Allir þeir sem komu með beinum hætti að þeirri blekkingu sem sett var á fót í kringum meinta þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2013 sögðu ósatt um vitneskju sína við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Gríðarlegt magn gagna – meðal annars skjöl og tölvupóstar – sýna með óyggjandi hætti að Hauck & Aufhäuser var aldrei raunverulegur eigandi í Búnaðarbankanum heldur leppur. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum.
Gögnin sýna enn fremur að Ólafur Ólafsson, samstarfsmenn hans, stjórnendur hjá Kaupþingi og nokkrir erlendir samstarfsmenn, meðal annars innan Hauck & Aufhäuser, hönnuðu þá fléttu sem sett var á svið í kringum kaupin. Í henni fólst að Kaupþing fjármagnaði meint kaup Hauck & Aufhäuser á hlut í Búnaðarbankanum, endanlegur eigandi þess hlutar var aflandsfélagið Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum og baksamningar tryggðu Hauck & Aufhäuser algjört skaðleysi af aðkomu sinni. Slíkir samningar tryggðu einnig að allur ávinningur af fléttunni, sem varð á endanum yfir 100 milljónir dala, skiptist á milli aflandsfélags Ólafs Ólafssonar og aðila sem tengdust Kaupþingi. Á gengi ársins 2005 nam sú upphæð 6,8 milljörðum króna. Í dag er hún um 11 milljarðar króna.
Lykilmennirnir neituðu að mæta
Fjórir lykilmenn í málinu voru boðaðir til skýrslutöku, en neituðu að mæta. Ólafur Ólafsson, Guðmundur Hjaltason, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson. Þegar rannsóknarnefndin beindi því til Héraðsdóms Reykjavíkur að boða þá kröfðust þrír þeirra þess að dómari viki sæti í málinu. Þeirri beiðni var hafnað.
Þegar beiðni rannsóknarnefndarinnar var tekin aftur fyrir í byrjun desember 2016 báru bæði Ólafur og Guðmundur brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Þessu var hafnað af Hæstarétti 17. janúar 2017.
Skýrslur voru loks teknar af þeim í lok janúar og byrjun febrúar. Allir fjórir ofangreindir svöruðu þar spurningum rannsóknarnefndarinnar með þeim hætti að framburður þeirra stangast með öllu á við gögn – bæði samninga og tölvupósta – sem nefndin hefur undir höndum og sýnir bæði beina aðkomu þeirra og fulla vitneskju um þá baksamninga sem gerðir voru þegar látið var líta út fyrir að Hauck & Aufhäuser hefði keypt stóran hlut í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003.
Ólafur og Guðmundur sögðu að þær upplýsingar sem stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu fengið um kaupin hafi verið réttar og nákvæmar. Bæði Hreiðar Már og Sigurður könnuðust ekkert við að Kaupþing, sem þeir stýrðu, hefði komið að eða fjármagnað kaup Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum. Þá höfnuðu þeir því báðir að hafa einhver annar en Hauck & Aufhäuser hefði verið raunverulegur eigandi að hlutnum sem keyptur var í Búnaðarbankanum.
Gögn málsins sýna, líkt og áður sagði, að allir fjórir mennirnir höfðu fulla vitneskju um, og tóku fullan þátt í, þeirri fléttu sem opinberuð er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þess utan liggur fyrir að Ólafur hagnaðist með beinum hætti um marga milljarða króna af fléttunni og að rannsóknarnefndin dregur þá ályktun að aðilar tengdir Kaupþingi hafi gert slíkt hið sama.
Tóku beinan þátt en könnuðust ekki við neitt
Rannsóknarnefndin tók líka skýrslur af Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, Bjarka Diego, þá starfsmanni fyrirtækjaráðgjafarinnar, Kristínu Pétursdóttur, þá forstöðumanni fjárstýringar Kaupþings, og Steingrími Kárasyni, þá yfirmanni áhættustýringar. Auk þess tók nefndin skýrslu af Magnúsi Guðmundssyni, sem stýrði Kaupþingi í Lúxemborg.
Enginn þessara aðila „kannaðist við eða rak minni til þess að Kaupþing eða dótturfélag þess í Lúxemborg hefðu komið að viðskiptum Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf. [félaginu sem keypti hlutinn í Búnaðarbankanum]“.
