Hvar hefst þriðja heimstyrjöldin?

Spennuþrungið andrúmsloft er nú í alþjóðastjórnmálum. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur veltir fyrir sér hvort það sé komin upp staða sem geti hleypt af stað heimstyrjöld.

Kristinn Haukur Guðnason
Trump, Putin, Jinping, Kim
Auglýsing

Duck and Cover er stutt­mynd frá árinu 1951 sem fram­leidd var af Banda­ríkja­stjórn og sýnd í öllum grunn­skólum um ára­tuga skeið. Nútíma­fólk hlær að því hvernig börnum er kennt að forð­ast vít­iselda kjarn­orku­sprengj­unnar með því að fela sig undir borð­um. Myndin er þó lýsandi fyrir þann ótta sem fólk bjó við, ótt­ann við tortým­ing­ar­stríð heims­veld­anna tveggja.

Heim­ur­inn hefur verið mjög öruggur í ára­tugi… en það gæti hugs­an­lega breyst.

Flókn­ari ver­öld

Þriðja heim­styrj­öldin er hug­tak sem menn hafa velt fyrir sér í ára­tugi. Sumir hafa kallað kalda stríðið þriðju heim­styrj­öld­ina þó að Banda­ríkja­menn og Sov­ét­menn hafi aldrei barist með beinum hætti. Nokkrum sinnum mátti þó litlu muna, t.d. í Kóreu­stríð­inu og í Kúbu­deil­unni. Þá ótt­uð­ust menn kjarn­orku­vopnin mest og sáu fyrir sér nokk­urs konar heimsendi ef þeim yrði beitt. En kjarn­orkuógnin hélt senni­lega frið­inn því ríkin tvö þorðu ein­fald­lega ekki í stríð.



Eftir fall Sov­ét­ríkj­anna og upp­gang Kína hefur staðan orðið flókn­ari. Nú líta menn svo á að heim­styrj­öld inni­haldi a.m.k. tvö af stór­veld­unum þrem­ur, Banda­ríkj­un­um, Rúss­landi og Kína. En önnur ríki geta auð­vitað spilað stóra rullu, þá sér­stak­lega ríki Evr­ópu­sam­bands­ins. Ástandið nú er við­kvæmara en það hefur verið um ára­tugi.

Auglýsing

Sam­staða í Evr­ópu er að minnka með útgöngu Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu og upp­gangi þjóð­ern­ispopúl­isma víða um álf­una. Þá hefur grund­völlur Atl­ants­hafs­banda­lags­ins (NATO) verið dreg­inn í efa með kosn­ingu Don­alds Trump en hann hefur gagn­rýnt NATO og daðrað við Rússa. Á sama tíma eru sterkir og árás­ar­gjarnir leið­togar við völd víða um heim; leið­togar á borð við Vla­dimír Pútín, Kim Jong-un og Recep Erdog­an.

Alþjóða­væð­ingin flækir málin einnig. Heim­styrj­öld myndi hafa geig­væn­leg áhrif á mark­aði og efna­hag flestra ef ekki allra ríkja heims. Þá er tölvu­hern­aður einnig kafli út af fyrir sig. Sam­skipti, banka­kerfi, inn­við­ir, raf­magn og fleira yrði skot­mark í slíku stríði. Heim­styrj­öld þarf þó ekki endi­lega að þýða kjarn­orku­stríð með til­heyr­andi mann­falli og umhverfi­spjöll­um. Ríkin gætu séð hag sinn í því að há „heft stríð“, jafn­vel þó að þau sæu fram á það að tapa því. Hvar þriðja heim­styrj­öldin gæti brot­ist út er ómögu­legt að full­yrða um. En á fjórum stöðum á jörð­inni er ástandið sér­stak­lega við­kvæmt.

Suð­ur­-Kína­haf

Staðsetning Suður-Kínahafs er mikilvæg vegna siglingaleiða og aukins vaxtar Kína sem viðskiptaveldis.

