Þeir fjórir aðilar sem hafa keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi ehf. eiga samtals 66,31 prósent hlut í Kaupþingi. Langstærsti einstaki eigandi Kaupþings eru sjóðir í stýringu Taconic Capital með 38,64 prósent eignarhlut.
Næst stærsti eigandinn er lúxemborgískt félag tengd vogunarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 14,21 prósent eignarhlut. Þriðji stærsti hópurinn eru sjóðir í stýringu hjá Attestor Capital, sem eiga 8,63 prósent hlut. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs og sjóður í stýringu hans eru síðan skráðir fyrir 4,83 prósent hlut. Þetta kemur fram í svari Kaupþings við fyrirspurn Kjarnans um eignarhald á félaginu.
Kaupþing ehf. er eignarhaldsfélag utan um þær eignir sem kröfuhafar fallna bankans Kaupþings héldu eftir í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld sömdu um að heimila þeim að slíta þrotabúi bankans gegn greiðslu stöðugleikaframlaga. Langstærsta einstaka eignin sem Kaupþing átti var 87 prósent hlut í íslenska viðskiptabankanum Arion banka. Eigið fé hans var 211 milljarðar króna um síðustu áramót.
Á sunnudag var tilkynnt að Taconic, Och-Ziff, Attestor og Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Í viðskiptunum sem tilkynnt var um á sunnudag felst því að eigendur ⅔ hluta Kaupþings voru að kaupa stóran hluta í Arion banka á eins lágu verði og mögulegt var fyrir þá án þess að virkja ákvæði sem gerði íslenska ríkinu kleift að ganga inn í kaupin.
Til viðbótar á þessi hópur kauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka til viðbótar. Nýti þeir hann, en líklegt er að þeir geri það síðar á þessu ári, verða vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs beinir eigendur að meirihluta í Arion banka.
Vantar 0,01 prósent til að teljast virkir eigendur
Ekki hefur verið tilgreint hverjir eru endanlegir eigendur þeirra sjóða sem munu saman verða ráðandi eigendur Arion banka nýti þeir kauprétt sinn. Tveir þeirra, Taconic og Attestor, halda sem stendur á 9,99 prósent hlut. Til að Fjármálaeftirlitið meti hæfi aðila til að fara með virkan eignarhluta í fjármálafyrirtæki, meðal annars út frá orðspori, þurfa þeir hins vegar að eiga í minnsta lagi tíu prósent hlut. Því mun eftirlitið ekki fara yfir hæfi þeirra vogunarsjóða sem keyptu í Arion banka um liðna helgi. Að minnsta kosti ekki fyrr en þeir nýta kauprétt sinn og eignast meira í bankanum.
Í fréttum sem Fjármálaeftirlitið hefur birt hefur þó komið fram að kaupum vogunarsjóðanna þriggja á hlutum í Arion banka fylgi ekki atkvæðisréttur. Eftirlitið hefur hins vegar ekki „upplýsingar um þetta atriði“ varðandi Goldman Sachs.
Hafa fjóra daga til að birta lista yfir eigendur
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, var þráspurður um eignarhaldið á væntanlegum eigendum í Arion banka á Alþingi í gær. Þar sagðist hann hafa óskað eftir því við forstjóra Fjármálaeftirlitsins að upplýst verði um endanlega eigendur í Arion banka og að það væri óviðunandi fyrir Íslendinga að vita ekki hverjir standi þarna á bak við.
Fjármálaeftirlitið sendi frá sér frétt í gær þar sem það vakti athygli á því að fjármálafyrirtækjum beri að tilgreina nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram eitt prósent hlutafjár á heimasíðu sinni. „Sé lögaðili eigandi hlutafjár umfram eitt prósent skal jafnframt koma fram hvaða einstaklingur eða einstaklingar séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila.“
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, sagði í tíufréttum RÚV í gær að Arion banki hefði fjóra daga til að uppfylla þessa skyldu.
Tíu stærstu eigendur Kaupþings opinberaðir
Það hefur hins vegar ekki gengið vel hingað til að fá upplýsingar um endanlega eigendur vogunarsjóða sem eignast hafa hluti í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Endurreistur Straumur fjárfestingarbanki fékk á sínum tíma fjárfestingabankaleyfi frá Fjármálaeftirlitinu án þess að þurfa að greina frá hverjir endanlegir eigendur hans voru. Eina sem vitað var um það var að dótturfélag Deutsche Bank í Hollandi hélt utan um hlutdeildarskirteini þeirra.
Þá komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu fyrr í ár að vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, í eigu Davidson Kempner, mætti fara með virkan eignarhlut í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Kaupþings um hverjir væru stærstu eigendur þess félags. Í svari félagsins kemur fram yfirlit yfir tíu stærstu hluthafa Kaupþings í lok árs 2016. Á þeim lista eru endanlegir eigendur hins vegar ekki tilgreindir.