Knattspyrnuáhugamenn elska óvæntar hetjur. Þótt hæfileikamestu leikmennirnir, sem skora flest mörkin eða framkvæma snyrtilegustu hreyfingarnar, séu iðulega vinsælastir á meðal þeirra þá hafa þeir tilhneigingu til að taka ástfóstri við ólíklegar andhetjur. Slíkar eru oft leikmenn sem annaðhvort hafa þjónað einstökum félögum af hundslegri tryggð eða bæta upp fyrir auðsjáanlegt hæfileikaleysi með gríðarlegum vilja og krafti.
Einn hópur leikmanna sem verða oft dáðir og dýrkaðir eru leikmenn sem skora aldrei. Eða mjög sjaldan. Þar er oft um að ræða leikmenn sem hafa spilað hundruði leikja án slíks árangurs og jafnvel án þess að eiga mörg skot á markið. Það getur verið nokkuð mögnuð upplifun að fara á leiki hjá liðum sem innihalda leikmenn sem eru í þannig stöðu. Stuðningsmenn liðanna, sérstaklega á Englandi, uppveðrast í hvert sinn sem viðkomandi fær boltann og öskra hástöfum á þá að skjóta. Þúsundir stuðningsmanna mynda eitt stórt þrýstiafl í nokkrar sekúndur þegar þeir kyrja í sífellu „shoot...shoot...shoot“.
Ég var þar
John „Faxe“ Jensen var danskur miðjumaður sem vakti athygli snemma á tíunda áratugnum. Faxe spilaði framan af með danska stórliðinu Bröndby, með stuttri en ekki sérlega vel heppnaðri viðkomu hjá Hamburg í Þýskalandi. Þegar Danir komust óvænt í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu 1992, eftir að Júgóslavíu var hent út vegna stríðsástandsins þar var í gerjun, var Faxe kallaður til úr sumarfríinu sínu til að vera akkerið á miðju liðsins. Það sem gerðist síðar þekkja flestir; litla Norðurlandaþjóðin sem átti ekki að vera með kom, sá og sigraði keppnina. Í úrslitaleiknum, þar sem andstæðingarnir var knattspyrnulegi risinn Þýskaland, vannst 2-0 sigur. Faxe, sem leit þá þeim tima út eins og Kenny Powers (úr hinum frábæru þáttum „Eastbound and down“) án kleinuhringsins, skoraði annað markið.
Líkt og alltaf eftir lokakeppni börðust stórlið Evrópu um helstu hetjur þess. Faxe var klárlega ein þeirra. Á endanum hneppti Arsenal, þá undir stjórn hins „Mad Men“ –lega George Graham, hnossið. Hann naut ágætrar velgengni hjá Arsenal. Liðið vann bæði deildarbikarinn og FA-bikarinn á fyrsta tímabilinu hans og urðu Evrópumeistarar bikarhafa árið eftir. Hans verður þó aldrei minnst vegna þeirra sigra. Faxe er eftirminnilegastur fyrir að hafa aðeins náð að skora einu sinni fyrir liðið, þrátt fyrir að hafa spilað alls 132 leiki fyrir liðið. Slík tölfræði er ekkert einsdæmi, en hana er oftast að finna hjá varnarmönnum. Faxe spilaði á miðjunni. Og það var ekki vegna skorts á tilraunum sem hann skoraði ekki. Hann reyndi gríðarlega mikið.
Markið einstaka kom á gamlársdag 1994, þegar Faxe hafði leikið 98 leiki í röð án þess að skora. Biðin hafði verið svo löng að Arsenal aðdáendur höfðu löngu áður vanið sig á að kyrja söng á leikjum liðsins: „We´ll be there when Jensen scores“, eða við verðum þar þegar Jensen skorar.
Andstæðingurinn Arsenal í leiknum var QPR og gestirnir leiddu 1-0 þegar Faxe fékk boltann vinstra megin í vítateignum. Stuðningsmennirnir hófu strax að öskra „shoot“, sem hann gerði og boltinn söng í vinstra horninu. Allt varð vitlaust á gamla Highbury. Stuðningsmennirnir sungu „Johnny Jensen, Johnny Jensen“ látlaust það sem eftir lifði kvölds. Það dugði ekki til og QPR vann leikinn. Enginn man hins vegar eftir úrslitunum í dag. Þeir sem á horfðu muna bara eftir eina markinu hans Faxe. Alla tíð síðan hafa selst bolir við heimavöll Arsenal sem á stendur „I saw John Jensen score“.
Faxe heldur því reyndar fram sjálfur að hann hafi skorað tvö mörk. Hitt markið var í vítaspyrnukeppni í leik um Góðgerðarskjöldinn, en mörk í slíkum keppnum teljast aldrei sem fullgild mörk í tölfræði. Þess utan stóð stórvinur og landi Faxe, Peter Schmeichel, í marki andstæðinganna. Lengi hafa verið samsæriskenningar uppi að hann hafi séð aumur á vini sínum.