Deilur hafa staðið um Suð­ur­-Kína­haf og þær (að mestu) mann­lausu eyjur og sker sem liggja í því. Kín­verjar gera kröfu um stærsta svæðið en Víetna­mar, Malasíu­menn og Fililpsey­ingjar gera einnig til­kall til hluta svæð­is­ins. Svæðið er að miklu leyti ókannað en þó má áætla að tölu­verðar auð­lindir geti fund­ist þar, t.d. olía og jarð­gas. Þá er haf­svæðið einnig mik­il­væg skipa­leið og fisk­veiði­svæð­i. 

Á sein­ustu árum hafa Kín­verjar seilst til áhrifa víða um heim og hert á kröfum sínum í Suð­ur­-Kína­hafi. Þeir hafa reist þar eyjar með land­fyll­ingu þar sem þeir hafa komið fyrir her­stöðv­um, flota­stöðvum og flug­völl­um. Aðrar þjóðir sem gera til­kall til svæð­is­ins eru ugg­andi yfir þró­un­inni sem og Banda­ríkja­menn og nán­ustu banda­menn þeirra í Aust­ur-Asíu, þ.e. Jap­an­ir, Suður Kóreu­menn og Taí­v­an­ir.

Banda­ríkja­menn líta á Kín­verja sem sinn helsta keppi­naut um áhrif á alþjóða­grund­velli og reyna því hvað þeir geta að hamla útþenslu þeirra. Aðkoma Banda­ríkj­anna á Suð­ur­-Kína­hafi veltur hins vegar að mestu leyti á því hverja þeir fá í lið með sér. Sögu­lega séð væri eðli­leg­ast að Banda­ríkja­menn myndu beita sér á svæð­inu sem nokk­urs konar vernd­arar Fil­ips­eyja, fyrrum nýlendu sinn­ar. En Rodrigo Duter­te, for­seti Fil­ips­eyja, hefur verið allt annað en vin­veittur Banda­ríkja­mönn­um. Duterte hefur einnig reynt að ná frið­sam­legri lausn á mál­inu við Kín­verja og vill ekki styggja þá um of.

„Við förum í stríð á Suður Kína­hafi á næstu 5 til 10 árum. Það er eng­inn vafi á því.“

– Steve Bann­on, æðsti ráð­gjafi Don­ald Trump.

Ef Banda­ríkja­menn myndu lenda í átökum á Suð­ur­-Kína­hafi yrði það senni­lega á grund­velli krafna Taí­v­an. Taí­van gerir kröfu á svæðið líkt og Kína vegna þess að Taí­van gerir kröfu á allt yfir­ráða­svæði alþýðu­lýð­veld­is­ins. Telja má lík­legt að Suður Kóreu­menn, Jap­anir og jafn­vel Ástr­alir myndu styðja Banda­ríkja­menn í slíkum hern­aði en hann myndi þó að öllum lík­indum fara alfarið fram í lofti og á sjó.

Helstu skot­mörk yrðu her­stöðvar Kín­verja á mann­gerðu eyj­unum og svo stór flug­móðu­skip, beiti­skip og kaf­bát­ar. Ólík­legt er að land­hern­aði yrði beitt í slíku stríði en þó er ekki fyrir það loku skotið að Kín­verjar myndu láta gamlan draum ræt­ast og ráð­ast beint á eyj­una Taí­v­an.

Ólík­legt er að Vest­ur­-­Evr­ópa og Rúss­land myndu drag­ast inn í átökin með beinum hætti en áhrifin af slíku stríði yrðu geig­væn­leg fyrir alla heims­byggð­ina. Þó að mann­fall yrði ekki mikið og kjarn­orku­vopnum ekki beitt þá myndi það raska við­skiptum og efna­hag heims­ins umtals­vert. Sér­stak­lega í ljósi þess að við­skipta­tengsl Banda­ríkj­anna og Kína eru mjög náin.

Kóreu­skagi

Norður-Kórea hefur ógnað enn frekar á undanförnum árum, meðal annars með flugskeytaskotum í hafið beggja vegna landsins.

