Duck and Cover er stuttmynd frá árinu 1951 sem framleidd var af Bandaríkjastjórn og sýnd í öllum grunnskólum um áratuga skeið. Nútímafólk hlær að því hvernig börnum er kennt að forðast vítiselda kjarnorkusprengjunnar með því að fela sig undir borðum. Myndin er þó lýsandi fyrir þann ótta sem fólk bjó við, óttann við tortýmingarstríð heimsveldanna tveggja.
Heimurinn hefur verið mjög öruggur í áratugi… en það gæti hugsanlega breyst.
Flóknari veröld
Þriðja heimstyrjöldin er hugtak sem menn hafa velt fyrir sér í áratugi. Sumir hafa kallað kalda stríðið þriðju heimstyrjöldina þó að Bandaríkjamenn og Sovétmenn hafi aldrei barist með beinum hætti. Nokkrum sinnum mátti þó litlu muna, t.d. í Kóreustríðinu og í Kúbudeilunni. Þá óttuðust menn kjarnorkuvopnin mest og sáu fyrir sér nokkurs konar heimsendi ef þeim yrði beitt. En kjarnorkuógnin hélt sennilega friðinn því ríkin tvö þorðu einfaldlega ekki í stríð.
Eftir fall Sovétríkjanna og uppgang Kína hefur staðan orðið flóknari. Nú líta menn svo á að heimstyrjöld innihaldi a.m.k. tvö af stórveldunum þremur, Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína. En önnur ríki geta auðvitað spilað stóra rullu, þá sérstaklega ríki Evrópusambandsins. Ástandið nú er viðkvæmara en það hefur verið um áratugi.
Samstaða í Evrópu er að minnka með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og uppgangi þjóðernispopúlisma víða um álfuna. Þá hefur grundvöllur Atlantshafsbandalagsins (NATO) verið dreginn í efa með kosningu Donalds Trump en hann hefur gagnrýnt NATO og daðrað við Rússa. Á sama tíma eru sterkir og árásargjarnir leiðtogar við völd víða um heim; leiðtogar á borð við Vladimír Pútín, Kim Jong-un og Recep Erdogan.
Alþjóðavæðingin flækir málin einnig. Heimstyrjöld myndi hafa geigvænleg áhrif á markaði og efnahag flestra ef ekki allra ríkja heims. Þá er tölvuhernaður einnig kafli út af fyrir sig. Samskipti, bankakerfi, innviðir, rafmagn og fleira yrði skotmark í slíku stríði. Heimstyrjöld þarf þó ekki endilega að þýða kjarnorkustríð með tilheyrandi mannfalli og umhverfispjöllum. Ríkin gætu séð hag sinn í því að há „heft stríð“, jafnvel þó að þau sæu fram á það að tapa því. Hvar þriðja heimstyrjöldin gæti brotist út er ómögulegt að fullyrða um. En á fjórum stöðum á jörðinni er ástandið sérstaklega viðkvæmt.
Suður-Kínahaf
Deilur hafa staðið um Suður-Kínahaf og þær (að mestu) mannlausu eyjur og sker sem liggja í því. Kínverjar gera kröfu um stærsta svæðið en Víetnamar, Malasíumenn og Fililpseyingjar gera einnig tilkall til hluta svæðisins. Svæðið er að miklu leyti ókannað en þó má áætla að töluverðar auðlindir geti fundist þar, t.d. olía og jarðgas. Þá er hafsvæðið einnig mikilvæg skipaleið og fiskveiðisvæði.
Á seinustu árum hafa Kínverjar seilst til áhrifa víða um heim og hert á kröfum sínum í Suður-Kínahafi. Þeir hafa reist þar eyjar með landfyllingu þar sem þeir hafa komið fyrir herstöðvum, flotastöðvum og flugvöllum. Aðrar þjóðir sem gera tilkall til svæðisins eru uggandi yfir þróuninni sem og Bandaríkjamenn og nánustu bandamenn þeirra í Austur-Asíu, þ.e. Japanir, Suður Kóreumenn og Taívanir.