When Hibbo scores we riot
Tony Hibbert fæddist í Huyton hverfinu á Merseyside. Hann er því borinn og barnfæddur Liverpool-búi og spilaði sem drengur í liðum með öðrum goðsögnum á borð við Steven Gerrard, sem ólust upp í þessu harða hverfi. Þegar Hibbert, sem var alinn upp sem stuðningsmaður Everton, var tíu ára fékk hann samning við uppáhaldsliðið sitt. Eftir önnur tíu ár í unglinga- og varaliðinu fékk hann loks tækifæri á stóra sviðinu, með sínu liði.
Hibbert var líklega einn minnst „flair“ leikmaður sem spilaði í efstu deild í Englandi. Hann var granítharður hægri bakvörður öðlaðist mikla virðingu fyrir að tækla menn upp í nára og gefa aldrei tommu eftir. Með tilkomu bakvarða á borð við Roberto Carlos fór sóknarhlutverk bakvarða almennt að verða meira í knattspyrnunni. Þegar leið á fyrsta áratug þessarar aldar varð sú krafa æ almennari að bakverðirnir væru eins og rennilásar upp og niður kantinn. Að þeir legðu upp og skoruðu mörk á öðrum endanum en stöðvuðu sömu gjörðir á hinum.
Þrátt fyrir mikla tæknilega annmarka elskuðu stuðningsmenn Everton Hibbert. Þar skiptir miklu að hann er heimamaður sem er alinn upp á sömu slóðum og við sambærilegar aðstæður og þeir sem sitja í stúkunni á Goodison Park (sem þýðist alls ekki sem Guttagarður). En önnur ástæða þess að hann var svona vinsæll er, eins sérkennilega og það hljómar, að hann skoraði aldrei. Hibbert hafði raunar leikið 309 leiki í búningi Everton án þess að skora þegar undur og stórmerki gerðust.
Stuðningsmenn Everton höfðu sett gríðarlegan þrýsting á Hibbert árum saman vegna markaleysis hans. Alltaf þegar hann fékk boltann, sama hvar hann er staðsettur á vellinum, þá var öskrað á hann að skjóta. Þannig hafði þetta verið árum saman. Í sölubásum fyrir utan heimavöll Everton höfðu líka verið seldir fánar og aðrir minjagripir sem á stóð „When Hibbo scores we riot“. Þegar Hibbo skorar munum við framkvæma uppþot.
Þann 8. ágúst 2012 var haldinn ágóðaleikur fyrir Hibbert, líkt og tíðkast fyrir leikmenn sem hafa leikið í tíu ár fyrir sama liðið. Andstæðingur Everton voru gríska liðið AEK frá Aþenu og leikurinn var liður í lokaundirbúningi Everton fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Í aðdraganda leiksins var mikið rætt um að það þyrfti að búa til aðstæður fyrir Hibbert til að skora. Hann mætti hins vegar sjálfur í viðtöl og sagðist ekki taka í mál að fá gefins einhver mörk. Hann myndi til dæmis ekki taka víti undir neinum kringumstæðum. Leikurinn var stórviðburður í Liverpool. Hibbert er það sem kallast á slæmri íslensku cult-hetja þar í borg og stórstjarnan Wayne Rooney, sem er uppalinn Everton-maður, bað um leyfi hjá Manchester United til að fá að leika í leiknum, en fékk ekki frí frá þátttöku í sýningaleik gegn Barcelona í Svíþjóð sem fór fram á sama tíma. Rooney var víst ekki ánægður með þá niðurstöðu.
Á 53 mínútu fékk Everton aukaspyrnu úti við vinstra horn vítateigs andstæðinganna. Það kom alltaf aðeins einn maður til greina til að taka hana. Þegar Hibbert stillti sér upp hélt gervallt Everton-heimsþorpið, hvort sem íbúarnir voru staddir á Goodison eða fylgdust með í gegnum tölvur eða sjónvörp víðsvegar um heiminn, niðri í sér andanum. Gæti þetta verið að fara að gerast.
Líkt og í lélegri Hollywood-ræmu gerðist auðvitað það sem allir vonuðust til að myndi gerast. Hibbert hamraði boltann neðarlega í nærhornið. Hibbert sjálfur vissi ekkert hvernig hann átti að haga sér, enda ákaflega óvanur því að skora en samherjar hans hentu sér samstundis á hann og áhorfendur misstu sig í fölskvalausri gleði. Þeir gerðu raunar betur en það og stóðu við stóðu orðin: þegar Hibbo skorar framkvæmum við uppþot. Hundruð Everton-áhangenda þustu inn á völlinn til að fagna andhetjunni sinni. Stöðva þurfti leikinn í nokkrar mínútur á meðan að völlurinn var rýmdur. Það hlýtur að vera einsdæmi að það eigi sér stað innrás á völl hjá svona stóru liði í leik á undirbúningstímabilinu. Viðbrögðin sýndu hins vegar hvað markið skipti stuðningsmennina og Hibbert miklu máli. Þau sýndu tærustu fegurð knattspyrnunnar. Og voru ógleymanleg.
