Annan sunnudaginn í röð bárust stórfréttir. Á þeim fyrri var tilkynnt um mikla losun hafta og nýtt samkomulag við aflandskrónueigendur. Í gær var tilkynnt um að þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs-bankinn hefðu saman keypt 29,18 prósent hlut í íslenskum banka, Arion banka.
Frá því í febrúar hefur legið fyrir að fram undan væru tíðindi varðandi eignarhaldið á Arion banka. Stærstu eigendur Kaupþings, vogunarsjóðir með höfuðstöðvar í New York, voru að reyna að fá íslenska lífeyrissjóði með sér í að kaupa helmingshlut í bankanum. Lagt var upp með að þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og LSR, myndu leiða kaupin fyrir hönd lífeyrissjóðanna og taka stærstan hlut. Hugmyndin var að lífeyrissjóðirnir myndu taka 25-30 prósent hlut í Arion banka en vogunarsjóðirnir – Taconic Capital og Och-Ziff Capital og jafnvel fleiri – 20-25 prósent hlut.
Í lok síðustu viku var orðið nokkuð ljóst að líkurnar á aðkomu íslensku lífeyrissjóðanna, sem ætluðu sér að greiða fyrir sinn hlut með ríkisskuldabréfum, var í besta falli í uppnámi. Morgunblaðið greindi þá frá því að forsvarsmenn sjóðanna hefðu ekki fengið að sjá áreiðanleikakönnun sem gerð hafði verið á rekstri og efnahag Arion banka.
Það varð svo ljóst á sunnudag að lífeyrissjóðirnir kæmu ekki að kaupunum í þessari umferð. Þá var skyndilega tilkynnt að vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital og Attestor Capital hefðu ásamt fjárfestingabankanum Goldman Sachs keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna í lokuðu útboði. Fjárfestarnir fá einnig kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar á verði sem hefur ekki verið uppgefið, en er sagt hærra en það sem þeir greiddu í þessari lotu.
Ekkert vitað hverjir þetta eru
Þótt gefin hafi verið upp nöfn þeirra vogunarsjóða sem voru að kaupa hlut í íslenskum viðskiptabanka, og nafn fjárfestingabankans Goldman Sachs, þá liggur ekkert fyrir um hverjir það eru sem voru að kaupa Arion banka. Þ.e. hverjir séu endanlegir eigendur þess fjármagns sem verið er að nota.
Fyrir því eru fordæmi hérlendis að vogunarsjóðir megi eiga fjármálafyrirtæki, án þess að tilgreint sé hverjir endanlegir eigendur þeirra séu. Það var til að mynda leynd yfir eigendum Straums fjárfestingabanka, sem voru lengi vel faldir á bak við dótturfélag þýska bankans Deutsche Bank í Hollandi. Þrátt fyrir það fékk Straumur fjárfestingabankaleyfi árið 2011. Landsmenn fengu hins vegar ekki að vita hverjir áttu bankann.
Í upphafi árs 2017 var vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, dótturfélag Davidson Kempner, metin hæfur til að fara með 100 prósent virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu Lýsingu.
Í samtali við Morgunblaðið 31. janúar síðastliðinn varaði Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, þó við því að of víðtækar ályktanir væru dregnar um fordæmisgildi þeirra ákvörðunar. Stutta svarið er að ef þetta væri viðskiptabanki þá þurfa ekki endilega sömu viðmið að gilda,“ sagði Jón Þór aðspurður um fordæmisgildið. Í svari við fyrirspurn Kjarnans í febrúar sagði Fjármálaeftirlitið þó að erlendir vogunarsjóðir megi eiga hlut í íslenskum viðskiptabanka svo lengi sem ákveðin skilyrði séu uppfyllt.
Og frá og með deginum í gær þá eiga þeir stóran hlut í slíkum.
