Fjármálaeftirlitið (FME) segir að það geti tekið undir flest það sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) segir í yfirlýsingu sinni um ýmislegt sem snýr að fjármálaeftirliti á íslenskum fjármálmarkaði, og mikilvægi þess að tryggja sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins.
Þetta kemur fram í svari FME við fyrirspurnum Kjarnans vegna umsagnar sendinefndar AGS um stöðu fjármálaeftirlits á Íslandi, í nýjustu úttekt sinni um stöðu efnahagsmála á Íslandi.
Styrkja þarf eftirlit
Í yfirlýsingu sendinefndarinnar er umtalsverðu púðri eytt í að fjalla um framtíð íslenska bankakerfisins. Þar minnist hún meðal annars sérstaklega á nýlega sölu á 29,18 prósent hlut í Arion banka til þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs, sem síðan eiga kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar í bankanum. AGS segir að þetta séu eigendur sem séu líklegir til að sækjast eftir háum arðgreiðslum, sölu á eignum út úr bankanum og ýmiss konar endurskipulagningu til hagræðingar.
Það séu allt kraftar sem muni auka samkeppni á bankamarkaði. Í raun muni hann umbreytast úr svefnmarkaði yfir í markað sem verði með mikla samkeppni. Slík gæti leitt af sér kerfislæga áhættu og ógnað fjármálalegum stöðugleika.
Þá segir að styrkja þurfi alla laga- og regluumgjörð í kringum fjármálakerfið og auka eftirlit með því, að því er segir í yfirlýsingu AGS. Auk þess þurfi að tryggja sjálfstæði þess eftirlits með skýrari hætti. Ein leið til þess væri sú að sameina allt eftirlit með bönkum hjá Seðlabanka Íslands en láta FME eftir eftirlit með annarri fjármálastarfsemi. Leggja þurfi áherslu á að fá hágæðaeigendur að íslenskum bönkum, segir í yfirlýsingunni.
Tekur undir með AGS
Blaðamaður sendi fyrirspurnir til FME vegna þeirrar umsagnar sem sendinefnd AGS birti um stöðuna hjá FME.
AGS segir að það þurfi að styrkja verulega eftirlit með fjármálamörkuðum, meðal annars með því að efla sjálfstæði og bæta, svo til þvert yfir, allt eftirlit. Hver eru ykkar viðbrögð við þessu mati/gagnrýni? Teljið þið hana eiga við rök að styðjast?
„Fjármalaeftirlitið tekur undir þá skoðun AGS að losun fjármagnshafta boði nýtt tímabil á fjármálamarkaði með aukinni áhættutöku markaðsaðila og að í því felist auknar áskoranir fyrir fjármálaeftirlit. Í þessu sambandi má nefna að Fjármálaeftirlitið hefur unnið að umfangsmiklum umbótaverkefnum á síðustu árum sem ekki er að fullu lokið. AGS hefur fylgst með þeirri þróun og gefið það álit að verulegar umbætur hafa átt sér stað. Þetta kemur fram í eldri skýrslum AGS og mun væntanlega koma fram í lokaskýrslu vegna heimsóknar þeirra í ár. Ábendingar AGS í yfirlýsingu sendinefndarinnar frá 28. mars, sem spurt er um, snúa fyrst og fremst að fjárhagslegu sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins og að einhverju leyti að heimildum til að setja reglur. Fjármálaeftirlitið tekur undir með AGS að mikilvægt sé að tryggja, m.a. með fyrirkomulagi fjármögnunar, að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstætt í störfum sínum. Meðal annars af þessum ástæðum hefur Fjármálaeftirlitið í nokkur ár kallað eftir endurskoðun á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, líkt og AGS gerir í yfirlýsingu sinni.
Valdheimildir Fjármálaeftirlitsins hafa styrkst verulega með nýlegri löggjöf, einkum vegna innleiðingar á megingerðum ESB um fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög (CRDIV/CRR og Solvency II) og telur Fjármálaeftirlitið ekki að þeim sé ábótavant í neinum meginatriðum. Vissulega geta nýjar áhættur og þörf fyrir nýjar valdheimildir komið upp, en telja verður eðlilegt að slíkar heimildir komi fram með skýrum hætti í íslenskum lögum.“
Traust eignarhald
Hvernig horfir við ykkur það mat AGS, að það þurfi að einblína á trúverðugt og traust eignarhald á fjármálakerfinu?
„Þessar ábendingar eiga alltaf við og eru skiljanlegar í ljósi sögunnar og aðstæðna nú. Þeim virðist þó fremur beint að örum stjórnvöldum en Fjármálaeftirlitinu. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins í þessu ferli er fyrst og fremst að gæta að hæfi virkra eigenda, stjórnarmanna og stjórnenda í fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Söluverð eða hraði söluferils hafa engin áhrif á þau viðmið sem Fjármálaeftirlitið hefur til hliðsjónar við slíkt mat.“
Hvernig sjáið þið þessa leiðsögn eða umsögn AGS, í samhengi við kaup vogunarsjóða á Wall Street ásamt að litlu leyti Goldman Sachs bankans, á hlut í Arion banka?
„Umrædd viðskipti eru birtingarmynd þeirra breytinga sem vísað var til hér að ofan. Fjármálaeftirlitið telur, rétt eins og AGS, afar mikilvægt að allir þeir sem koma að sölu fjármálafyrirtækja gæti ýtrustu varfærni og hugi vandlega að mikilvægi uppbyggingar trausts á fjármálamarkaði.“