Bandaríkjamenn líta á Kínverja sem sinn helsta keppinaut um áhrif á alþjóðagrundvelli og reyna því hvað þeir geta að hamla útþenslu þeirra. Aðkoma Bandaríkjanna á Suður-Kínahafi veltur hins vegar að mestu leyti á því hverja þeir fá í lið með sér. Sögulega séð væri eðlilegast að Bandaríkjamenn myndu beita sér á svæðinu sem nokkurs konar verndarar Filipseyja, fyrrum nýlendu sinnar. En Rodrigo Duterte, forseti Filipseyja, hefur verið allt annað en vinveittur Bandaríkjamönnum. Duterte hefur einnig reynt að ná friðsamlegri lausn á málinu við Kínverja og vill ekki styggja þá um of.
„Við förum í stríð á Suður Kínahafi á næstu 5 til 10 árum. Það er enginn vafi á því.“
– Steve Bannon, æðsti ráðgjafi Donald Trump.
Ef Bandaríkjamenn myndu lenda í átökum á Suður-Kínahafi yrði það sennilega á grundvelli krafna Taívan. Taívan gerir kröfu á svæðið líkt og Kína vegna þess að Taívan gerir kröfu á allt yfirráðasvæði alþýðulýðveldisins. Telja má líklegt að Suður Kóreumenn, Japanir og jafnvel Ástralir myndu styðja Bandaríkjamenn í slíkum hernaði en hann myndi þó að öllum líkindum fara alfarið fram í lofti og á sjó.
Helstu skotmörk yrðu herstöðvar Kínverja á manngerðu eyjunum og svo stór flugmóðuskip, beitiskip og kafbátar. Ólíklegt er að landhernaði yrði beitt í slíku stríði en þó er ekki fyrir það loku skotið að Kínverjar myndu láta gamlan draum rætast og ráðast beint á eyjuna Taívan.
Ólíklegt er að Vestur-Evrópa og Rússland myndu dragast inn í átökin með beinum hætti en áhrifin af slíku stríði yrðu geigvænleg fyrir alla heimsbyggðina. Þó að mannfall yrði ekki mikið og kjarnorkuvopnum ekki beitt þá myndi það raska viðskiptum og efnahag heimsins umtalsvert. Sérstaklega í ljósi þess að viðskiptatengsl Bandaríkjanna og Kína eru mjög náin.
Kóreuskagi
Það hefur ríkt ógnarjafnvægi á Kóreuskaga í 63 ár, eða síðan árið 1953 þegar Kóreustríðinu lauk „de facto“ með vopnahléi. Hvorug þjóðin hefur þó opinberlega sætt sig við þær málalyktir og stefna þeirra beggja er að sameina skagann undir einum fána.
Þetta á sérstaklega við Norður-Kóreu því tilverugrundvöllur landsins virðist byggður á andstöðu við suðurhlutann. Lengi hafði alþjóðasamfélagið litlar áhyggjur af Norður-Kóreumönnum og taldi hótanir þeirra meira í orði en á borði. En eftir að hinn ungi Kim Jong-un tók við völdum af föður sínum, Kim Jong-il, í árslok 2011 hafa menn byrjað að svitna aðeins.
Jong-un er mun herskárri og óútreiknanlegri en faðir hans var og hann ögrar heiminum við hvert tækifæri. Stórar heræfingar og eldflaugaskot hafa aukist til muna og þá hreykir Jong-un sér af kjarnorkugetu landsins. Til að bregðast við þessu hafa Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn eflt viðbúnað sinn til muna. Árlegar heræfingar sem nefnast Key Resolve verða stærri með hverju árinu og komið hefur verið fyrir eldflaugavarnarkerfi sem nefnist THAAD sem hefur getu til þess að skjóta niður kjarnorkuflaugar.
„Þeir dagar eru taldir þegar óvinir okkar gátu kúgað okkur með kjarnorkuvopnum.“
- Kim Jong-un.
Ástandið er vissulega eldfimt en hvorugur aðilinn virðist hafa hag af því að fara í stríð. Suður Kórea er velmegandi ríki sem virðist ekki hafa neinn raunverulegan áhuga á að því að yfirtaka fátæka og heilaþvegna frændur sína eftir mannskætt stríð. Þá er tilvist Norður-Kóreu grundvölluð á ógninni sjálfri en ekki aðgerðum.