Ekki mjög opið né gagnsætt
Ef það var eitt þema sem var mjög ríkjandi í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar þá var það að nú myndi allt verða opið og gegnsætt. Vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu áttu að vera opin og gagnsæ. Stjórnarhættir áttu að verða gagnsæir. Áhersla yrði lögð á opið og gagnsætt söluferli eigna. Og þegar kæmi að framtíð bankakerfisins – ríkið á tvo banka að nánast öllu leyti og 13 prósent hlut í Arion banka – þá yrði áhersla „lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds.“
Varðandi söluna á Arion banka er þó fátt opið og gagnsætt. Hlutur Kaupþings var seldur í lokuðu ferli sem virðist fyrst og síðasta hafa staðið hluthöfum félagsins til boða. Nánast engin gögn hafa verið birt opinberlega um þessi risastóru kaup. Og það liggur auðvitað ekkert fyrir um hverjir eru endanlegir eigendur þeirra aðila sem tilgreindir hafa verið sem kaupendur.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Alþingi þann 27. febrúar að Seðlabanki Íslands hefði kannað hvort einhverjir aðrir standi að baki vogunarsjóðunum sem hafa nú keypt stóran hlut í Arion banka en tilgreint var. „Ég taldi það vera afar mikilvægt að vita hvort þetta væru raunverulega þessir aðilar, sem allir eru erlendir, eða hvort þarna stæðu einhverjir íslenskir aðilar að baki. En mér er sagt að svo sé ekki.“
Það er vert að minnast á að Seðlabanki Íslands hefur ekki þótt standa sig að öllu leyti sem skildi þegar kemur að því að kanna uppruna þeirra sem eiga viðskipti við hann.
Starfshópur sem vann skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var fyrr á þessu ári, velti því meðal annars upp hvort að fjárfestingarleið Seðlabankans hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða.“
Þá greindi Kjarninn frá því nýverið að í ákæru gegn meintum fjársvikara megi sjá hvernig hann nýtti sér fjármagnshöftin til að hagnast. Maðurinn bjó til sýndarviðskipti til að koma hundruð milljóna út úr höftunum og kom síðan aftur til baka með peninganna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Seðlabankinn gerði engar athugasemdir við hátterni mannsins á meðan að á því stóð, þrátt fyrir að hann eigi að gera kröfu um réttar upplýsingar um uppruna alls fjármagns sem kom með þessum hætti inn í íslenskt efnahagslíf.
Goldman Sachs ekki talinn líklegur til að kaupa banka
Í tilkynningu sem send var út í gær vegna kaupanna á 29,18 prósent hlut í Arion banka var látið hljóma sem svo að Goldman Sachs, einn þekktasti fjárfestingabanki heims, væri sjálfur að kaupa hlut í Arion banka. Viðmælendur Kjarnans sem starfa á alþjóðlegum fjármálamarkaði segja þetta í besta falli hlægilega framsetningu. Goldman Sachs sé alls ekki að kaupa hlut í Arion banka. Að minnsta kosti ekki til að vera langtímafjárfestir.
Það sem sé að eiga sér stað sé að Goldman Sachs, í gegnum sérstakt eignarhaldsfélag (e. Special Purpose Vehicle) sé að „fronta“ kúnna eða kúnnahóp hjá sér í þessum viðskiptum. Ef þau yrðu rakin til endanlegs eiganda yrði sá ekki Goldman Sachs. Þessu neitar þó Kaupþing. Almannatengslafulltrúar félagsins segja að fyrir liggi yfirlýsing um að Goldman Sachs sé að kaupa á eigin reikning.
Þegar það er skoðað hvað Goldman Sachs raunverulega gerir þá sést að kaup á íslenskum viðskiptabanka, eða fyrirtækjum yfir höfuð, er alls ekki eitt af þeim verkefnum sem bankinn einbeitir sér að í starfsemi sinni.
Enda er kaupandinn á 2,6 prósent hlutnum í Arion banka sem er eyrnamerktur Goldman Sachs í tilkynningu kaupenda í eigum félags sem heitir ELQ Inverstors II Ltd.