Hibbert var látinn fara frá Everton eftir að samningur hans rann út sumarið 2016. Hann komst að því þegar um málið var tilkynnt á heimasíðu félagsins, og var ekki ánægður með aðferðarfræðina sem notuð var til að klippa hann frá félaginu sem hann hafði gefið allt í áratugi. En það duldist þó engum að tími hans sem leikmanns á stóra sviðinu var liðinn. Og kannski var hann þar allan tímann án þess að eiga neitt tilkall til þess.
Hibbert tók fram skónna að nýju um síðustu helgi. Þá lék hann með áhugamannaliðinu The Hares FC frá Skelmersdale í sunnudagsdeildinni. Liðið hafði verið á mikilli sigurgöngu og unnið níu leiki í röð, þegar kom að því að Hibbert spilaði sinn fyrsta leik. Hann endaði með tapi. Og ofan á allt þá tók Hibbert víti, sem hann brendi af. Honum virðist beinlínis ómögulegt að skora, sama hverjar aðstæðurnar eða gæðin eru.
Ofbeldismaðurinn Francis Benali
Francis Benali fæddist í Southampton og var fastagestur á The Dell, goðsagnarkenndum fyrrum heimavelli þess sögufræga liðs. Hann skrifaði undir samning við liðið í júlí 1985 á sama tíma og annar sögulegur risi, latasta tía mannkynssögunnar, Matt Le Tissier. Benali var upphaflega framherji, eins ótrúlega og það hljómar. Hann var þó fljótt færður í vörnina þar sem hann lék 311 leiki fyrir Southampton. Þeir hefðu verið fleiri ef hann hefði ekki safnað spjöldum eins og Tommy Lee hjásvæfum. Alls var Benali rekinn út af ellefu sinnum á ferlinum. Margir vildu meina að hann væri miklu meiri ofbeldishrotti en fótboltaleikmaður.
Benali skoraði einungis eitt mark í keppnisleik fyrir Southampton. Það kom 13. desember 1997 gegn Leicester. Aldavinur hans Le Tissier gaf þá fyrir á aukaspyrnu og enginn andstæðinganna hafði neitt fyrir því að dekka Benali, sem var svo sem ekkert óeðlilegt. Líkurnar á að hann myndi skora voru sáralitlar. Benali stangaði boltann hins vegar inn og The Dell hreinlega sprakk af gleði.
Benali náði reyndar að skora eitt annað mark, í ágóðaleik sem spilaður var honum til heiðurs þetta sama ár. Það sýnir vel hversu mikils metinn hann var af stuðningsmönnum Southampton að það seldist upp á leikinn. Áhorfendur fengu það sem þeir vildu þegar Benali negldi boltann inn með skoti langt utan af velli.
Frægasti lánsmarkmaður heims
Jimmy Glass er ekki frægasta nafnið í boltanum. Hann var svokallaður farandsmarkmaður sem náði að vera í hóp hjá 16 mismunandi liðum á ferli sínum og spila fyrir tólf þeirra. Vert er að taka fram að flest þessara liða voru neðri- eða utandeildarlið.
Glass er hins vegar sannkölluð cult-hetja í hugum stuðningsmanna Carlisle United. Árið 1999 kom hann þangað að lán frá Swindon Town. Í lokaleik tímabilsins þurfti liðið að vinna til að forðast fall úr ensku deildarkeppninni og niður í utandeildina. Þegar tíu sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 1-1 og Carlisle átti horn. Í örvæntingarfullri lokatilraun til að skora fóru allir leikmenn liðsins inn í vítateig andstæðinganna til að reyna að skora, og þar á meðal markvörðurinn Glass, sem var að leika aðeins sinn þriðja leik fyrir liðið. Og auðvitað skoraði hann markið sem hélt Carlisle uppi. Stuðningsmenn þustu inn á völlinn og fölskvalaus alsælan lak af andlitum þeirra.
Saga Glass fór sem eldur um sinu um heimsfjölmiðlanna. Saga algjörlega óþekkta lánsmarkmannsins sem skoraði mark á síðustu sekúndu síðasta leiks tímabilsins og bjargaði vinnuveitendum sínum frá falli er enda persónuleg hetjusaga sem allir elska að heyra. Glass hætti í knattspyrnu árið 2001, þá einungis 27 ára gamall. Hann seldi um tíma tölvubúnað en hefur undanfarin ár keyrt leigubíl og á í dag sína eigin leigubílastöð.