Það er óhugsandi að þeir fengju að innlima suðurhlutann. En hvernig gæti stríð þá brotist út? Tvær leiðir virðast líklegastar í þeim efnum. Annars vegar að Kim Jong-un ákveði að ögra suðurhlutanum það mikið að ekki sé hægt annað en að líta á það sem stríðsyfirlýsingu. Hins vegar að Norður Kórea byrji að brotna innanfrá, t.d. í kjölfar hreinsana sem Kim Jong-un stundar grimmt.
Ef borgarastyrjöld brýst út í norðrinu er líklegt að suðrið blandist inn í þau átök. Óvíst er hvernig stríð á Kóreuskaga myndi spilast og skiptir þar mestu stuðningur Kínverja við norðurhlutann, en hann hefur farið mjög dvínandi eftir að Kim Jong-un komst til valda. Bandaríkjamenn eru heldur ekki jafn viljugir að ana út í mikinn landhernað en myndu sjá um allt annað.
Tæknilegir yfirburðir þeirra eru miklir á flestum sviðum en Norður-Kóreumenn hafa hins vegar ýmislegt í pokahorninu. Þeir eiga risastóran landher (eina milljón hermanna) og enn stærra varalið (sex milljónir hermanna) og þó að vopn þeirra séu að miklu leyti úrelt þá er ákveðni þeirra og fórnfýsi sennilega mjög mikil eftir innrætingu frá blautu barnsbeini.
Þá má ekki vanmeta tölvudeild Norður-Kóreu (Deild 121) sem hefur valdið usla í Suður-Kóreu á síðustu árum. Hættulegust eru þó kjarnorkuvopnin, sérstaklega í ljósi þess að höfuðborgin Seoul er rétt sunnan landamæranna. Hún gæti lent illa í árás. Ofan á þetta allt saman eru suður-kóresk stjórnmál ákaflega viðkvæm þessa dagana þar sem nýbúið er að setja forseta landsins af vegna spillingarmála.
Sýrland
Stórveldin Bandaríkin og Rússland virðast vera að há tvö ólík stríð í Sýrlandi. Bandaríkjamenn styðja Kúrda sem aðallega berjast gegn vígasveitum Íslamska ríkisins. Rússar hafa hins vegar barist þétt við hlið einræðisherrans Bashar al-Assad við uppreisnarmenn (aðra en Íslamska ríkið). Bæði stórveldin beita sér þó á tiltölulega litlu svæði í norðurhluta landsins. Það sem flækir málið enn frekar er nærvera Tyrkja handan landamæranna.
Tyrkir hafa mikilla hagsmuna að gæta í Sýrlandi og hafa stutt við bakið á uppreisnarmönnum. Þeir eru því hvorki í náðinni hjá al-Assad né Rússum, sérstaklega ekki eftir að þeir skutu niður rússneska orrustuflugvél í nóvembermánuði árið 2015.
Tyrkir og Rússar hafa deilt um nákvæmlega hvar flugvélin var þegar hún var skotin niður, þ.e. hvort hún var inn í tyrkneskri eða sýrlenskri lofthelgi. Því er ljóst að ekki má mikið út af bregða á svo litlu svæði, hið minnsta slys gæti valdið alvarlegri milliríkjadeilu. Samband Bandaríkjanna og Tyrklands er ennþá flóknara.
„Eins og í fortíðinni, er það fullkomlega mögulegt að þriðja heimstyrjöldin gæti hafist með smávægilegum atburði, eða jafnvel af slysni.“- P.W. Singer, hernaðarsérfræðingur
Tyrkir hafa lengi verið einir helstu bandamenn Bandaríkjamanna og unnið með þeim innan NATO. En stuðningur Bandaríkjamanna við Kúrda, sem Tyrkir telja hryðjuverkamenn, hefur rýrt sambandið milli ríkjanna. Eftir að Trump komst til valda í janúar varð refskákin í norðurhluta Sýrlands enn flóknari og viðkvæmari því að Trump, Pútín og Erdogan eru allir djarfir og óútreiknanlegir pópúlistar.