Það hefur ríkt ógn­ar­jafn­vægi á Kóreu­skaga í 63 ár, eða síðan árið 1953 þegar Kóreu­stríð­inu lauk „de facto“ með vopna­hléi. Hvorug þjóðin hefur þó opin­ber­lega sætt sig við þær mála­lyktir og stefna þeirra beggja er að sam­eina skag­ann undir einum fána.

Þetta á sér­stak­lega við Norð­ur­-Kóreu því til­veru­grund­völlur lands­ins virð­ist byggður á and­stöðu við suð­ur­hlut­ann. Lengi hafði alþjóða­sam­fé­lagið litlar áhyggjur af Norð­ur­-Kóreu­mönnum og taldi hót­anir þeirra meira í orði en á borði. En eftir að hinn ungi Kim Jong-un tók við völdum af föður sínum, Kim Jong-il, í árs­lok 2011 hafa menn byrjað að svitna aðeins.

Jong-un er mun her­skárri og óút­reikn­an­legri en faðir hans var og hann ögrar heim­inum við hvert tæki­færi. Stórar her­æf­ingar og eld­flauga­skot hafa auk­ist til muna og  þá hreykir Jong-un sér af kjarn­orku­getu lands­ins. Til að bregð­ast við þessu hafa Banda­ríkja­menn og Suð­ur­-Kóreu­menn eflt við­búnað sinn til muna. Árlegar her­æf­ingar sem nefn­ast Key Resolve verða stærri með hverju árinu og komið hefur verið fyrir eld­flauga­varn­ar­kerfi sem nefn­ist THAAD sem hefur getu til þess að skjóta niður kjarn­orkuflaug­ar. 

„Þeir dagar eru taldir þegar óvinir okkar gátu kúgað okkur með kjarn­orku­vopn­um.“

- Kim Jong-un.

Ástandið er vissu­lega eld­fimt en hvor­ugur aðil­inn virð­ist hafa hag af því að fara í stríð. Suður Kórea er vel­meg­andi ríki sem virð­ist ekki hafa neinn raun­veru­legan áhuga á að því að yfir­taka fátæka og heila­þvegna frændur sína eftir mann­skætt stríð. Þá er til­vist Norð­ur­-Kóreu grund­völluð á ógn­inni sjálfri en ekki aðgerð­um.

Það er óhugs­andi að þeir fengju að inn­lima suð­ur­hlut­ann. En hvernig gæti stríð þá brot­ist út? Tvær leiðir virð­ast lík­leg­astar í þeim efn­um. Ann­ars vegar að Kim Jong-un ákveði að ögra suð­ur­hlut­anum það mikið að ekki sé hægt annað en að líta á það sem stríðs­yf­ir­lýs­ingu. Hins vegar að Norður Kórea byrji að brotna inn­an­frá, t.d. í kjöl­far hreinsana sem Kim Jong-un stundar grimmt.

Ef borg­ara­styrj­öld brýst út í norðr­inu er lík­legt að suðrið bland­ist inn í þau átök. Óvíst er hvernig stríð á Kóreu­skaga myndi spil­ast og skiptir þar mestu stuðn­ingur Kín­verja við norð­ur­hlut­ann, en hann hefur farið mjög dvín­andi eftir að Kim Jong-un komst til valda. Banda­ríkja­menn eru heldur ekki jafn vilj­ugir að ana út í mik­inn land­hernað en myndu sjá um allt ann­að.

Tækni­legir yfir­burðir þeirra eru miklir á flestum sviðum en Norð­ur­-Kóreu­menn hafa hins vegar ýmis­legt í poka­horn­inu. Þeir eiga risa­stóran land­her (eina milljón her­manna) og enn stærra vara­lið (sex millj­ónir her­manna) og þó að vopn þeirra séu að miklu leyti úrelt þá er ákveðni þeirra og fórn­fýsi senni­lega mjög mikil eftir inn­ræt­ingu frá blautu barns­beini.