Gögn málsins, sem rakin eru í skýrslunni, sýna þó ótvírætt að allir ofangreindir, utan Ármanns, tóku beinan þátt í þeirri fléttu sem framkvæmd var í kringum kaupin á Búnaðarbankanum. Það sýna skjöl og tölvupóstar ótvírætt.
Þau sögðu því einnig ósatt við skýrslutöku.
S-hópurinn plataður
Nefndin ræddi líka við aðra sem tilheyrðu S-hópnum svokallaða. Sá hópur samanstóð af Eglu ehf. (félags í eigu Kers (að mestu í eigu Ólafs Ólafssonar) sem átti 49,5 prósent, VÍS sem átti 0,5 prósent og opinberlega Hauck & Aufhäuser sem sagt var eiga 50 prósent), Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og VÍS.
Þeir sem rætt var við voru Finnur Ingólfsson, fyrrverandi forstjóri VÍS og fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, Margeir Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, og Kristján Loftsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kers. Svo virðist, af svörum þeirra, að þeir hafi ekki haft neina vitneskju um þá fléttu sem Ólafur og Kaupþing, ásamt samverkamönnum sínum m.a. hjá Hauck & Aufhäuser, höfðu ofið og tryggðu m.a. Ólafi og aðilum tengdum Kaupþingi 6,8 milljarða króna útgreiðslu nokkrum árum eftir að viðskiptin voru um garð gengin.
Samkvæmt því þá plötuðu Kaupþing og Ólafur ekki einungis almenning, stjórnvöld og fjölmiðla, heldur líka viðskiptafélaga Ólafs.
Báru fyrir sig bankaleynd
Þá reyndi nefndin líka að fá upplýsingar hjá nokkrum erlendum aðilum og Íslendingum sem starfa erlendis. Þeirra á meðal var Peter Gatti, sem kom fram fyrir hönd Hauck & Aufhäuser í þeim blekkingarleik sem settur var á svið hérlendis. Gatti skrifaði m.a. undir kaupsamninginn þegar S-hópurinn keypti 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum og settist í stjórn bankans. Hann svaraði ekki erindi nefndarinnar.
Lykilmaður í fléttunni Hauck & Aufhäuser-megin var Martin Zeil, þá forstöðumaður lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser en síðar þingmaður í Þýskalandi. Gögn málsins sýna að hann var mjög vel inni í öllu sem gerðist í málinu og hafði heildarsýn yfir verknaðinn. Zeil bar fyrir sig bankaleynd og svaraði ekki spurningum nefndarinnar. Það sama gerði Eggert Jónas Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg.
Ralf Darpe, starfsmaður Þýskalandsarms franska bankans Societe General, sem fékk 300 milljóna króna þóknun fyrir að aðstoða S-hópinn við að eignast Búnaðarbankann, svaraði ekki erindum nefndarinnar.
Auk þess var rætt við formann framkvæmdanefndar um einkavæðingu og starfsmenn nefndarinnar. Þeir sögðu allir að þeir hefðu ekki orðið varir við neitt annað en að aðkoma Hauck & Aufhäuser haefði verið með þeim hætti sem upplýst var um opinberlega.
Var aldrei kynnt í stjórn
Einn áhugaverðasti viðmælandi nefndarinnar var Helmut Landwehr. Sá var meðeigandi í Hauck & Aufhäuser og sat í stjórn bankans þegar hann þóttist hafa keypt hlut í Búnaðarbankanum.
Landwehr gaf rannsóknarnefndinni þær upplýsingar að Peter Gatti hefði komið að einkavæðingu Búnaðarbankans fyrir hönd Hauck & Aufhäuser. „Landwehr tjáði nefndinni að miðað við þær upplýsingar sem hefðu verið kynntar innan bankans á þeim tíma þá hefði þátttaka Hauck & Aufhäuser einskorðast við hafa vörslur hlutanna í Eglu hf. fyrir hönd íslenskra aðila. Landwehr sagði að ef bankinn hefði fest kaup á hlutabréfum í eigin nafni, sem hefði þá numið fjárfestingu upp á um það bil 35 milljón Bandaríkjadali, þá hefði þurft að afla samþykkis stjórnar fyrir fjárfestingunni. Slík fjárfesting hefði hins vegar ekki verið kynnt í stjórn.“