Hin franska Le Voyage dans la Lune (Ferðin til tunglsins) er ein af fyrstu leiknu kvikmyndunum, gerð af leikstjóranum Georges Méliés árið 1902. Myndin var stærsta framleiðsla þess tíma og bergmálar vel þann mikla áhuga sem mannkynið hefur á geimnum, tunglinu og öðrum plánetum. Rithöfundar fyrri alda á borð við Jules Verne, H.G. Wells, Johannes Kepler og Voltaire skrifuðu bækur um geimferðalög og þegar hvíta tjaldið kom til sögunnar lá beinast við að þessi áhugi yrði festur á filmu.
10. Sunshine (2007)
Breska myndin Sunshine fjallar um för geimfarsins Icarus II til sólarinnar árið 2057. Sólin er að missa kraft sinn og mun brátt deyja og þar með jörðin. För Icarus II er önnur tilraun mannkyns til að koma sólinni aftur í gang með því að varpa risastórri kjarnorkusprengju að henni í von um að það valdi keðjuverkunaráhrifum. Til að hjálpa til við trúverðugleika myndarinnar fékk leikstjórinn Danny Boyle aðstoð frá eðlisfræðingnum Brian Cox, sem Íslendingum er að góðu kunnur úr stjörnufræðiþáttum BBC sem sýndir hafa verið í Ríkissjónvarpinu. Það sem einkennir Sunshine er fyrst og fremst sá gríðarlegi hiti, ljós og kraftur sem áhöfn Icarus II þarf að kljást við. Geimfarið er með öfluga skildi til að verjast ljósinu en það dugar þó ekki til. Myndin hefur einnig sterka heimsenda-tilfinningu enda bregðast persónurnar misvel við og missa jafnvel vitið. Hún er einnig nokkuð heimspekileg á köflum. Sunshine fór framhjá mörgum þegar hún kom út og skilaði ekki hagnaði en hún fékk hins vegar mikið lof gagnrýnenda.
9. Outland (1981)
Outland minnir einna helst á hefðbundinn vestra eða löggumynd nema að því leyti að hún gerist á Io, fjórða stærsta tungli Júpíters, þar sem málmar á borð við títaníum unnir úr jörðu. Io er í raun eins og hver annar námubær í ryðbelti Bandaríkjanna með krám, vændiskonum o.fl. William O´Niel (Sean Connery) er löggan á staðnum sem virðist vera fremur hversdagslegt starf þangað til að undarlegir atburðir fara að gerast. Nokkrir námuverkamenn fremja undarleg sjálfsvíg þar sem þeir virðast vera í mjög annarlegu ástandi. Við nánari rannsókn kemur í ljós að málin tengjast eiturlyfjasölu og spillingu innan stórfyrirtækisins sem rekur námuna. Myndinni hefur oft verið líkt við hinn sígilda vestra High Noon (1952) með Gary Cooper í aðalhlutverki. Líkt og í High Noon þarf O´Niel einn að kljást við hóp bófa á afskekktum stað. Outland hefur þó einnig sterkan boðskap gegn græðgi og áhrifum risafyrirtækja.
8. Forbidden Planet (1956)
Sjötti áratugur síðustu aldar var gullöld í vísindaskáldskap í Hollywood. Þá voru sígildar kvikmyndir á borð við The Thing From Another World (1951), The Day the Earth Stood Still (1951) og The Incredible Shrinking Man (1957) framleiddar. Forbidden Planet var frábrugðin að því leyti að hún gerist alfarið á annarri plánetu. Myndin gerist snemma á 23. öldinni og fjallar um áhöfn disklaga geimskipsins C-57D. Hún ferðast til plánetunnar Altair IV til að leyta að könnunarfari sem fór þangað 20 árum áður. Áhöfnin finnur þó aðeins leiðtoga farsins, doktor Morbius og dóttur hans. Seinna kemur þó í ljós að eitthvað meira býr að baki. Myndin er þekkt fyrir vélmennið Robby sem var á öllum plaggötum til að auglýsa myndina og hefur komið fyrir í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún er samt einna þekktust fyrir tónlistina. Tónlistin var búin til með sérstökum rafbúnaði sem var alger nýlunda á þessum tíma þó að vissulega hafi þeramín verið mikið notað í vísindaskáldskap. Með aðalhlutverk myndarinnar fer sjálfur Leslie Nielsen sem seinna gerði garðinn frægan í Naked Gun gamanmyndaseríunni.