Þá má ekki van­meta tölvu­deild Norð­ur­-Kóreu (Deild 121) sem hefur valdið usla í Suð­ur­-Kóreu á síð­ustu árum. Hættu­leg­ust eru þó kjarn­orku­vopn­in, sér­stak­lega í ljósi þess að höf­uð­borgin Seoul er rétt sunnan landamær­anna. Hún gæti lent illa í árás. Ofan á þetta allt saman eru suð­ur­-kóresk stjórn­mál ákaf­lega við­kvæm þessa dag­ana þar sem nýbúið er að setja for­seta lands­ins af vegna spill­ing­ar­mála.

Sýr­land

Það sem hófst sem borgarastyrjöld er orðið að flókinni milliríkjadeilu milli stærstu og áhrifamestu ríkja heims.

Stór­veldin Banda­ríkin og Rúss­land virð­ast vera að há tvö ólík stríð í Sýr­landi. Banda­ríkja­menn styðja Kúrda sem aðal­lega berj­ast gegn víga­sveitum Íslamska rík­is­ins. Rússar hafa hins vegar barist þétt við hlið ein­ræð­is­herr­ans Bashar al-Assad við upp­reisn­ar­menn (aðra en Íslamska rík­ið). Bæði stór­veldin beita sér þó á til­tölu­lega litlu svæði í norð­ur­hluta lands­ins. Það sem flækir málið enn frekar er nær­vera Tyrkja handan landamær­anna. 

Tyrkir hafa mik­illa hags­muna að gæta í Sýr­landi og hafa stutt við bakið á upp­reisn­ar­mönn­um. Þeir eru því hvorki í náð­inni hjá al-Assad né Rússum, sér­stak­lega ekki eftir að þeir skutu niður rúss­neska orr­ustuflug­vél í nóv­em­ber­mán­uði árið 2015. 

Tyrkir og Rússar hafa deilt um nákvæm­lega hvar flug­vélin var þegar hún var skotin nið­ur, þ.e. hvort hún var inn í tyrk­neskri eða sýr­lenskri loft­helgi. Því er ljóst að ekki má mikið út af bregða á svo litlu svæði, hið minnsta slys gæti valdið alvar­legri milli­ríkja­deilu. Sam­band Banda­ríkj­anna og Tyrk­lands er ennþá flókn­ara.

„Eins og í for­tíð­inni, er það full­kom­lega mögu­legt að þriðja heim­styrj­öldin gæti haf­ist með smá­vægi­legum atburði, eða jafn­vel af slysni.“

- P.W. Sin­ger, hernaðarsérfræðingur

Tyrkir hafa lengi verið einir helstu banda­menn Banda­ríkja­manna og unnið með þeim innan NATO. En stuðn­ingur Banda­ríkja­manna við Kúr­da, sem Tyrkir telja hryðju­verka­menn, hefur rýrt sam­bandið milli ríkj­anna. Eftir að Trump komst til valda í jan­úar varð ref­skákin í norð­ur­hluta Sýr­lands enn flókn­ari og við­kvæm­ari því að Trump, Pútín og Erdogan eru allir djarfir og óút­reikn­an­legir pópúlist­ar.

Trump leggur meg­in­ár­herslu á að sigra Íslamska ríkið og hefur aukið umsvif Banda­ríkj­anna á svæð­inu. Rússar styðja al-Assad í bar­áttu hans gegn öllum óvina­herj­um, þar á meðal Kúr­d­um. Það er því auð­veld­lega hægt að sjá fyrir sér atvik þar sem Rússar skjóta niður banda­ríska flug­vél.

Banda­ríkja­menn myndu svara því með ein­hverjum hætti og því gætu opnir bar­dagar milli land­anna tveggja raun­veru­lega átt sér stað. Það þarf ekki að þýða að Banda­ríkja­menn og Rússar beiti sér gegn hvorum öðrum ann­ars staðar á hnett­inum en það gæti fram­lengt og flækt enn frekar hið skelfi­lega stríð í Sýr­landi.

Eystra­salt

Eistrasaltslöndin sem urðu sjálfstæð eftir fall Sovétríkjanna eru skíthrædd um að Rússar vilji aukin áhrif á þeirra landsvæði.