Þrátt fyrir yfirlýsingar vogunarsjóðanna sem eru stærstir í kaupunum á Arion banka um að þeir ætli sér að vera langtímafjárfestar og að ekki þurfi að setja alla vogunarsjóði undir sama skammtímagróðahattinn þá er fátt sem bendir til þess í fyrra atferli, eða í yfirlýstri stefnu sjóðanna, um að það eigi við þá. Á heimasíðu Och-Ziff Capital Management Group, sem hefur nú keypt 6,6 prósent hlut í Arion banka, er birt yfirlit yfir stefnu sjóðsins og þau verkefni sem hann einbeitir sér að. Erfitt er að sjá að langtímaeign í íslenskum viðskiptabanka falli undir nokkra af þeim stefnum sem hann birtir þar. Och-Ziff er alræmdur sjóður. Í september í fyrra samþykkti hann t.d. að greiða um 23 milljarða króna í sekt vegna þess að dótturfélag hans í Afríku, OZ Africa, hafði mútað háttsettum embættismönnum í Kongó og Líbýu til að liðka fyrir viðskiptum sjóðsins þar.
Kaupendur eru seljendur
Kaupendurnir eru allt aðilar sem eru ráðandi innan Kaupþings, eignarhaldsfélagsins sem stofnað var utan um restina af eignum hins fallna banka eftir að samdist um slit hans. Þeir eru að kaupa eignir sem þeir áttu áður óbeint. Og það er ástæða fyrir því.
Í fyrsta lagi eru viðmælendur Kjarnans allir sammála um að verðið sem verið sé að greiða fyrir Arion banka sé mjög lágt. Eigið fé bankans var 211 milljarðar króna um síðustu áramót. Verðið sem verið er að greiða fyrir hlutina núna er 0,79 krónur á hverja krónu af eigin fé. Framtíðarkaup á 21,9 prósentum til viðbótar mun væntanlega ýta kaupverðinu yfir 0,8 krónur á hverja krónu af eigin fé bankans, enda má kaupverðið ekki vera lægra samkvæmt ákvæði sem sett var inn þegar samið var um stöðugleikaframlög frá kröfuhöfum gömlu bankanna.
Söluandvirðið verður allt nýtt til að greiða inn á skuldabréf ríkissjóðs sem var hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings sem samþykkt var við nauðasamninga félagsins.
Gangi kaupin eftir í takt við þetta plan mun íslenska ríkið ekki geta gengið inn í viðskiptin samkvæmt þeim skilmálum sem samið var um. Þ.e. ákvæði samkomulagsins sem gert var við kröfuhafa Kaupþings vegna stöðugleikaframlaga verður þar með virt.
Í öðru lagi mun þetta flýta því að Kaupþing geti greitt meira út til hluthafa sinna. Á fyrri hluta ársins 2016 var mótuð stefna innan Kaupþings sem snerist um að koma sem mestu af eignum félagsins í verð sem fyrst. Gangi það eftir fá starfs- og stjórnarmenn Kaupþings mjög háa bónusa. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra einum saman var innflæði tekna vegna þessa 115,3 milljarðar króna. Stærsta salan er auðvitað salan á 87 prósent hlutnum í Arion banka. Eða að minnsta kosti hluta hans.
Í þriðja lagi eru þeir að veðja á að krónan muni halda áfram að styrkjast, líkt og hún hefur gert á ofsa hraða á undanförnum mánuðum. Það mun tryggja þeim gengishagnað. Vogunarsjóðir þekkja það að veðja á íslensku krónuna. Það gerðu margir þeirra af miklum moð fyrir hrun og þótt aðferðirnar séu öðruvísi nú þá er veðmálið slíkt hið sama.
Verða ráðandi eigandi en komast hjá mati FME
Með kaupunum sem tilkynnt var um í gær verður enginn þeirra fjögurra sem keyptu hlut virkur eigandi í Arion banka. Til þess þarf, samkvæmt lögum, að eiga yfir tíu prósent hlut í fjármálafyrirtæki. Bæði Taconic og Attestor keyptu 9,99 prósent, sem er 0,01 prósenti undir þeim mörkum.