7. Event Horizon (1997)
Event Horizon er hryllingsmynd sem gerist árið 2047, 50 árum eftir að hún var gerð. Eftir að hafa verið týnt í 7 ár birtist könnunarfarið Event Horizon skyndilega í námunda við Neptúnus. Með aðalhlutverk fara Sam Neill og Laurence Fishburne sem leika geimfara á skipinu Lewis and Clark sem fá það hlutverk að rannsaka flaugina. Event Horizon reynist mannlaust en það hafði ratað inn í annað sólkerfi (eða aðra vídd!) og borið með sér eitthvað myrkt afl sem snýst þá gegn áhafnarmeðlimum Lewis and Clark, líkt og þeir séu í draugahúsi. Event Horizon fékk skelfilega gagnrýni á sínum tíma og skilaði miklu tapi í kvikmyndahúsum. Það var að miklu leyti vegna vandamála við framleiðslu myndarinnar, klippingu o.fl. Leikstjórinn Paul W.S. Anderson var undir miklum þrýstingi frá framleiðendunum og var mjög ósáttur við lokaniðurstöðuna. Hún hefur þó fengið marga aðdáendur á síðari árum og telst költari í dag.
6. Interstellar (2014)
Á seinni hluta 21. aldarinnar er jörðin að verða óbyggileg vegna uppskerubresta sem eru þó ekki útskýrðir nánar. Þar sem ekki virðst vera hægt að snúa þróuninni við þarf mannkynið að leita til annarra hnatta til að lifa af. Interstellar fjallar um tvo geimfara (Anne Hathaway og Matthew McConaughey) sem halda í leit að lífvænlegri plánetu. Það gera þau með því að fljúga í gegnum ormagöng sem staðsett eru nálægt Satúrnusi án þess að vita nákvæmlega hvað bíður þeirra hinum megin. Myndin var skrifuð af leikstjóranum Christopher Nolan ásamt bróður hans, Jonathan. En hugmyndina átti Kip Thorn stjarneðlisfræðingur og fyrrum professor við Caltech háskólann í Pasadena. Thorne starfaði sem ráðgjafi við gerð myndarinnar en viðurkenndi þó að margt í henni séu einungis kenningar og ágiskanir. Í myndinni er tekist á við krefjandi eðlisfræði s.s tíma, hraða, fjarlægðir og þyngdarafl en áhorfandinn er samt ekki skilinn eftir. Myndin var að hluta til tekin upp á Íslandi, á Svínafellsjökli og við ósa Skaftár.
5. Apollo 13 (1995)
Myndin er sannsöguleg kraftaverkasaga af björgunarafreki tunglfarsins Apollo 13 árið 1970. Sprenging í vélinni olli því að súrefnið næstum tæmdist og því þurfti að beita óhefðbundnum aðferðum við það að koma geimförunum þremur lifandi aftur heim til jarðar. Þungamiðja myndarinnar eru samskipti áhafnarinnar við stjórnstöðina í Houston. Myndin minnir á köflum á sjónvarpsþáttinn MacGyver þar sem allir reyna að finna einhverja smáhluti í flauginni til að koma henni aftur í gang. Reyndir stjörnuleikarar eins og Tom Hanks, Ed Harris, Gary Sinise, Kevin Bacon og hinn nýlátni Bill Paxton manna hlutverkin af stakri snilld. En það var söguleg nákvæmni leikstjórans Ron Howard sem gerir þessa mynd svo sérstaka. Hann fékk aðstoð NASA við að hafa hvert einasta smáatriði sem réttast……fyrir utan þekktustu setningu myndarinnar sem var örlítið breytt, “Houston, we have a problem”. Sú lína er ekki aðeins ein af þeim allra þekktustu í kvikmyndasögunni, heldur er hún nú notuð í daglegu tali við ýmis tilefni.
4. Silent Running (1972)
Árið 2008 er allt plöntu og dýralíf horfið af jörðinni og plánetan orðin óbærilega heit. Seinustu sýnin eru geymd í stórum geimskipum sem sveima nálægt plánetunni Satúrnusi og ætlunin er að planta þeim þegar tækifæri gefst. Mannkynið þrífst þó vel í stórum hvelfingum og vandamálum á borð við fátækt, stríði og sjúkdómum hefur verið útrýmt. Þegar geimskipin fá skipun frá jörðinni um að tortýma sýnunum með kjarnorkusprengjum gerir Freeman Lowell (Bruce Dern) jurtafræðingur eins manns uppreisn og nær stjórn á einu skipinu. Hann nýtur aðstoðar lítilla og krúttlegra vélmenna, sem leikin voru af fótalausum leikurum. Myndin er afurð hippamenningarinnar og þeirrar umhverfisvitundar sem var að vakna á þeim tíma. Það sést best á því að þjóðlagasöngkonan og hippadrottningin Joan Baez sér um lagasmíð myndarinnar. Myndin er hrein og klár aðvörun um að jurta og dýralíf kunni að hverfa af jörðinni ef fólki stendur á sama.
