lítill.