Geimvísindastofnun Eþíópíu var stofnuð árið 2004 en það var með byggingu Entoto-geimsjónaukans árið 2015 að geimáætlun landsins komst á flug. Geimsjónaukinn er í 3200 metra hæð yfir sjávarmáli í nánd við höfuðborg landsins, Addis Ababa, en Eþíópía þykir henta sérstaklega vel til stjörnuathugana vegna þess hversu hálent landið er og hversu nálægt það er við miðbaug. Kostnaðurinn við áætlunina og byggingu sjónaukans komu bæði frá stjórnvöldum og ríkum Eþíópum og er honum ætlað að framkvæma geimrannsóknir sem munu skila sér á sviði landbúnaðar og loftslagsmála.
Áformin um að þróa og skjóta upp gervihnetti á næstu árum byggja á sömu rökum; til að hraða þróun landbúnaðar í landinu. Til viðbótar vilja stjórnvöld komast hjá því að reiða sig á gervihnattagögn útbúin af erlendum fyrirtækjum. Gervihnötturinn mun verða smíðaður í Kína og líklega skotinn upp frá kínverskum skotpalli en það er ekki vitað hver kostnaðurinn við hann er eða hvort hann muni búa yfir tækni sem gæti nýst í hernaðartilgangi.
Dýrkeyptir draumar
Eþíópíu er stjórnað af harðri hendi af stjórnmálahreyfingunni EPRDF (Ethiopian People's Revolutionary Democratic Front) sem varð til sem andspyrnuhreyfing gegn einræði Derg-stjórnarinnar svokölluðu sem steypti síðasta keisara landsins, Haile Selassie I, af stóli árið 1974, og stjórnaði landinu með harðri hendi undir formerkjum kommúnisma fram til ársins 1987. EPRDF, sem einnig er að minnsta kosti að nafninu til róttæk vinstrihreyfing, hefur verið við völd síðan snemma á tíunda áratug síðustu aldar og hefur í dag 501 sæti af 547 á þingi.
Eþíópía er eitt hraðast vaxandi hagkerfi í heimi með á milli 8-11% hagvöxt undanfarin áratug en er á sama tíma enn með fátækari ríkjum í heimi, að hluta til vegna tiltölulega mikillar fólksfjölgunar í landinu. Í valdatíð núverandi forsætisráðherra Hailemariam Desalegn varð Eþíópía hraðast vaxandi hagkerfi í Afríku árið 2015, sem er mikið afrek fyrir efnahag sem byggist á landbúnaði, en landið hefur notið góðs af mikilli þróunaraðstoð; einna helst gífurlegra innviðafjárfestinga og lána frá Kína sem hafa fjármagnað verkefni á borð við lestarsamgöngukerfi til Djíbútí og Gibe III-stífluna. Meles Zenawi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, kallaði upphafsmenn geimáætlunarinnar draumóramenn
en geimáætlunin landsins hefur orðið að öðru dæmi um metnað ríkisstjórnarinnar í innviðafjárfestingum.
Hungursneyð vegna þurrku er reglulegt vandamál í Eþíópíu og gekk landið í gegnum sérstaklega slæma þurrku orsakaða af El Niño í fyrra en á þessu ári er búist við því að 5,6 milljón manns munu þurfa neyðar mataraðstoð og 9,2 milljónir manns munu þurfa aðstoð til að nálgast öruggt drykkjarvatn. Þá hefur pólitískur óstöðugleiki einkennt landið uppá síðkastið; í kjölfar mótmæla sem áttu sér stað gegn stjórnvöldum á trúarhátíð í bænum Bishoftu sunnan við Addis Ababa í október í fyrra – þar sem 52 manns voru drepnir af öryggissveitum stjórnvalda samkvæmt stjórnvöldum, en samkvæmt öðrum heimildum er þessi tala mun hærri, allt að 500 manns – lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi í landinu í fyrsta sinn síðan EPRDF kom til valda. Óánægja með kerfisbundnar frelsisskerðingar af hálfu stjórnvalda og ítrekuð brot þeirra á mannréttindum liggur á bakvið mótmælin en harkaleg viðbrögð stjórnvalda við mótmælin hafa ekki hjálpað til með að draga úr spennunni í landinu en þau hafa handtekið tugþúsundir manns og samkvæmt mannréttindasamtökunum Human Rights Watch eru pyntingar iðulega notaðar í gæsluvarðhaldi í landinu.
Vafasöm forgangsröðun
Í ljósi ástandsins eru rökin fyrir því að verja fé til að skjóta upp eiginn gervihnetti tiltölulega veik. Það verður sífellt auðveldara og ódýrara að fá aðgang að gervihnattagögnum og myndum, að minnsta kosti til þeirra nota sem stjórnvöld hafa gefið til kynna að sé fyrir stafni, enda fjölmörg fyrirtæki sem bjóða upp á slíka þjónustu. Spennan í Eþíópíu gefur til kynna að ákveðið rof sé til staðar á milli stórra jaðarsettra hópa innan samfélagsins og áherslur ríkisstjórnarinnar. Þróunarstig landa ætti í sjálfu sér ekki að vera rök gegn metnaðarfullum áætlunum á borð við geimáætlun Eþíópíu sem hefur möguleika á að leiða af sér jákvæðar efnahags- og tækniframþróanir sem á sama tíma getur hraðað iðnvæðingu og búið til starfs- og rannsóknartækifæri í landi þar sem vitsmunaflótti er vandamál. Kringumstæðurnar í Eþíópíu virðast hins vegar velta upp mun fleiri spurningum en svörum um tilgang og nytsemd geimáætlunarinnar.