Trump leggur meginárherslu á að sigra Íslamska ríkið og hefur aukið umsvif Bandaríkjanna á svæðinu. Rússar styðja al-Assad í baráttu hans gegn öllum óvinaherjum, þar á meðal Kúrdum. Það er því auðveldlega hægt að sjá fyrir sér atvik þar sem Rússar skjóta niður bandaríska flugvél.
Bandaríkjamenn myndu svara því með einhverjum hætti og því gætu opnir bardagar milli landanna tveggja raunverulega átt sér stað. Það þarf ekki að þýða að Bandaríkjamenn og Rússar beiti sér gegn hvorum öðrum annars staðar á hnettinum en það gæti framlengt og flækt enn frekar hið skelfilega stríð í Sýrlandi.
Eystrasalt
Árið 2008 gersigruðu Rússar Georgíumenn í stríði á aðeins örfáum dögum og árið 2014 sýndu þeir Úkraínumönnum klærnar þegar þeir innlimuðu Krímskaga og hófu stríðið í austurhéraðinu Donbass sem mallar enn. Þessi tvö fyrrum Sovétlýðveldi höfðu sýnt vestrænu samstarfi áhuga og voru á flótta undan áhrifum Rússa.
Plan Pútíns virkaði því löndin tvö munu hvorki ganga inn í ESB né NATO á meðan hluti þeirra er hernuminn af Rússum. Margir telja að næsta skref Pútíns sé í Eystrasaltinu en það er þó mun áhættusamara því að Eystrasaltslöndin þrjú hafa verið í Evrópusambandinu og NATO síðan árið 2004.
En þetta eru þó ein meginástæðan fyrir því að þessi ríki eru tilvalin skotmörk fyrir Rússa. Í fimmtu grein NATO-sáttmálans segir að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll og það er í raun grundvöllur sambandsins. Ef Pútín tækist að gera þessa grein marklausa yrði sambandið svo gott sem ónýtt. En Pútín getur vitaskuld ekki lýst opinberlega yfir stríði og ráðist á löndin, hann verður að vera klókari en það.
Önnur ástæða fyrir því að Eystrasaltslöndin eru svo hentugt skotmark er sú að þar eru stórir rússneskumælandi minnihlutar. Sérstaklega í Eistlandi og Lettlandi þar sem um fjórðungur íbúanna eru Rússar en 6% í Litháen.
„Sá sem situr í Kreml og metur áhættuna á því að ráðast á Eystrasaltið gæti hugsað með sér: „Já, ég kemst upp með það.“
- Richard Shirreff, höfundur bókarinnar 2017: War With Russia.
Stríðið gæti byrjað á svipaðan hátt og í Austur-Úkraínu, þ.e. að einhver atburður gæti átt sér stað sem hryndi að stað mótmælum eða uppþotum hjá rússneska minnihlutanum. Þetta myndi svo þróast út í vopnuð átök, jafnvel borgarastyrjöld og Rússar myndu að sjálfsögðu aðstoða minnihlutann með vopnum og jafnvel mannafla án þess þó að viðurkenna það. Einnig myndu Rússar bjóðast til þess að senda friðargæslulið á svæðið.
Hvernig Evrópa og Bandaríkin bregðast við er lykilatriði. Hér ber að horfa til Bandaríkjanna, en Trump hefur verið frekar neikvæður út í NATO samstarfið og tregur við að binda herafla í nýjum stríðum, og svo Póllands. Það eru fá ríki á jörðinni jafn andsnúin áhrifum Rússa og Pólland sem eiga landamæri að bæði Rússlandi og Litháen.
Ef stríð brytist út í Eystrasaltinu myndu leiðtogar Póllands berjast með kjafti og klóm fyrir því að NATO og Evrópusambandið beittu sér með beinum hætti. Ef Vesturveldin hika er ekki loku fyrir það skotið að Pólverjar beiti sér sjálfir með beinum hætti í Eystrasaltinu og jafnvel í rússneska eylandinu Kalíningrad og þá er fjandinn laus. En ef Vesturveldin og Pólland halda að sér höndum og fimmta greinin verður dauður bókstafur þá gætu önnur ríki Austur-Evrópu (t.d. Ungverjaland, Rúmenía, Slóvakía) farið að hugsa sinn gang og jafnvel leitað undir verndarvæng Pútíns.