Samandregið þurfa þeir því ekki að undirgangast mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi virks eiganda. Slíkt mat grundvallast á ýmsum þáttum em skilgreindir eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Á meðal þeirra atriða sem tilgreind eru í lögunum og þurfa að vera í lagi eru orðspor aðilans, reynsla hans, fjárhagslegt heilbrigði, hvort ætla megi að eignarhaldið torveldi eftirlit og hvort ætla megi að það leiði til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Auk þess kemur til sérstakrar skoðunar hvort vafi leiki á því hver sé raunverulegur eigandi virks eignarhlutar.
Nýti þessir aðilar viðbótarkauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka verða þeir saman meirihlutaeigendur í Arion banka með 51,08 prósent eignarhlut. Þeir munu því vera með yfirráð yfir Arion banka, kjósi þeir svo. Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til starfsemi sjóðanna segja það öruggt að þessir aðilar séu að vinna saman að öllu leyti. Þ.e. ekki sé hægt að líta á hvern og einn þeirra sem sjálfstæða fjárfesta heldur verði að horfa á þá sem eina heild. Auk þess hafi ekki verið kannað með neinum hætti hvort þeir fjármunir sem standi á bak við fjárfestingar aðilanna á Íslandi séu að einhverju eða öllu leyti komnir frá sömu einstaklingunum eða fyrirtækjunum.
Viðskiptabanki troðfullur af íslenskum innstæðum
En hvaða máli skiptir það hverjir eiga íslenska viðskiptabanka? Það skiptir meðal annars máli vegna þess að allir íslensku viðskiptabankarnir voru endurreistir með handafli ríkisins til að halda á innstæðum, sem það tryggði í bankahruninu. Íslenska ríkið hefur sýnt það í verki að það tryggir innstæður og tryggir greiðslumiðlun ef illa fer. Og því er nokkurs konar ríkisábyrgð á starfseminni til staðar. Áhrif þess að láta íslenska viðskiptabanka fara á hausinn eru talin of mikil. Þeir eru of stórir til að falla. Enn þann dag í dag, átta og hálfu ári eftir hrunið, eru íslensku bankarnir að mestu fjármagnaðir með innstæåðum íslenskra einstaklinga og fyrirtækja. Arion banki er með lægsta hlutfall innstæðna af heildarfjármögnun sinni. Samt heldur bankinn á 412 milljörðum króna af innstæðum frá viðskiptavinum sínum. Það er helmingur af skuldum hans. Auk þess er Seðlabanki Íslands þrautavaralánveitandi íslensku bankanna – þótt hann hafi ekki alltaf getað staðið undir því hlutverki – og sá aðili sem sér til þess að þeir fái þá fyrirgreiðslu sem þeir þurfa lendi þeir í vandræðum.
En mestu skiptir að íslenska fjármálakerfið – sem hefur sögulega sýnt getu sína til að valda ótrúlegum samfélagslegum skaða hérlendis í verki – sé í eigu aðila sem hafa hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi í starfsemi sinni. Síðast þegar bankar voru einkavæddir var það meðal annars gert með aðkomu þýska einkabankans Hauck &Aufhäuser. Nú stendur yfir rannsókn sem, samkvæmt heimildum Kjarnans, snýst meðal annars um hvort Kaupþing, sem var sameinaður Búnaðarbankanum skömmu eftir að söluna á bankanum, hafi fjármagnað Hauck &Aufhäuser, sem seldi sig fljótlega aftur út.
Í það skiptið voru fullyrðingar þeirra sem komu að viðskiptum hins erlenda aðila um að hann væri í alvöru áhugasamur um að kaupa í íslenskum viðskiptabanka látnar nægja. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort sömu skýringar verði keyptar nú þegar erlendir vogunarsjóðir segjast hafa áhuga á langtímaeignarhaldi á Arion banka.