3. Star Wars: The Empire Strikes Back (1980)
Star Wars er stærsta saga kvikmyndanna og spannar marga áratugi. Skiptar skoðanir eru um hvaða einstaka mynd sé best en flestir aðdáendur seríunnar hygla The Empire Strikes Back umfram aðrar. Myndin er önnur í röðinni í upprunalega þríleiknum og kynnir til söguna margar persónur og staði sem aðdáendurnir elska. Þar á meðal Jedi-meistarann Yoda, flugumanninn Boba Fett og hina frosnu plánetu Hoth. Þá eru mörg af frægustu atriðum seríunnar í myndinni, þar á meðal þegar Logi geimgengill stendur af sér storm inni í kviðarholi reiðskjóta síns og bardaginn við AT-AT gönguvélarnar. Þá er sennilega þekktasta lína kvikmyndasögunnar í myndinni: “I am your father”. Það sem aðskilur The Empire Strikes Back frá hinum myndum seríunnar er hversu myrk hún er. Darth Vader hundeltir andspyrnuna og allt virðist frekar vonlaust. Það eru engir sætir karakterar í myndinni og hún endar ekki á kjánalegri veislu.
2. Gravity (2013)
Gravity er ótrúlegt sjónarspil sem byggir á tæknibrellum og frábærri frammistöðu aðalleikaranna Söndru Bullock og George Clooney sem eru nánast einu leikararnir sem sjást í mynd. Myndin halaði inn sjö óskarsverðlaunum, þ.m.t. fékk Alfonso Cuaron verðlaun sem besti leikstjórinn. Gravity er oft flokkuð sem vísindaskáldskapur en hún ætti frekar að vera flokkuð sem stórslysamynd eða jafnvel spennumynd. Geimfararnir Ryan Stone (Bullock) og Matt Kowalski (Clooney) eru að sjá um viðhald á Hubble sjónaukanum þegar þau fá skilaboð um að brak af gervitunglum sé um það bil að skella á þeim. Myndin fjallar svo um hvernig þau bregðast við því og reyna að komast aftur til jarðar. Auk sjónaukans koma önnur raunveruleg fyrirbæri fyrir, s.s. Alþjóðlega geimstöðin og Tiangong verkefni Kínverja sem verður sett á laggirnar á næstu árum. Myndin er hasar frá fyrstu mínútu en eini dauði punktur myndarinnar er skemmtilegt atriði þar sem Stone nær talstöðvasambandi við Inúítafjölskyldu á Grænlandi (sem hún auðvitað skilur ekki). Jonas Cuaron, sonur Alfonso, leikstýrði stuttmyndinni Aningaaq sem sýnir hina hliðina á því samtali.
1. Alien (1979)
Frakt geimskipið Nostromo er á leið til jarðar árið 2122 þegar það fær dularfull skilaboð frá smástirni. Einn áhafnarmeðlimur finnur egg geimveru sem klekst og vera festist á höfði hans. Seinna, þegar allt virðist fallið í ljúfa löð brýst geimvera út um rifkassa hans og upphefst eltingarleikur innan Nostromo milli hennar og áhafnarinnar. Alien er tímamótaverk, bæði í vísindaskáldskap og hryllingi. Áhrifin frá rithöfundinum H.P. Lovecraft leyna sér ekki bæði í hönnun svissneska listamannsins H.R. Giger á geimverunni sjálfri og andrúmslofti myndarinnar sem er dimmt, hráslagalegt og einmanalegt. Slagorð myndarinnar eru ákaflega lýsandi: “In space no one can hear you scream”. Þá var myndin einnig sú fyrsta sem skartaði sterkri kvenhetju, þ.e. Ellen Ripley (Sigourney Weaver). Ótal framhaldsmyndir hafa verið gerðar af mismunandi leikstjórum sem allir hafa sett sitt handbragð á söguna. Sú nýjasta Alien: Covenant kemur út á þessu ári, leikstýrð af Ridley Scott sem gerði upprunalegu myndina.