Árið 2008 ger­sigr­uðu Rússar Georg­íu­menn í stríði á aðeins örfáum dögum og árið 2014 sýndu þeir Úkra­ínu­mönnum klærnar þegar þeir inn­lim­uðu Krím­skaga og hófu stríðið í aust­ur­hér­að­inu Don­bass sem mallar enn. Þessi tvö fyrrum Sov­étlýð­veldi höfðu sýnt vest­rænu sam­starfi áhuga og voru á flótta undan áhrifum Rússa. 

Plan Pútíns virk­aði því löndin tvö munu hvorki ganga inn í ESB né NATO á meðan hluti þeirra er her­num­inn af Rúss­um. Margir telja að næsta skref Pútíns sé í Eystra­salt­inu en það er þó mun áhættu­sam­ara því að Eystra­salts­löndin þrjú hafa verið í Evr­ópu­sam­band­inu og NATO síðan árið 2004.



En þetta eru þó ein meg­in­á­stæðan fyrir því að þessi ríki eru til­valin skot­mörk fyrir Rússa. Í fimmtu grein NATO-sátt­mál­ans segir að árás á eitt aðild­ar­ríki jafn­gildi árás á þau öll og það er í raun grund­völlur sam­bands­ins. Ef Pútín tæk­ist að gera þessa grein marklausa yrði sam­bandið svo gott sem ónýtt. En Pútín getur vita­skuld ekki lýst opin­ber­lega yfir stríði og ráð­ist á lönd­in, hann verður að vera klók­ari en það. 

Önnur ástæða fyrir því að Eystra­salts­löndin eru svo hent­ugt skot­mark er sú að þar eru stórir rúss­nesku­mæl­andi minni­hlut­ar. Sér­stak­lega í Eist­landi og Lett­landi þar sem um fjórð­ungur íbú­anna eru Rússar en 6% í Lit­háen.

„Sá sem situr í Kreml og metur áhætt­una á því að ráð­ast á Eystra­saltið gæti hugsað með sér: „Já, ég kemst upp með það.“

- Ric­hard Shir­reff, höf­undur bók­ar­innar 2017: War With Russia.

Stríðið gæti byrjað á svip­aðan hátt og í Aust­ur-Úkra­ínu, þ.e. að ein­hver atburður gæti átt sér stað sem hryndi að stað mót­mælum eða upp­þotum hjá rúss­neska minni­hlut­an­um. Þetta myndi svo þró­ast út í vopnuð átök, jafn­vel borg­ara­styrj­öld og Rússar myndu að sjálf­sögðu aðstoða minni­hlut­ann með vopnum og jafn­vel mann­afla án þess þó að við­ur­kenna það. Einnig myndu Rússar bjóð­ast til þess að senda frið­ar­gæslu­lið á svæð­ið.

Hvernig Evr­ópa og Banda­ríkin bregð­ast við er lyk­il­at­riði. Hér ber að horfa til Banda­ríkj­anna, en Trump hefur verið frekar nei­kvæður út í NATO sam­starfið og tregur við að binda her­afla í nýjum stríð­um, og svo Pól­lands. Það eru fá ríki á jörð­inni jafn andsnúin áhrifum Rússa og Pól­land sem eiga landa­mæri að bæði Rúss­landi og Lit­háen.

Ef stríð bryt­ist út í Eystra­salt­inu myndu leið­togar Pól­lands berj­ast með kjafti og klóm fyrir því að NATO og Evr­ópu­sam­bandið beittu sér með beinum hætti. Ef Vest­ur­veldin hika er ekki loku fyrir það skotið að Pól­verjar beiti sér sjálfir með beinum hætti í Eystra­salt­inu og jafn­vel í rúss­neska eyland­inu Kalín­ingrad og þá er fjand­inn laus. En ef Vest­ur­veldin og Pól­land halda að sér höndum og fimmta greinin verður dauður bók­stafur þá gætu önnur ríki Aust­ur-­Evr­ópu (t.d. Ung­verja­land, Rúm­en­ía, Slóvakía) farið að hugsa sinn gang og jafn­vel leitað undir vernd­ar­væng Pútíns.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None