Andstæðingar Horacio Cartes sökuðu hann um valdarán þegar 25 öldungadeildarþingmenn – bæði úr hinum ráðandi hægriflokki, Partido Colorado, og vinstriflokknum Frente Guasú, sem er flokkur fyrrverandi forseta landsins, Fernando Lugo – samþykktu stjórnarskrárbreytingartillögu þess efnis að leyfa sitjandi og fyrrverandi forsetum landsins að bjóða sig fram til endurkjörs. Tillagan var samþykkt á sérstökum fundi á bakvið luktar dyr og þarf nú samþykki undirdeildar þingsins, þar sem Partido Colorado hefur 44 af 80 sætum, áður en hægt verður að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samþykkt tillögunnar leysti úr læðingi fjöldamótmæli þar sem hluti þinghúss landsins var brennt niður og einn mótmælandi, Rodrigo Quintana, leiðtogi vinstriflokksins PLRA í smábænum La Colmena, lét lífið eftir að hafa verið skotinn til bana af lögreglumanni sem kvaðst hafa haldið að skotvopn sitt hafi verið hlaðið með gúmmíkúlum. Í kjölfar mótmælanna hefur ríkisstjórn Cartes boðað til samningafundar við stjórnarandstöðuna eftir að Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Vatíkanið hvöttu til samræðna. Eins og stendur hafa fleiri fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafnað fundarboðinu og hefur forseti öldungardeilar þingsins, Robert Acevedo, krafist þess að stjórnarskrárbreytingartillagan verði felld úr gildi áður en samningaviðræður geta hafist. Cartes hefur frestað kosningu um tillöguna í neðri deild þingsins þangað til samningaviðræður hafa átt sér stað.
Í skugga Stroessner
Þegar Alfredo Stroessner var steypt af stóli árið 1989 í valdaráni skipulagt af paragvæska hernum hafði hann gegnt embætti forseta landsins í 35 ár. Valdatíð Stroessner, sem kölluð er „El Stronato“, einkenndist af öfgahægrissinnaðri harðstjórn þar sem pólitískir andstæðingar og frumbyggjar voru meðal þeirra sem voru ofsóttir en fleiri þúsund manns hurfu, voru drepnir og urðu fyrir pyntingum. Stroessner var hins vegar þekktur fyrir að veita stríðsglæpamönnum þriðja ríkisins hæli og sóttist Paragvæ á þessum tíma eftir nánum tengslum við Bandaríkin enda var landið ekki í stjórnmálasambandi við nein sósíalistaríki – Paragvæ er ennþá eitt af örfáum ríkjum sem viðurkenna Taívan í stað Kína.
Eftir því sem stjórnarskráin sem var í gildi þegar Stroessner var hrakinn frá völdum einkenndist af því að hafa verið samþykkt í einræði var hafist handa með hönnun nýrrar stjórnarskrár sem var samþykkt árið 1992. Samkvæmt henni er forsetum einungis heimilt að sitja í eitt fimm ára kjörtímabil og er þetta ákvæði talið vera beint viðbragð við einræði Stroessner og hræðslu við misnotkun á völdum forsetaembættisins.
Ólíklegir bandamenn
Afleiðingar bannsins við endurkjöri lýsa sér á ýmsan hátt en það skerðir sjálfkrafa pólitíska getu sitjandi forseta til að hafa áhrif á vali á eftirbáti sínum sem og langtímastefnu flokksins, sem í flestum tilfellum er Partido Colorado en flokkurinn hefur verið við stjórnvölinn 66 af síðustu 70 árum. Cartes, Lugo, og forseti Paragvæ á undan Lugo, Nicanor Duarte Frutos, styðja allir stjórnarskrárbreytingar enda myndu þær leyfa þeim að bjóða sig fram til endurkjörs; þeir Lugo og Duarte Frutos reyndu sjálfir að koma á slíkum breytingum þegar þeir voru við völd. Þá eru stjórnmálaflokkar í Paragvæ að miklu leyti klofnir þegar kemur að þessu máli en hópar innan flokkana annað hvort styðja eða styðja ekki stjórnarskrárbreytingar eftir því hvort frambjóðandi þeirra hefur gegnt embætti eða ekki. Það bætir ekki úr skák að það er óljóst samkvæmt stjórnarskránni hvort bannið við endurkjöri eigi við ef forseti klárar ekki kjörtímabilið sitt; Fernando Lugo var vikið úr embætti árið 2012 og talað er um að Cartes gæti mögulega boðið sig fram aftur ef hann segir af sér að minnsta kosti sex mánuðum áður en kjörtímabili hans lýkur.
Skoðanakannanir sýna að um 77% Paragvæa eru andvígir stjórnarskrárbreytingum sem myndu leyfa endurkjör til forsetaembættis. Þó er mikilvægt að nefna að það þýðir ekki endilega að sama hlutfall sé andvígt því að koma á breytingum í þrepum sem myndu að lokum gefa möguleika á endurkjöri; það eru fleiri en ein leið að koma á slíkum breytingum og ekki er ólíklegt að eitt af því sem fór mest fyrir brjóstið hjá mótmælendum voru þau alræðislegu vinnubrögð sem einkenndu samþykkt öldungadeildarinnar. Hin gífurlegu viðbrögð meðal almennings við atburði síðustu vikna gefur til kynna að spurningin um endurkjör er enn mjög viðkvæmt málefni í paragvæskum stjórnmálum.
Efnahagur Paragvæ hefur verið á mikilli siglingu síðustu ár og hefur landið stimplað sig inn sem framleiðslumiðstöð fyrir Brasilíu og Argentínu, eins konar „Kína Suður-Ameríku“, þökk sé hlutfallslega mun lægri launakostnaði og sköttum en það sem gerist í nágrannarisunum tveimur. Þessi uppsveifla hefur gerst á sama tíma og Brasilía og Argentína hafa verið í efnahagslegri lægð og hefur Cartes eðlilega reynt að nýta góðærið til að ná endurkjöri. Ójöfnuður í Paragvæ er hins vegar einn sá hæsti í heiminum og hvernig svo sem rætist úr endurkjörsumræðunni þá bíður forseta landsins gríðarstórt verkefni að láta mikinn hagvöxt skila sér í bættum lífskjörum.