Skrifað var undir drög að kaupsamningi milli þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs annars vegar og Kaupþings hins vegar um kaup á 29,18 prósent hlut í Arion banka þann 12. febrúar síðastliðinn. Það var gert svo að hægt yrði að miða kaupin við níu mánaða uppgjör Arion banka, þar sem eigið fé bankans var lægra en í ársuppgjörinu, og upphæðin sem þyrfti að greiða fyrir hlutinn gæti því verið lægri. Til þess að slíkt væri mögulegt þurfti að skrifa undir fyrir 13. febrúar.
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að þrátt fyrir undirskriftina 12. febrúar hafi viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um aðkomu að kaupunum verið haldið áfram allt fram til 19. mars, þegar skyndilega var tilkynnt um kaup vogunarsjóðanna og Goldman Sachs á sunnudagseftirmiðdegi. Í kjölfarið var viðræðum við þá slitið. Í blaðinu segir að lífeyrissjóðirnir sem um ræðir – stærstu lífeyrissjóðir landsins – hafi krafið Kaupþing um bætur vegna þess að ekkert varð af kaupum þeirra í Arion banka. Þeir telja sig hafa orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna útlags kostnaðar í formi kaupa á ráðgjafarþjónustu.
Icora Partners og lögmannsins Þórarins V. Þórarinssonar. Auk þess hafi því fylgt kostnaður að sjóðirnir hefðu verið byrjaðir að losa fé til að geta greitt kaupverðið í ljósi þess að fyrir lá að það þyrfti að greiðast hratt ef næðist saman. Lífeyrissjóðirnir höfðu látið verðmeta Arion banka og samkvæmt því verðmati hefði átt að greiða 52,5 milljarða króna fyrir 29,18 prósent hlutinn. Það er 3,7 milljörðum króna meira en þeir 48,8 milljarðar króna sem sjóðirnir þrír og Goldman Sachs greiddu fyrir hann.
Miðuðu við níu mánaða uppgjörið til að lækka verð
Frá því í febrúar hefur legið fyrir að fram undan væru tíðindi varðandi eignarhaldið á Arion banka. Stærstu eigendur Kaupþings, vogunarsjóðir með höfuðstöðvar í New York, voru að reyna að fá íslenska lífeyrissjóði með sér í að kaupa helmingshlut í bankanum. Lagt var upp með að þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og LSR, myndu leiða kaupin fyrir hönd lífeyrissjóðanna og taka stærstan hlut. Hugmyndin var að lífeyrissjóðirnir myndu taka 25-30 prósent hlut í Arion banka en vogunarsjóðirnir 20-25 prósent hlut.
19. mars varð svo ljóst að lífeyrissjóðirnir kæmu ekki að kaupunum í þessari umferð. Þá var skyndilega tilkynnt að vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-ZiffCapital og Attestor Capital hefðu ásamt fjárfestingabankanum Goldman Sachs keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna í lokuðu útboði. Fjárfestarnir fá einnig kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar á verði sem hefur ekki verið uppgefið, en er sagt hærra en það sem þeir greiddu í þessari lotu.
Samkvæmt stöðugleikasamkomulagi kröfuhafa Kaupþings við íslensk stjórnvöld þurfti að greiða að minnsta kosti 0,8 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé Arion banka þegar hann yrði seldur. Annars gæti íslenska ríkið stígið inn í viðskiptin. Ástæða þess að þetta ákvæði var sett inn er sú að koma átti í veg fyrir að helstu kröfuhafar Kaupþings seldu sér Arion á hrakvirði til að mæta tímamörkunum sem íslenska ríkið hafði sett um kaupin, en bankann þurfti að selja fyrir jánúarlok 2018. Tækist það ekki rynni hann til ríkisins eins og hinir tveir stóru bankarnir.
Afkoma Arion banka fyrir árið 2016 var tilkynnt 13. febrúar síðastliðinn. Skrifað var undir drög að samkomulagi um kaup vogunarsjóðanna þriggja og Goldman Sachs daginn áður. Ástæðan er sú að þá gátu þeir miðað við eigið fé Arion banka samkvæmt níu mánaða uppgjöri ársins 2016, sem var 207 milljarðar króna, en þurftu ekki að miða við eigið féð í árslok, sem var 211 milljarðar króna. Ef skrifað hefði verið undir samninga t.d. 14. febrúar hefði kaupverðið þýtt að greitt hefði verið 79,3 krónur á hverja krónu af eigin fé Arion banka, og ríkið hefði getað stigið inn í viðskiptin í kjölfarið. Þegar miðað var við níu mánaða uppgjörið er kaupverðið 80,7 krónur á hverja krónu af eigin fé, og þar með rétt yfir mörkunum sem ríkið setti. Haldi þessi viðskipti mun íslenska ríkið því ekki geta stigið inn í þau.
Héldu sig í námunda við öll mörk
Þetta eru ekki einu mörkin sem kaupendurnir pössuðu sig á að vera alveg í námunda við. Þeir tveir sjóðir sem keyptu stærsta hlutinn keyptu báðir 9,99 prósent í Arion banka. Ástæða þess var sú að ef þeir keyptu yfir tíu prósent myndu þeir teljast virkir eigendur og þyrftu í kjölfarið að undirgangast mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort þeir væru hæfir til að halda á slíkum hlut í kerfislega mikilvægum banka.
Þótt gefin hafi verið upp nöfn þeirra vogunarsjóða sem voru að kaupa hlut í íslenskum viðskiptabanka, og nafn fjárfestingabankans Goldman Sachs, þá liggur ekkert fyrir um hverjir það eru sem voru að kaupa Arion banka. Þ.e. hverjir séu allir endanlegir eigendur þess fjármagns sem verið er að nota.
Rýr svör við spurningum ráðherra
Þann 3. apríl síðastliðinn var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hafi hafið undirbúning að því að gera mat á hæfi þriggja nýrra eigenda í Arion banka, sem hafa gefið til kynna að þeir ætli að auka hlut sinn og þar með fara með virkan eignarhlut í bankanum. Þessir hluthafar eru TCA New Sidecar III, Trinity Investments DAC og Sculptor Investments.
Þetta kom fram í svari fjármálaeftirlitsins við bréf Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, sem sendi eftirlitinu bréf með ellefu spurningum um nýja eigendur í bankanum. Fjármálaeftirlitið sagði í svari sínu að það sé mat þess að enginn hinna nýju hluthafa fari nú með virkan eignarhlut í bankanum og þess vegna hafi ekki verið framkvæmt neitt mat á hæfi þeirra. Eftirlitið svaraði mörgum spurningum ráðherra ekki nema með þeim orðum.
Í svari Fjármálaeftirlitsins kom fram að allir nýju hluthafarnir eða aðilar þeim tengdir hafi verið meðal kröfuhafa Kaupþings við gerð nauðasamnings félagsins og fara nú með hlut í félaginu. Eftirlitinu sé kunnugt um það að í einhverjum tilvikum hafi verið stofnuð sérstök fyrirtæki eða sjóðir til að halda utan um kaupin á hlutabréfunum.
Fjármálaeftirlitið svaraði hins vegar ekki spurningu ráðherrans um það hvort fyrirtækin eða sjóðirnir hafi haft með sér formlegt samstarf við kaupin og hvort þá þurfi ekki að skoða þau sem eiganda virks eignarhlutar.